Ótrúlegt en satt þá er hægt að gera ljúffeng skinkuhorn án þess að þau séu stútfull af kolvetnum. Þessi ketó skinkuhorn frá Maríu Kristu eru algjör „life saver“ fyrir þá sem eru á ketó en sakna gömlu góðu skinkuhornanna.
Innihald:
- 300 g rifinn mosarella ostur
- 50 g rjómaostur
- 50 g kókoshveiti
- 1 msk Husk
- 120 g eggjahvítur u.þ.b. 4 hvítur
- 1/2 tsk vínsteinslyftiduft
- salt
- skinkumyrja um hálf askja
- 4 sneiðar af skinku, skorin í bita
Aðferð:
Hitið ostana í örbylgjuofni í 30 sek í senn þar til þeir eru fljótandi, bætið við eggjahvítum og þurrefnum, hnoðið deigið í hrærivél eða matvinnsluvél og fletjið síðan út á milli tveggja laga af smjörpappír. Deigið á að vera mótað í hring svo hægt sé að deila honum í 8 stykki.
Smyrjið skinkumyrju yfir deigið, dreifið skinkubitum yfir og skerið í átta “pizzusneiðar”. Rúllið upp hverjum fyrir sig og raðið á smjörpappírsklædda bökunarplötu.
Pískið eina eggjarauðu og penslið yfir hornin. Gott er að dreifa dálitlum sesamfræjum yfir áður en hornin fara í ofninn.
Bakið á 200° í 10-15 mínútur eða þar til hornin hafa blásið út og eru gyllt á lit.