Search
Close this search box.
Kosning í KitchenAid leik Himneskrar Hollustu

Kosning í KitchenAid leik Himneskrar Hollustu

Kjóstu hér!

Júlía Mai – Sítrónu Ostakaka

(Einföld vegan hrákaka)

Botninn:

3 partar hnetur (ég notaði möndlur og heslihnetur)
1 partur döðlur
Látið sjóða í ca 10 mín og vinnið síðan saman í matvinnsluvél þangað til blandan er gróflega blönduð saman. Fletjið út á bökunarpappír með höndunum í kökuform og látið kólna áður en sett er í kæli á meðan kremið er útbúið.

Ostakökukremið:

Blanda öllu í matvinnsluvél:

6 dl kasjúhnetur sem legið hafa í bleyti helst yfir nótt.
1,5 dl hrásykur
1,5 tsk vanilludropar
1 tsk salt
1 matskeið agavesíróp
Sítrónubörkur af einni sítrónu (og safinn úr hálfri eða eftir smekk!)

Þegar blandan er búin að vinna í smátíma er 1,5 dl kókosolíu (bræða í potti fyrst) hellt út í og unnið saman við þar til kremið er mjúkt og fallegt. Kremið er þá sett yfir botninn og kakan færð í kæli yfir nótt.

Ég skreytti í þetta skipti bara með sítrónuberki en það er frábært að nota fersk bláber & myntulauf líka.

Ásta Magnúsdóttir – Hnetunammi

Innihald:

6-8 msk af hnetusmjöri
15 döðlur (lagðar í heitt bleyti)
2 skvísur af hlynsírópi
4 dl hakkaðar maískornflögur, t.d. kornflex eða maískex frá Himneskri hollustu
1 dl hakkaðar jarðhnetur (má sleppa og setja meira af kornflögum)
300 grömm dökkt súkkulaði 

1. Byrjið á því að leggja döðlurnar í heitt bleyti í 5 mínútur en það mýkir döðlurnar. Ég nota sjóðandi vatn sem að ég hita með hraðsuðuketil, alls ekki nota heitt kranavatn. Þið hellið svo vatninu frá en það á ekki að nota vatnið í þessa uppskrift. 

2. Næst skal hakka kornflögurnar og jarðhneturnar niður, ég notaði matvinnsluvélina mína en það er auðveld og fljótleg aðferð en að skera niður í bita sjálf. Setjið svo hneturnar og kornflögurnar saman í sér skál. 

3. Setjið döðlurnar og hnetusmjörið í matvinnsluvél ásamt 2 skvísum af hlynsírópi, blandið saman þar til þið fáið límkennt deig. Ef deigið er of þurrt er gott að bæta við örlitlu af heitu vatni. 

4. Færið deigið í skálina með kornflögunum og jarðhnetunum og blandið vel saman með sleif. Að því loknu skal leggja deigið í bökunarform en setjið bökunarpappír fyrst í formið. Stappið deigið niður með sleifinni og hafið deigið sem jafnast. 

5. Frystið deigið í a.m.k. 4 klukkustundir, að því loknu skal skera deigið í bita. Ég skar í langa, mjóa bita en það er líka sniðugt að skera í marga litla bita og búa til marga litla mola, svolítið eins og konfekt. 

6. Næst skal dýfa bitunum í bráðið súkkulaði. Ég bræddi mitt súkkulaði með nokkrum teskeiðum af kókosolíu í örbylgjuofninum en það er örugglega betra að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði þó það taki lengri tíma. Setjið bitana inn í kæli/frysti í 30 mín og berið fram beint úr kæli/frysti

Hjördís Lára H – Kanilsnúðar

Innihald í deigi:

22 g ger
2,5 dl mjólk
80 g kókosolía frá Himneskri Hollustu (með bragði)
1 msk reyrsykur frá Himneskri Hollustu
0,5 tsk salt
1 tsk kardemommur
1 lítið egg
3,5 dl hveiti
3 dl fínt spelt frá Himneskri Hollustu 

Fylling:

80 g kókosolía (með eða án bragðs)
2 msk caylon kanill
90 g púðursykur
75 g marzipan 

Ég læt snúðana lyfta sér tvisvar (eftir hnoð og svo þegar þeir eru komnir á ofnplötuna) og bakaði þá í sirka korter við 170° og blástur.
Bara athuga að þar sem það er notuð kókosolía en ekki smjör verður deigið mjög lint og rifnar auðveldlega upp þegar það er flatt út, smá nostur við það en alveg þess virði.

