Í vor viðraði ég það við frænku mína sem er mikil útivistarkona, að mig langaði að komast í einhverjar krefjandi fjallgöngur. Ég vissi bara ekki hvar ég ætti að byrja. Hún plataði mig samstundis til að skrá mig með sér í ferð sem Vilborg Arna Gissurardóttir og Kolbrún Björnsdóttir höfðu skipulagt í grunnbúðir Annapurna í Nepal. Ég hafði aldrei heyrt um Annapurna áður. Mig hafði hinsvegar dreymt um Himalayafjöllin frá því ég var stelpa en hafði aldrei haft ástæðu til að heimsækja þau. Nú var tækifærið og í fyrsta sinn á ævi minni gat ég skipulagt ferðalag með margra mánaða fyrirvara. Förinni var heitið til Kathmandú, þaðan til Pokhara og upp í fjöllin þar sem við hófum gönguna í tæpri 2000 metra hæð. Við bröltum upp og niður óteljandi fjöll, 140 kílómetra vegalengd, þar sem hápunktinum var náð í grunnbúðum Annapurna 4138 metrum yfir sjávarmáli. Að göngunni lokinni tók við fjögurra daga dvöl á ævintýralegu jógasetri. Mánuðina fyrir brottför drakk ég í mig allt sem ég fann um Nepal. Ég gróf upp sögur sem gerast í Himalayafjöllunum og horfði á allt sem til er á YouTube. Ég las mig til um háfjallaveiki, fór á námskeið í öndunartækni og lærði göngutækni hjá Vilborgu.
Eitt af því sem mér þótti skemmtilegast í undirbúningnum var að sanka að mér því sem þurfti af græjum og búnaði. Við urðum að vera búnar undir göngu í 20-30 stiga hita á daginn en frost í óupphituðum tehúsum á næturnar. Þessar miklu hitasveiflur í fjöllunum gerðu það að verkum að við þurftum að þrælhugsa hvað færi ofan í töskurnar. Vilborg hafði sent okkur útbúnaðarlista sem var beinagrindin að því sem ég tók með. Til viðbótar hafði ég með mér kameru og hljóðupptökugræjur, æfingadót fyrir vikuna í Katmandú, prjónadót og 500 blaðsíðna doðrant sem ég dröslaði með mér alla leiðina en las ekki eina blaðsíðu í. Að pakka niður fyrir ferðina reyndist því heljarinnar heilabrot.
Svona leit stofugólfið út hjá mér kvöldið áður en ég flaug út
Nokkrum klukkutímum seinna var allt flokkað og komið ofaní merkta og lofttæmanlega plastpoka. Þannig var hægt að troða vel í töskuna.
Í miklum hitasveiflum er snilld að vera í fötum úr efnum sem anda vel. Ég var þakklátust fyrir að hafa tekið með mér stuttermaboli og grunnlagsföt frá Houdini úr blöndu af merínó-ull og silki. Ég ferðaðist í þeim, gekk í stuttermabolunum flesta dagana og svaf í föðurlandinu allar næturnar. Þau eru þægileg, mjúk og stinga ekkert. Á kvöldin þegar sólin var horfin á bakvið fjöllin, snarkólnaði í tehúsunum og þá var ég endalaust ánægð með hlýju merino-ullarbuxurnar frá WN. Mig grunaði ekki hvað þær áttu eftir að koma sér vel. Líka í löngu flugferðunum. Ótrúlegt hvað ull slær alltaf öðrum efnum við.
Mér hefur hvergi í heiminum þótt eins gaman að versla og í Katmandú. Þar fann ég undurfallega silkisloppa, slæður, dásamlegar kasmírpeysur og allt sem hugurinn girnist af útivistargræjum. Mengunin þar getur hinsvegar verið svo svæsin að það er ólíft á götunum án þess að hylja vitin. Þá kom sér vel að vera með þétta grímu.
Kalda daga gekk ég í léttri primaloft-úlpu frá Houdini sem mér finnst eins og að klæðast skýi. Ég elska þessa úlpu. Sérstaklega eftir að ég uppgötvaði að ég gæti troðið henni allri ofan í innanávasann og notað fyrir kodda! Hversu mikil snilld er það?
Þegar við náðum loks upp í grunnbúðirnar var ég komin með svæsið kvef og hósta ofan í lungu. Ég var því óendanlega þakklát fyrir hnausþykku dúnúlpuna sem ég kippti með mér í Kathmandú. Hér erum við Guðrún Harpa frænka mín við bænaflögginn í grunnbúðunum.
Mest notaða flík ferðarinnar voru svartar teygjuefnabuxur. Bara klassískar léttar æfingabuxur sem anda vel og laga sig að líkamanum. Ég gekk í þeim alla daga og svo reyndust þær alveg sérlega frábærar í háloftunum 😉
Klúður ferðarinnar var að taka bara með hnausþykka fótboltasokka til að ganga í. Hvernig datt mér það í hug? Sokkarnir voru alltof heitir í mesta hitanum og aldrei nógu hnýjir í kuldanum. Ég var hálf blaut í fæturna alla ferðina og óskaði þess heitt og innilega að ég hefði tekið með mér létta ullarsokka. Smáatriðin geta verið svo mikilvæg!
Höfundur: Þóra Tómasdóttir