Search
Close this search box.
„Kæmist ekki af án útivistar og hreyfingar.“ – Bjartur Norðfjörð

„Kæmist ekki af án útivistar og hreyfingar.“ – Bjartur Norðfjörð

Bjartur Norðfjörð er 20 ára jöklaleiðsögumaður sem starfar í versluninni Húrra Reykjavík. Þegar ferðamenn eru á Íslandi starfar hann hjá fyrirtæki sem heitir Troll Expeditions og fer með fólk upp á jökla á suðausturlandi. Samhliða jöklaferðunum stundar hann mikla hreyfingu þar sem Crossfit og hlaup vega hæst, svo gengur hann á fjöll og á það til að hjóla og fara í jóga.

Á dögunum hljóp Bjartur rúma 77 km til að vekja athygli á aðgengismálum fatlaðra. Með hlaupinu safnaði hann fé fyrir fjölskylduvin, Brand Bjarnason Karlsson sem er lamaður fyrir neðan háls og hefur verið í um áratug. Brandur hefur verið dyggur talsmaður fyrir aðgengismálum fatlaðra síðustu ár og hefur til að mynda farið í nokkrar hringferðir um landið til að vekja athygli á þessu málefni. Í vor ætlar Bjartur að ferðast um Ísland og hvetja öll helstu sveitarfélög landsins til að betrumbæta aðgengi sitt enn frekar. Bjartur safnaði með hlaupinu fé sem nýtt verður í baráttu fyrir bættu aðgengi fatlaðra.

H Magasín hafði samband við Bjart til að forvitnast aðeins um hlaupið og fá að kynnast honum aðeins frekar.

Hvernig gekk hlaupið?

Hlaupið um helgina gekk mun betur en ég átti von á. Ég hljóp maraþon núna í haust sem eru 42km svo ég bjóst við því að nánast 80km á einni helgi myndi alveg klára mig. Ég lærði um helgina að ef að maður tekur lítil skref í einu þá er þetta ekkert mál.

Hvað var erfiðast?

Það sem var lang erfiðast voru næturnar vegna þess að ég lagði mig í smá stund og þurfti svo að rífa mig á fætur rétt fyrir 04:00 til þess að negla á hlaup. En um leið og ég var byrjaður að hlaupa var það bara geggjað!

Hlupu einhverjir með þér eða hljópstu einn?

Ég hljóp bæði einn en svo fékk með mér nokkra félaga og líka mömmu og stjúppabba í eitthvað af hlaupunum, sem var æðislegt.

Svafstu eitthvað á þessum 2 sólahringum á meðan þú hljópst?

Ég svaf voðalega lítið en náði að dotta aðeins á milli hlaupa á nóttunni en á sunnudaginn var ég orðinn vel ruglaður á því vegna svefnleysis.

Hver eru þín helstu áhugamál fyrir utan hlaupin?

Mín helstu áhuga mál eru tíska og fatnaður og ég kæmist ekki af án útivistar og hreyfingar.

Hver er þinn íþróttabakgrunnur?

Ég var mikið í frjálsum íþróttum þegar ég var yngri. Hafði gaman af fjölbreytileikanum í þeirri íþrótt

Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?

Heilsusamlegt líf fyrir mér er fyrst og fremst regluleg hreyfing, gott mataræði, andleg heilsa og góð samskipti við vini og fjölskyldu.

Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?

Ég stunda hugleiðslu á hverjum degi og mikla sjálfsskoðun. Passa að vera í góðum tenglsum við fjölskylduna mína og vini. Reyni að vera í núinu

Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?

Hlaupa maraþon, þegar að ég var þannig séð ekkert undirbúinn í það. Ég hafði hlaupið svona 11 sinnum og svo þegar að ég var með félögum mínum upp í bústað ákvað ég að hlaupa maraþon á þjóðveginum. Ég var að drepast í löppunum í lokin en hélt þetta út og kláraði. Ég gat varla labbað vikuna eftir hlaupið.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú vaknar á morgnana?

Flesta morgna er það að klæða mig í stuttbuxurnar og fara á æfingu. Annars bara fá mér kaffi og hafragraut og plana daginn sem er framundan

Hvað þrennt áttu alltaf í ísskápnum?

Lýsi, engiferskot, og haframjólk

Áttu þér einhverja sakbitna sælu (quilty pleasure)?

Þriðjudagstilboð á dominos

H Magasín þakkar Bjarti kærlega fyrir spjallið og óskar honum alls hins besta.

NÝLEGT