Kasjúhnetusmjör kemur að ýmsum notum og því ákvað ég að henda í lauflétta uppskrift hér fyrir lesendur H Magasín.
Innihald:
- 400 grömm af kasjúhnetum frá Himneskri Hollustu
- Salt eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn upp í 160°C og ristið kasjúhneturnar upp úr örlitlu salti í 15 mínútur. Passið að brenna þær ekki. Leyfið hnetunum að kólna aðeins og setjið þær svo í matvinnsluvél og blandið saman.
Fyrst verða kasjúhneturnar að grófu mjöli. Þið þurfið stoppa, skrapa meðfram hliðunum og halda áfram að blanda nokkrum sinnum. Olían fer svo smá saman að losna úr hnetunum og þær verða þá að deigi eða deigkúlu. Haldið áfram að blanda þar til þið fáið áferð sem ykkur líst vel á. Það er góð regla að blanda alltaf örlítið lengur en þú ætlaðir þér, 2-3 mínútum lengur.
Af einhverri ástæðu þá tekur kasjúhnetusmjörið miklu styttri tíma en þegar ég geri möndlusmjör. Kannski er það vegna þess að kasjúhnetur eru meira „creamy“. Ég var 15-20 mínútur að blanda kasjúhnetusmjörið en ég hef verið 40 mínútur að blanda möndlusmjör.
Geymið kasjúhnetusmjör í lokaðri krukku eða loftþéttu íláti. Það er hægt að geyma það inn í ísskáp eða einfaldlega upp í skáp, á dimmum stað sem ég kýs frekar að gera. Kasjúhnetusmjör endist í einhverja mánuði, þó mæli ég með að klára það innan 4-5 vikna upp á bragðið. Ég er allavega fljót að tæma mína krukku get ég sagt! Takk kærlega fyrir að lesa færsluna mína og njótið!
Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram en ég er undir nafninu astaeats. Ef þið prófið þessa uppskrift eða bara hvaða uppskrift sem er frá mér megið þið endilega senda á mig hvernig tókst til.
Þangað til næst, verið heil og sæl!
Höfundur: Asta Eats