Hér kemur uppskrift fyrir þá sem hafa áhuga á því að búa til kasjúhnetumjólk. Aðferðin er nokkuð einföld og svo þess virði!
Innihald – kasjúhnetumjólk:
- 150-200 grömm af kasjúhnetum frá Himneskri Hollustu
- 500-750 ml kalt vatn
- Sæta eftir smekk (ég notaði 1 msk af hlynsírópi frá Naturata)
Aukalega:
1 tsk af kakódufti frá Himneskri Hollustu
Aðferð – kasjúhnetumjólk:
Byrjið á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti í 30 mínútur. Hellið vatninu svo frá og skolið hneturnar undir köldu vatni. Mér þykir best að leggja kasjúhneturnar í sigti og skola þær undir krananum.
Setjið kasjúhneturnar svo í blandara ásamt hreinu, köldu vatni og sætu að eigin vali. Ef þú vilt rjómakennda mjólk þá mæli ég með að byrja á 500 ml af vatni og nota 200 grömm af hnetum. Það er svo alltaf hægt að bæta við meira af vatni og blanda áfram ef maður vill þynna mjólkina aðeins.
Þegar kasjúhneturnar eru allar leystar upp og búnar að blandast vel saman við vatnið þá er mjólkin tilbúin. Endilega smakkið hana til og bætið við sætu ef þið viljið. Það þarf ekki að sigta frá hratið sem myndast eins og gerist með möndlumjólk en ég persónulega sleppti því vegna þess að ég finn lítið fyrir því annað en með möndlumjólkina. Do or don’t, þið ráðið!
Súkkulaðimjólk: Ég skipti kasjúhnetumjólkinni í tvennt og bætti við 1 tsk af kakódufti og hrærði í nokkrar sekúndur í viðbót til að gera súkkulaðimjólk! Ég mæli með að prófa sig áfram með skemmtileg hráefni eins og t.d. jarðaber, döðlur eða banana!
Geymið mjólkina í loftþéttu íláti og inn í kæli, helst ekki í „hurðinni“. Ég geymi alltaf heimatilbúna plöntumjólk innst inn í kæli svo hún „truflast“ ekki þegar kælirinn er opnaður. Geymið mjólkina í 3 daga.
Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram en ég er undir nafninu astaeats. Ef þið prófið þessa uppskrift eða bara hvaða uppskrift sem er frá mér megið þið endilega senda á mig hvernig tókst till.
Þangað til næst, verið heil og sæl!
Höfundur: Asta Eats