Júlía Hvanndal – Rocky Road bitar

Innihald í botni:

4 msk hörfræ blandað í 150ml vatn og lagt til hliðar (í stað eggja)
1 bolli kókosolía (brætt í potti)
2/3-1 bolli reyrsykur (eftir smekk)
1/2 bolli agave síróp
2 tsk vanilludropar
2 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 bolli kakó (ósætt)
240 gr spelthveiti
60gr möndlumjöl

Karamella:

30-40 döðlur
Reyrsykur eftir smekk
Sjóðandi vatn

Toppur:

Hnetur og fræ að eigin vali
70% súkkulaði skorið smátt

Leiðbeiningar:

1. Hrærið vel saman kókosolíu, reyrsykri, agave og vanilludropum.

2. Bætið hörfrævatnsblöndunni við og hrærið vel saman.

3. Bætið lyftidufti, sjávarsalti og kakó við blönduna og hrærið vel saman.

4. Bætið að lokum spelthveiti og möndlumjöli varlega með sleif.

5. Bakið í 15-20 mín (passa að baka ekki of lengi) í litlu skúffukökuformi. Gott að leggja bökunarpappír í skúffuna.

6. Maukið sirka 30-40 döðlur í matvinnsluvél í smástund. Bætið örlitlu sjóðandi vatni út í og reyrsykri eftir smekk og haldið áfram að mauka þar til maukið verður létt og karamellukennt. (Tekur nokkrar mínútur).

7. Smyrjið döðlukaramellunni yfir botninn og stráið hnetum (valhnetum, pistasíuhnetum etc), graskersfræjum og 70% söxuðu súkkulaði að lokum yfir döðlukaramelluna.

8. kælið í 30 mínútur áður en skorið er í bita.

Ólöf Jónsdóttir – Focaccia brauð

Innihald:

2 dl volgt vatn
2 msk hvítlauksolía frá Himneskri hollustu
2 tsk þurrger
1 tsk reyrsykur frá Himneskri hollustu
1 tsk salt
4 ½ -5 dl spelt frá Himneskri hollustu, getur verið annað hvort fínt eða gróft eða blandað.
Hvítlauksolía frá Himneskri hollustu, salt og kryddjurtir til að láta ofan á. 

1. Stillið ofninn á 200 gráður og blástur.

2. Mælið allt í skál og hrærið vel saman.

3. Breiðið yfir deigið og látið það lyfta sér í skálinni í 20-30 mínútur.

4. Hnoðið deigið og bætið við mjöli ef þarf, deigið á að vera næstum því klístrað.

5. Fletjið deigið út með höndunum í 1 ½ -2 cm þykka köku og látið á plötu. Það getur verið ágætt að láta smá olíu á hendurnar áður en maður fletur deigið út.búið til holur í deigið með fingrunum.

6. Pennslið með hvítlauksolíunni og stráið yfir saltflögum og kryddjurtum, ferskum eða þurrkuðum

7. Látið lyfta sér í 20-30 mínútur.

8. Bakið í 10-15 mínútur.

Sterkara hvítlauksbragð má fá með því að bæta í deigið smátt söxuðum hvítlauk eða hvítlaukskryddi.

Þetta eru fimm uppskriftir sem þið kæru lesendur megið endilega hjálpa okkur að velja úr. Vinningshafinn verður tilkynntur þann 5.mai.

Kjóstu hér!

NÝLEGT