Lil Wayne, Weezy, Weezy F Baby, Tunechi, Birdman Jr., Mr. Carter, Mr. Make It Rain On Them Hoes, Dwayne Carter er minn allra uppáhalds rappari og líklegast sá sem ég hef hlustað mest á síðastliðin ár. Hann fæddist árið 1982 í Hollygrove, New Orleans. Kornungur byrjaði hann að rappa og vann sér inn virðingu hjá Birdman sem endaði á því að hann bauð honum í hljómsveitina Hot Boys og ættleiddi hann síðan seinna meir. Hot Boys var skipuð af New Orleans röppurunum Turk, B.G, Juvenile og Lil Wayne. Þeir gáfu út 3 plötur saman áður en þeir fóru hver sína leið og hófu allir sína eigin sóló ferla.
Árið 1999, þegar Lil Wayne var 17 ára gaf hann út sína fyrstu sóló plötu, Tha Block Is Hot. Sama ár bjó hann til nýyrðið Bling Bling sem átti eftir að fara sigurför um allan heim þökk sé samnefndu lagi Hot Boys . Árin 2000-2003 voru ekkert spes fyrir Lil Wayne, á tímabilinu gaf hann út plöturnar Lights Out og 500 Degreez sem náðu hvorki sömu hæðum og Hot Boys útgáfurnar né fyrsta platan hans. Árið 2004 gaf hann hinsvegar út plötuna Tha Carter, fyrstu af fjórum í seríunni. Að mínu mati er þetta vanmetnasta platan í katalognum hans Wayne. Eftir Tha Carter fór Lil Wayne stjarnan að skína skærar og hann varð smátt og smátt heitasti og besti rappari alheimsins.
Lil Wayne tímabilið árin 2005-2009 er mjög líklega besta tímabil sem einhver rappari hefur nokkurn tímann átt. Tímabilið má skilgreina sem árin á milli tveggja bestu studíó platna hans, Carter 2 og Carter 3. Á þessum árum (2005-2008) gaf Lil Wayne út mixteipið Dedication 2, plötuna Like Father Son með pabba sínum, Birdman, mixteipið Da Drought 3, óteljandi framkomur á lögum annara, stofnaði Young Money Records og margt, margt fleira.
Fimmta studíó plata Lil Wayne, kom út þann 6. Desember árið 2005. Á plötunni er goðsagnakennda lagið “Best Rapper Alive” þar sem Lil Wayne titlar sig besta lifandi rapparann og setti þar af leiðandi gríðarlega pressu á sjálfan sig til að sanna það á næstu árum, sem honum tókst vissulega. Uppáhalds lögin mín á plötunni eru Hustler Musik, Tha Mobb, og Hit Em Up. Hustla Musik var lagið sem breytti skoðun minni á Lil Wayne þegar ég var uppstökkur lítill krakki sem neitaði að hlusta á nýtt rapp árið 2009. Ég downloadaði einhverjum pakka á Pirate Bay af samansettum “The 250 Greatest Rap Songs of All Time”. Þar var Hustler Musik og þá trúði ég því ekki að gaurinn sem gerði Lollipop (sem var mjög vinsælt á þeim tíma) hafi gert þetta besta lag sem ég hafði heyrt á ævinni. Þar af leiðandi fór ég aftur inn á Pirate Bay og downloadaði “Lil Wayne Discography” og hef ekki snúið aftur síðan.
Dedication 2 kom út þann 22. Maí árið 2006. Mixteip-frumkvöðullinn DJ Drama “hostar” mixteipið með glæsibrag. Þetta mixteip einkennir nokkurn veginn gamla góða mixteip tímabilið þar sem rapparar röppuðu yfir takta hjá öðrum röppurum og gáfu síðan út ókeypis, oftast til þess að mynda stemningu fyrir komandi plötuútgáfu. Á þessu mixteipi rappar Wayne yfir takta frá goðsögnum eins The Diplomats, Jay-Z, The Notorious B.I.G, Three 6 Mafia og Outkast.
Besta mixteip allra tíma. Rapphæfileikar og þekking Lil Wayne á enska tungumálinu koma mjög skýrt fram og þarna sannar hann að hann er besti lifandi rapparinn, árið 2007. Hver einasta lína hittir mann beint í heilann, hvert einasta lag er fullkomið. Þrátt fyrir að þetta er mixteip, gefið út ókeypis og hann rappar yfir takta frá öðrum röppurum, þá er innihaldið svo rosalegt og lögin svo góð að ég get með stolti sagt að Da Drought 3 er eitt allra besta tónverk sem ég hef nokkurn tímann hlustað á.
Þegar Carter 3 kom út árið 2008, var Lil Wayne orðin stærsti og besti rappari heimsins. Eftir tvö ár af mixteip harki, endalausum features og lögum hér og þar, var loksins komið að útgáfu Carter 3. Þrátt fyrir að fullt af lögum höfðu lekið á internetið fyrirfram, seldi platan rétt yfir milljón eintaka fyrstu vikuna eftir útgáfu. Heimildarmyndin “Tha Carter” skrásetur ferlið við gerð plötunnar mjög vel. Heimildarmyndin var fyrst gerð í samstarfi við Lil Wayne en síðan hættu hann og teymið hans við að taka þátt í henni. Samt sem áður er þetta ein allra besta heimildarmynd sem ég hef séð og 100% besta tónlistarheimildarmynd sem ég hef séð. Carter 3 platan í heild sinni er alls ekki fullkomin, fullt af lögum sem hægt væri að taka út af plötunni en lögin sem standa upp úr eru svo góð að þau bæta upp fyrir slöppu lögin. Platan lýsir lífi rapprisans á hátindi ferilsins og gefur hlustendum skýra innsýn í hans heim, bæði það góða og það vonda.
Eftir að hafa toppað með útgáfu Carter 3 árið 2008 hélt Lil Wayne sigurgöngu sinni um heiminn áfram. Hann fékk Drake og Nicki Minaj til liðs við sig í Young Money Records og YMCMB phenomenom-ið, sem flestir ættu að muna eftir, hófst. Eins og gerist fyrir flestar stórstjörnur, byrjaði Lil Wayne að missa áhugann á rappi og tónlistarútgáfa hans fór versnandi. Þrátt fyrir það gaf hann út mixteipið No Ceilings sem er hans besta heilsteypta verk síðan Carter 3. Carter 4, sem kom út árið 2011 er líka klassaplata en það mætti þó klippa nokkur lög út hér og þar.
Síðastliðin ár hefur Lil Wayne lent á spítala nokkrum sinnum vegna flogakasta sem eiga að tengjast eiturlyfjaneyslu, síðast í byrjun þessa mánaðar. Ég hrylli mig við tilhugsunina að hann láti lífið einhverntímann á næstunni útaf þessum flogaköstum sem hann fær víst reglulega. Þar af leiðandi vildi ég votta honum mína virðingu með þessum litla pistli. Enn og aftur vil ég óska honum innilega til hamingju með afmælisdaginn og þakka honum fyrir allt sem hann hefur gefið heiminum.