Höfundur: Coach Birgir
Liðleikaæfingar eru stór og mikilvægur þáttur í fjölbreyttri þjálfun og hjálpa til við að ná aukinni tækni í æfingum og getu til þess að gera æfingarnar sem við stundum bæði rétt og í fullum hreyfiferli. Regluleg ástundun teygju- og leiðleikaæfinga dregur líka úr líkum á meiðslum og/eða minniháttar áverkum.
Liðleiki og hreyfanleiki líkamans segir til um hversu hæfur líkaminn er til þess að hreyfa sig óhindrað og lengdina sem vöðvar og liðir eru færir um að teygja sig á þægilegan og óheftan máta. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á og ákvarða hversu liðug og hreyfanleg við erum. Má þar helst nefna þætti eins og miðtaugakerfið, eymsli og/eða skaðar í vöðvum og vöðvafestingum sem og hreyfigeta liða.
Að vinna að og viðhalda góðum liðleika í öllum líkamanum er afar mikilvægt þegar kemur að getu og árangri í öllum íþróttum og æfingum sem við stundum. Í gegnum tíðina hefur þetta þó verið sá þáttur þjálfunarinnar sem oftast hefur verið vanræktur og settur til hliðar fyrir aðrar ”mikilvægari” æfingar.
Hvaða æfingar eru með þeim mikilvægustu
Sannleikurinn er samt sá að fáar æfingar eru eins mikilvægar og liðleika- og teygjuæfingarnar og ætti frekar að leggja ofuráherslu á þann lið þjálfunar frekar en að minnka vægi hans. Á það sér í lagi við þegar æfingaálagið er mikið og líkaminn fær mögulega takmarkaðan tíma til endurheimtar.
Þegar rætt er um leiðleikaæfingar er það oft látið líta þannig út að mikilvægi þeirra eigi aðeins við fyrir þá sem stunda íþróttir af kappi eða æfa undir miklu álagi. Þetta er mikill misskilningur og vert að taka það fram að liðleikaæfingar eru mikilvægar fyrir okkur öll. Reyndar eykst mikilvægið til muna þegar við eldumst og þurfum virkilega á því að halda að viðhalda og auka hreyfanleika og teygni í liðum og vöðvum.
Mörg okkar kannast vel við að þjást reglulega af verkjum í baki og/eða hnjám en slíka verki má oft rekja til stirðleika í liðum og vöðvum. Ef við höldum áfram að rekja keðjuna, má rekja stirðleikann til þess hve löngum tíma við verjum sitjandi allt árið um kring. Við sitjum í bílnum, við sitjum í vinnunni, á meðan við borðum, horfum á sjónvarpið og njótum samverustunda með fjölskyldu og vinum. Oft á tíðum sitjum við hreinlega daginn út í gegn án þess að velta því fyrir okkur eða finnast það skrítið á nokkurn hátt.
En líkaminn er bara alls ekki gerður til þess að sitja og þegar við sitjum svona mikið leiðir það til þess að vöðvar í mjöðmum, maga, baki, lærum og rassi veikjast, styttast og stirðna til muna. Með tímanum leiðir þetta til þess að efri líkaminn fer hægt og rólega að síga fram á við og bak-, mjóbaks-, og/eða hnjámeiðsli og verkir fara að gera vart við sig.
En hvernig getum við komið í veg fyrir þetta
Til þess að koma í veg fyrir þetta skiptir mestu að standa reglulega upp yfir daginn og hreyfa okkur í 5-10 mínútur í senn. Þetta getum við t.d. gert með því að standa á meðan við vinnum í tölvunni, breytt stuttu fundunum okkar í göngufundi í stað þess að sitja þá af okkur inn í fundarherbergi og fleira í þessum dúr. Aðalatriðið er að sitja ekki lengur en 90 mínútur í einu án þess að brjóta sitjandi stöðuna upp með einum eða öðrum hætti.
Þá gera reglubundnar æfingar a.m.k þrisvar sinnum í viku gæfumuninn og með því að fylgja fjölbreyttu æfingaprógrammi þar sem áhersla er lögð á liðleika- og teygjuæfingar í bland við styrktaræfingar fyrir allan líkamann, getum við snúið þessu ferli við.
Æfingarnar þurfa þó að vera miðaðar að hverjum og einum og því ójafnvægi sem hefur myndast í líkamanum yfir mögulega mörg ár af langtímasetu og of lítillli hreyfingu.
Ef við hjá Coach Birgir getum aðstoðað þig við að útbúa slíkt æfingaprógram þá endilega vertu í sambandi við okkur með því að senda tölvupóst á: coachbirgir@coachbirgir.com.
Við munum svo sannarlega gera okkar til að aðstoða þig eftir bestu getu.