Við vorum búin að taka á leigu flotta íbúð í Nørrebro og fór virkilega vel um okkur þar en íbúðin er stödd í ca. 15 mínútna göngufjarlægð frá Strikinu. Það rigndi vel á okkur um helgina í Köben en við létum það ekki stoppa okkur þar sem við vildum helst sjá allt það skemmtilega sem borgin hefur uppá að bjóða. Fyrir utan mikið labb borðuðum við á fjölmörgum veitingastöðum en þeim verða gerð góð skil hér fyrir neðan ásamt öðru sem við skoðuðum.
Veitingastaðurinn California Kitchen er staðsettur í einungis 5 mínútna göngufjarlægð frá íbúðinni sem við vorum með á leigu og eftir að við vorum búin að henda af okkur töskunum var gott að setjast þar inn og fá okkur létt að borða. Staðurinn er mjög snyrtilegur með góðu andrúmslofti þar sem hollustan leynir sér ekki. Við fengum okkur ‘’Mexico bowl“ með kínóa, svörtum baunum, marineruðu tófu, guacamole, steiktu grænmeti og salsa. Mæli með þessum!
Ef ég mætti ráða byrjuðu allir mínir morgnar á 42 Raw en þann veitingastað verða allir að heimsækja. Hollur og bragðgóður matur, unninn frá grunni án alls viðbætts sykurs og án allra dýraafurða. Þá skemmir framsetningin á matnum ekki fyrir. Ég verð allavega aldrei fyrir vonbrigðum þegar ég borða á 42 Raw.
Nicecream Copenhagen er staðsettur á tveimur stöðum í Köben. Ísinn er gerður á staðnum, lífrænn, 100% Vegan og alveg einstaklega bragðgóður.
Á laugardeginum löbbuðum við Löngulínu, skoðuðum Litlu hafmeyjuna ásamt fallegu Amalíuborg. Á leið okkar til baka þræddum við Papirøen sem er matarmarkaður staðsettur á móti Nýhöfninni. Stemningin þar inni er engu lík, allt svo afslappað og matargleðin leynir sér ekki. Um er að ræða sirka 35 veitingastaði í stórri vöruskemmu með götumat eða “street food“ frá öllum heimshornum og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Við urðum að láta góðan drykk duga á Papirøen í þetta skiptið þar sem við vorum ennþá að ná okkur niður eftir vægast sagt geggjaðan brunch á veitingastaðnum Souls, ég er að segja ykkur það þennan verða allir að prófa. Ferskt hráefni og falleg framsetning á matnum setur klárlega punktinn yfir i-ið. Ég mæli með að panta borð fyrirfram því staðurinn er oft þétt setinn.
Það er einn staður í viðbót sem mig langar að mæla með sem við prófuðum. Staðurinn heitir Neighbourhood en þar fást alveg sérstaklega góðar pizzur að mínu mati. Á matseðlinum er ein Vegan pizza sem ber nafnið “Almond Peas“ en hún er toppuð með möndlu ricotta, trufflu olíu, reyktum rauðlauk ásamt klettasalati. Mjög flott þjónusta á þessum nútímalega og töff veitingastað.
Ég keypti mér þessa götuskó úti en þeir heita Nike Internationalist. Þar sem að ég er mikil sneaker kona munu þessir alveg pottþétt koma sér vel við flottar gallabuxur og bol eða skyrtu.
Jafnvel þótt það hafi rignt duglega á okkur yfir helgina þá er alltaf gaman að koma til Köben en borgin hefur uppá margt að bjóða. Þar er mjög gott úrval verslana og veitingastaða og fallegar byggingar og garðar einkenna borgina enda á hún sér langa og merka sögu. Það er óhætt segja að matur hafi átt hug okkar allra um helgina en við fórum a.m.k. ekki svöng heim úr þessari miklu matarborg. Nú er ég hins vegar mætt aftur til Kalmar í Svíþjóð að klára seinni hlutann í flugnáminu en það verður nóg að gera hjá mér næstu þrjár vikurnar eða svo. Ég finn fyrir mikilli spennu að koma heim til Íslands eftir námið og komast í góða rútínu. Mest hlakkar mig til að mæta í ræktina og elda góðan mat en fyrst og fremst að hitta fjölskyldu og vini. Þangað til ætla ég að njóta lífsins hérna úti því þessi tími verður fljótur að líða og áður en ég veit af verður dvöl minni hérna úti lokið og eftir standa ekkert nema góðar minningar.
Takk fyrir að lesa!
instagram: sigrunbirta