Search
Close this search box.
Jógaflæði með Þóru Rós Guðbjartsdóttur

Jógaflæði með Þóru Rós Guðbjartsdóttur

Jóga hefur verið iðkað með einum eða öðrum hætti í mörg þúsund ár en jóga eins og við þekkjum það í dag er afleiðing af stöðugri þróun jóga iðkunar á undanförnum öldum. Í dag er jóga stundað út um heim allan og virðist verða vinsælla með hverju árinu sem líður. Þessar vinsældir ættu þó ekki að koma neinum sem stunda jóga á óvart enda frábær leið til þess að styrkja bæði líkama og hug.

Hér að neðan má einmitt finna finna ljúft jógaflæði sem styrkir líkama og hug. Æfingin er í boði Hreyfingar og Nike á Íslandi en það er hún Þóra, þjálfari í Hreyfingu, sem leiðir okkur í gegnum flæðið að þessu sinni.

Meðfylgjandi eru svo nokkrir fróðleiksmolar um jóga og hvað það getur reynst heilsu okkar mikilvægt. Það er því ekki spurning með annað en að koma sér í góðan jógagír og framkvæma æfinguna hér að ofan.

Jóga getur dregið úr streitu

Margir sem stunda jóga tengja það við slökun og minni streitu en margar rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á það hvernig kortisól framleiðsla líkamans dregst saman við jóga iðkun. Það er heilsu okkar nauðsynlegt að nýrnahetturnar gefi frá sér kortisól sem svörun við streitu, en jafn mikilvægt að starfsemi líkamans og kortisólmagn nái aftur jafnvægi eftir streituvaldandi áreiti. Í okkar nútíma samfélagi eru streituvaldarnir hins vegar margir og hætt við því að viðvarandi streituástand, þ.e. magn kortisóls í blóði, viðhaldist lengur en góðu hófi gegnir. Því er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að draga úr streitunni og þar með kortisól framleiðslunni, til dæmis með jóga iðkun.

Jóga getur dregið úr kvíða

Fólk sem stundar jóga af miklum krafti hefur í sumum tilfellum byrjað sína jóga vegferð vegna undirliggjandi kvíða og tengdra vandamála. Svo virðist sem jóga geti hjálpað fólki að draga úr kvíða en fjöldi rannsókna styður við þá kenningu. Í einni rannsókn voru 34 konur, sem höfðu verið greindar með kvíða, fengnar til þess að stunda jóga tvisvar sinnum í viku, í tvo mánuði. Í lok rannsóknarinnar upplifði hópurinn sem stundaði jóga vægari kvíða einkenni, borið saman við samanburðarhópinn.

Jóga getur dregið úr krónískum verkjum

Milljónir manna um heim allan þjást af hinum ýmsu krónísku verkjum dag frá degi en má þar einna helst nefna gigt, bakverki, verki í liðamótum og þar fram eftir götunum. Rannsóknir sem hafa kannað áhrif jóga iðkunar á króníska verki hefur fjölgað á undanförnum árum og hafa niðurstöðurnar gefið til kynna að jóga geti haft jákvæð áhrif fyrir þá sem þjást af krónískum verkjum.

Ein rannsókn frá árinu 2005 sýndi sem dæmi fram á það hvernig jóga gat gagnast þeim sem þjást af slitgigt í hnjánum.

Vissulega er þörf á frekari rannsóknum þegar kemur að áhrifum jóga fyrir fólk sem þjáist af krónískum verkjum en leiða má líkur að því að jóga geti, með einum eða öðrum hætti, gagnast umræddum hópi.

Jóga getur bætt svefninn

Á undanförnum árum hefur umræðan um áhrif svefns á heilsu okkar farið vaxandi. Nýlegar rannsóknir hafa almennt gefið til kynna að sterk tengsl séu milli svefns og heilsufars fólks og að svefninn spili í raun álíka stórt hlutverk fyrir heilsu okkar líkt og hreyfing og matarræði. Þá hafa rannsóknir einnig gefið til kynna að jóga geti hjálpað okkur að sofa betur. Sem dæmi má nefna rannsókn frá árinu 2005, sem náði til þátttakenda sem voru 69 ára gamlir, sem var skipt í þrjá hópa þar sem einn hópurinn iðkaði jóga, annar hópurinn tók inn bætiefni og þriðji hópurinn gerði hvorugt. Þeir þátttakendur sem iðkuðu jóga áttu auðveldara með að sofna, sváfu lengur og upplifðu betri svefngæði, samanborið við hina hópana tvo.

Jóga eykur liðleika og jafnvægi líkamans

Fyrir marga er jóga mikilvægur hluti af líkamsræktinni og þá sér í lagi þegar kemur að því að styrkja smærri vöðva sem og auka liðleika og jafnvægi. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á kosti þess að stunda jóga til þess að auka liðleika og jafnvægi en sem dæmi má nefna rannsókn sem spannaði 10 vikur og leiddi einmitt í ljós að sá hópur þátttakenda sem stundaði jóga jók liðleika og jafnvægi umtalsvert, samanborið við samanburðarhópinn sem ekki stundaði jóga. Önnur rannsókn frá árinu 2013 sýndi fram á það hvernig jóga iðkun gat aukið jafnvægi og hreyfigetu hjá eldra fólki.

NÝLEGT