Kolbeinn Höður: Hraði

Kolbeinn Höður: Hraði

Vertu þolinmóður Kolbeinn, góðir hlutir gerast hægt.

Þeir eiginleikar eru vinnusemi, þolinmæði og rétt hugarfar sem er kaldhæðnislegt því þessir eiginleikar eru einskonar andstæða hraðans. Það að skipa sér í sæti við hlið þeirra bestu tekur tíma sem krefst þess af manni að vera þolinmóður og vinna jafnt og þétt í átt að markmiðum sínum. Engar styttri leiðir, maður verður ekki heimsmeistari á einni nóttu. Síðast en ekki síst er það rétt hugarfar sem skilur að góða íþróttamenn og frábæra íþróttamenn. Að lesa þetta fær þig eflaust til þess að ranghvolfa augunum og trúðu mér, á mínum yngri árum gerði ég það svo sannarlega þegar ég heyrði þjálfarann minn segja: „Ég er viss um að það er hausinn á þér sem er að fara svona með þig.“ Og það sem fór hvað mest í taugarnar á mér var þegar hún móðir mín sagði þegar illa gekk: „Vertu þolinmóður Kolbeinn, góðir hlutir gerast hægt.“

Vinnusemi gagnvart íþróttinni var eitthvað sem einkenndi mig því ég var og er ekki smeykur við að leggja inn vinnuna til þess að ná settum markmiðum. Ég vil alltaf gera aðeins meira, einn auka sprett, eina lyftu í viðbót, alltaf aðeins meira. Þetta hugarfar er kannski minn helsti styrkleiki, en á sama tíma hefur þetta verið minn mesti veikleiki. Hugsunin mín var á þann veg að þar sem ég væri að gera alltaf aðeins meira en hinir þá vildi ég og eiginlega ætlaðist til þess að uppskera fljótt og jafnvel strax. Ég hef í ófá skipti gert mér vonir um árangur og orðið fyrir vonbrigðum með útkomuna. Þetta er fullkomlega eðlilegt því brekkan er ekki alltaf beint upp á við. Það koma brattari brekkur en maður er vanur, flatlendi stundum í mjög langan tíma og þegar erfiðast er vísar þessi brekka jafnvel niður, sem er verst. Við þessar aðstæður er lykilatriðið að reima á sig skóna, vera þolinmóður og vinna sig upp hægt og bítandi.

Með vinnusemi, þolinmæði og réttu hugarfari að vopni, er ekkert sem fær þig stöðvað.

Höfundur: Kolbeinn Höður Gunnarsson

NÝLEGT