Líkamar eru allskonar

Líkamar eru allskonar

Höfundur: Ragga Nagli

Líkamar eru allskonar.

Fjölbreytni í líkamshollningu er náttúrulögmál sem ber að fagna. Mannskepnan hefur samt tilhneigingu til að bera sig saman uppá við frekar en niður á við. Við einblínum frekar á þá sem gera meira og betur en við. Á símaskjánum blasir við mýgrútur af tálguðum skrokkum og afrekum líkamlegrar hreysti. Tálgaðir bronslitaðir skrokkar að gera armbeygjur á annarri og flikk flakk með heljarstökki. Heljarmenni hlaða skífum á stöng þar til hún bognar og skella henni síðan á íturvaxnar axlirnar.

Af hverju er ég ekki svona sterkur?

Af hverju er ég ekki svona flinkur?

Af hverju er ég ekki svona grönn?

Af hverju er ég ekki svona lipur?

Tætum niður sjálfstraustið og innrætum hjá okkur hugarfar um að vera ekki nóg. Ég er ekki nóg….Ekki að gera nóg. Ekki nógu sterkur, ekki nógu grannur, ekki nógu flott, alls ekki nógu fitt og ekki nógu fallegur.

Þessi óréttláti samanburður fóðrar neikvæðar hugsanir í eigin garð sem spretta eins og hundasúra á fjósvegg, og sjálfsmyndin fer bogin og brotin inn í daginn.“Ég þarf að fara á Ketó og Siggi nágranni sem missti 10 kg á núlleinni.“

„Ég þarf að æfa fyrir járnkarl eins og Jóna í saumaklúbbnum sem er komin með heflaðan kvið og vogskornar axlir.“

„Ég þarf að lyfta meiri þyngdum eins og Jonni frændi sem er núna kjötaður eins og grískt skurðgoð.“

„Ég þarf að fasta eins og Sigga frænka sem segir það lykilinn að lýsisleka.“

En sannleikurinn er sá að engir tveir líkamar bregðast eins við sama áreiti. Engir tveir líkamar hafa sama hormónabúskap, sömu dreifingu á vöðvaþráðum, sömu hollningu, sömu fitusöfnunarsvæði, sömu grunnbrennslu, sömu vöðvasvörun. Þú gætir verið að bera saman Ferrari 2019 við Fiat Uno 1985 módelið. Allt önnur vél. Allt önnur hestöfl. Allt annar hraði. Meira að segja þinn eigin líkami getur litið allt öðruvísi út frá ári til árs. Þinn eigin líkami getur brugðist allt öðruvísi við sama mataræði og sömu æfingum og áður. Ef þú festist í óréttlátum samanburði þá detturðu í vonleysi og frústrasjón.

Ég mun aldrei ná sama árangri eins og hinir. Ef þú notar einungis sjálfan þig í gær sem viðmið fyrir árangur þá fyllistu von og bjartsýni.Hafðu það í huga næst þegar þú kveikir á streitukerfinu með stírur í augum að skrolla snjallsímann yfir kaffibollanum að morgni.

NÝLEGT