Fjallgöngur eru ekki bara fyrir gallharða göngugarpa, heldur eru þær holl hreyfing sem hentar nær öllum. Göngurnar auka þolið, styrkja vöðvana og bæta andlega líðan. Hvernig væri að reima á sig gönguskóna og halda af stað?
Þegar byrjað er að ganga á fjöll er best að velja fyrst stuttar leiðir og hafa með sér göngufélaga. Þú þarft ekki að fara í keppni við neinn til að ná sem fyrst á toppinn, farðu frekar á þínum hraða, njóttu þess að vera úti og andaðu að þér ferska loftinu. Eftir því sem þolið verður betra getur þú gengið lengri leiðir og brattari brekkur. Þú þarft ekki að fara í margar fjallgöngur til að finna mun á þér og þú verður örugglega ferskari og hressari við að hreyfa þig. Ef þér finnst erfitt að koma þér af stað, er gott að fara af stað beint eftir vinnu eða skóla, til að freistast ekki til að slaka á í sófanum heima. Þú getur svo slappað vel af eftir gönguna!
Skráðu göngurnar
Það er ótrúlega gaman að stunda fjallgöngur með markvissum hætti og jafnvel fara á fjallanámskeið. Þar lærir þú heilmikið um fjallamennsku, um leið og það er góð leið til að koma sér af stað í reglulega hreyfingu, fara á ný fjöll og kynnast öðrum sem sama áhugamál.
Hvetjandi er að halda skrá yfir göngurnar. Þú getur t.d. tekið sjálfu á toppnum og skrifað hjá þér hvar myndin er tekin, hversu löng leiðin var og hversu langan tíma það tók þig að ganga, nú eða notað síma-app á borð við NikeRun Club eða Runkeeper. Markmiðið getur falist í að fara í eina fjallgöngu á viku, ná ákveðnum fjölda yfir heilt ár, t.d. 50 göngum, eða keppa við tímann. Síðan er skemmtilegt að kynna sér fjöllin sem gengið er á, finna út hvaðan heiti þeirra koma, hversu há þau eru og hvort einhverjar sögur tengist þeim.
Klæddu þig vel
Þú þarft að gera ráð fyrir að veðrið breytist á meðan þú gengur á fjöll og stundum er kalt og vindasamt á toppnum. Klæddu þig í nokkrum lögum, þá getur þú farið í og úr flíkum eftir því hvað þér er heitt. Gott er að vera í léttri ullarflík næst húðinni, síðan í flís og loks skel til að verja þig fyrir vindi og/eða regni. Síðan er tilvalið að hafa létta dúnúlpu í bakpokanum ef það verður kalt.
Góðir skór eru lykilatriði. Vandaðu valið á skóm og ekki spara í þeim efnum. Léttir gönguskór með góðum sóla henta t.d. vel fyrir styttri fjallgöngur í kringum höfuðborgarsvæðið. Margir kjósa að nota göngustafi, ekki síst þegar gengið er niður brattar brekkur en stafirnir létta á álagi á hnén. Ef það er farið að dimma er gott að vera með höfuðljós. Síðan er bráðnauðsynlegt að hafa með sér létt nesti og drykk.
Hvaða fjöll er gaman að ganga á?
Úlfarsfell
Eitt vinsælasta fjallið í borgarlandinu, sem hentar fyrir alla. Þú getur valið um margar leiðir upp á toppinn, sem eru mislangar og miserfiðar en fellið er 296 m hátt. Það tekur um 40 mínútur að ganga frá skógræktinni upp á fjallstoppinn. Þú getur lagt bílnum við skógræktarsvæðið, sem er við Vesturlandsveg. Flestar leiðirnar eru stikaðar.
Mosfell
Mjög skemmtilegt fyrir létta fjallgöngu, og hentar öllum. Mosfellið er 280 m hátt og gangan tekur um 1-2 tíma. Þú leggur bílnum við kirkjuna á Mosfelli og heldur þaðan í gönguna. Leiðin er stikuð frá kirkjunni.
Helgafell
Sérlega vinsælt fyrir fjallgöngur, enda skemmtilegt fjall og gangan þægileg. Leiðin verður brattari þegar þú nálgast toppinn en fjallið er um 340 m hátt. Á toppnum er útsýniskífa. Þú getur lagt bílnum fyrir ofan Kaldársel og þaðan er gengið eftir slóða að fjallinu. Ef þú ert ekki í stuði fyrir fjallgöngu er gaman að ganga í kringum Helgafellið.
Valahnúkar
Þægileg leið sem hentar öllum. Stærsta hluta leiðarinnar er greinilegur slóði. Þú leggur bílnum fyrir ofan Kaldársel og gengur sömu leið og að Helgafelli, beygir til vinstri og þar blasa Valahnúkar við.
Fyrir fjallgönguna mælum við með
Nike Air Zoom Pegasus Trail hlaupaskóm sem henta frábærlega í léttar fjallgöngur, þeir eru þægilegir og með gott grip.
Houdini Power Houdi peysu svo þér verði hvorki of kalt né of heitt.
Houdini Cloud úlpu sem kemst vel fyrir í bakpokann og heldur á þér hita ef það verður of kalt.
Houdini BFF jakka sem hlífir þér við vindi og veðrum, hleypir út hita og kemur í veg fyrir að þú blotnir ef það rignir.
Nike húfu svo þú fáir ekki eyrnaverk.
Mama Chia orkubar til að þú fáir holla og góða næringu og náir að hald blóðsykrinum í jafnvægi.
Camelbak bakpoka fyrir símann, nestið og fatnaðinn.