Konur þurfa járn

Konur þurfa járn

Höfundur: Ragga nagli

Hér er ekki átt við steinefnið járn þó sumar þurfa þess vissulega. Heldur er hér átt við galvaníseraða stöngina í ræktinni.

Hvort sem hún borist ofan í axlir í hnébeygju, rífi upp lófa í upphífingum eða sleiki sköflunga í réttstöðulyftu

Af hverju er það gott fyrir okkur kvensurnar að rífa í járn?

Hormónajafnvægi

Járnrífingar eru eina æfingaformið sem keyrir upp testósterón og estrógen í líkamanum. Að slíta upp járn af gólfi sendir flöskuskeyti til líkamans um að nú þurfi að byggja kjöt á grindina og styrk í vöðvana. Til þess að byggja upp kjöt á grindina og viðhalda vöðvamassa þarf líkaminn að hafa hormónabúskap eins og unglingur. Sem þýðir að í kjölfar viðskipta okkar við stálið þarf testósterónið að dúndrast upp bæði í körlum og konum, og hormónabúskapurinn í okkur kvensunum verður í mun betra jafnvægi. Estrógrenmagnið verður betra með auknum vöðvamassa. Líkaminn verður líka betri í að nýta insúlín sem þýðir jafnari blóðsykur. Önnur hormón eins og vaxtarhormón og DHEA aukast í skrokknum eftir lyftingar, svo þú getir farið aftur að rífa í stálið og þannig haldið áfram að minnka fituvef og þannig haldið estrógeni í góðu jafnvægi.

Frammistaða fram yfir útlit

Lyftingar breyta ekki aðeins líkamlegu útliti með að gera skrokkinn þéttari og lögulegri. En það sem er mikilvægara er að lyftingar breyta líka athygli þinni. Þú öðlast dýpri virðingu fyrir hvað líkaminn þinn GETUR sem færir fókusinn frá útlitinu yfir á frammistöðu. Þú lærir að elska og kunna að meta líkamlega getu sem leiðir oft heilbrigðara sambands við mat og og æfingar. Því þú ferð að næra þig og æfa af sjálfsást í staðinn fyrir að vera aldrei nógu mjó, nógu grönn, nógu lítil.  Með því að fókusa á lyftingar æfirðu og fóðrar skrokkinn fyrir hámarks frammistöðu til að verða stærri og sterkari. Í staðinn fyrir að hlaupa og hamast kroppa eins og spörfugl horuðum snæðingum til að verða minni og mjórri.

Þú tætir ekki upp réttstöðulyftu með að sleikja spínat í kvöldmat.

Eina talan sem skiptir máli verður talan á stönginni, og þér verður skítsama um töluna á vigtinni. Hamingjan hættir að liggja í hvað stafrænn járnjálkur á baðherbergisgólfinu segir á morgnana. Virði þitt sem manneskja liggur ekki í buxnastærð eða sambandi þínu við þyngdarafl jarðar.

Þegar þú skiptir fókus frá útliti yfir á frammistöðu verða æfingarnar mun ánægjulegri.

Að færa stál úr stað og bæta skífum á stöng keyrir upp sjálfstraustið sem því miður í nútímasamfélagi er eyðimerkurlenda hjá mörgum konum. Það er fátt meira valdeflandi sem kona en að slíta upp járn í réttstöðulyftu.
Þetta aukna sjálfstraust fylgir konum síðan útúr buffbúrinu yfir í hið daglega líf með hnakkann reistan og kassann fram.

Prófaðu að henda í þig hreinu kreatíni fyrir æfingu til að hjálpa við að auka styrk og stuðla að hámarks vöðvabyggingu.

Hærri grunnbrennsla

Af því líkaminn sendir skilaboð um að þjappa upp vöðvamassa til að höndla álagið næst þá er kallaður aukamannskapur á vakt til að hnoða í vöðva og auka styrk. Það leiðir til að maskínan þín verður kaloríusuga líka meðan þú vermir sófasettið að horfa á Netflix.

Mikil þolþjálfun sendir skilaboð til líkamans um að vera skilvirkur í að nýta hitaeiningar af því við þurfum mikið úthald. Líkaminn bregst oft við með að minnka vöðvamassann því hann er óþarfa farangur í úthaldsþjálfun. Í þolþjálfun nýtirðu hitaeiningar í að knýja þig áfram einungis á meðan þú framkvæmir æfinguna, en eftir að þú refsar lóðunum ertu í prótínmyndun, hreinsun á mjólkursýru og vöðvabyggjandi fasa í 24-72 tíma eftir að æfingu lýkur. Sem þýðir að grunnbrennslan er í dúndrandi botni í næstum 3 daga eftir æfingu.

Prófaðu að dúndra L-glutamine eftir æfingu til að keyra viðgerðarferlið í fimmta gír.

Viltu brenna fitu sjálfvirkt eða handvirkt? Viltu vera á fullu gasi að brenna smjör af skrokki meðan þú pikkar á lyklaborðið í vinnunni, eða einungis þegar þú ert löðursveittur í hlaupagallanum?  

Þegar útlitslegir staðlar eru drifkrafturinn býr oftar en ekki til óheilbrigt samband við æfingar og jafnvel síðri árangri, jafnvel þó þú mætir samviskusamlega í ræktina upp á punkt og prik. Besta langtímanálgunin við hreyfingu er að setja upp ný gleraugu og einblína á allt það dásamlega sem æfingar hafa í för með sér. Það er kaldhæðni örlaganna að með því að hætta að vera þræll spegilsins leiðir samt til betra útlits.

Því heilbrigður líkami lítur vel út. Óheilbrigður líkami lítur ekki vel út.

Þegar prímus motor eru magi, rass og læri leiðir oft til að heilsunni er varpað á bál ofþjálfunar, refsingar, horaðra snæðinga, sveltikúra og dítoxdjúsa.

Þegar frammistaða og bætingar eru prímus motor er heilsan sett í forgang og hlustað á líkamann og svarað á viðeigandi hátt þegar hann er þreyttur, svangur og orkulítill.

Konur hræðast oft galvaníserað stálið af hræðslu við að verða buffaðar á örfáum vikum. Ef þú ert með slíkt stökkbreytt gen að buffast upp á aðeins örfáum vikum við að færa stál úr stað þá skaltu drífa þig niður í Decode til Kára í rannsókn.

En ef þú ert eins og 99.9999% kvenkyns sem hafa ekki yfir testósterónbúskap að ráða fyrir slíka kjötbyggingu þá þarftu ekkert að óttast.

Það eina sem gerist er að sjálfstraustið keyrist upp í himinskautin, sjálfsánægjan hangir í ljósastaurum, bætingarnar koma á færibandi, grunnbrennslan dúndrast í fimmta gír og skrokkurinn þéttist og mótast.

Þegar hugarfarið breytist frá endalausu ströggli að verða minni og mjórri yfir í að æfa til að verða stærri, sterkari og betri er algjör leikbreytir fyrir heilsu, sjálfstraust og sjálfsöryggi.

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

NÝLEGT