Search
Close this search box.
Litlu skrefin að stóru markmiðunum

Litlu skrefin að stóru markmiðunum

Hvað getur gerst á aðeins tveimur mánuðum? Það ræðst auðvitað af því hvernig þú ætlar að ráðstafa tíma þínum en eitt er víst að það verður komið sumar eftir tvo mánuði.

Vorið og sumarið er tíminn sem okkur langar að gera svo margt og við eigum það til að ætla að haka í öll boxin. Eins þekkjum við það að ætla að vera komin á ákveðinn stað með formið áður en sumarið byrjar, ná allskonar markmiðum, léttast, styrkjast, auka orku, gera okkur klár fyrir hlaupasumarið, spara fyrir draumaferðinni, þið þekkið þetta.

Einhvern veginn líður svo bara tíminn og boxin eru meira og minna tóm þegar sumarið skellur á. Við erum líklegri til þess að fresta hlutunum en að klára þá, sleppa þeim fremur en framkvæma.  En hvað er til ráða? Hvernig getum við aukið líkurnar á því að við framkvæmum markmiðin?

Það sem hefur virkað vel fyrir sjálfa mig er að setja mér nokkur markmið um að gera nokkuð auðvelda og jafnvel sjálfsagða hluti sem ég veit að ég get framkvæmt. Hafa markmiðin raunhæf í stað þess að setja mér mjög háleit markmið sem ég ræð illa við í einu skrefi. Með því að hafa hlutina einfalda og framkvæmanlega byggjum við upp sjáflstraust og trú sem er í raun lykillinn að árangri. Með það að vopni gerast ótrúlegir hlutir. Við þurfum bara að byrja. Smá saman náum við háleita markmiðinu sem er ekki óyfirstíganlegt lengur þegar búið er að búta það í nokkur smærri markmið fyrst. 

Af því sögðu langar mig að skora á þig að hugsa vel um það hvernig þú ætlar að nýta þína tvo mánuði fram að sumrinu og hugsa hvað þú getur gert til þess að gera þig stolta/n þegar það gengur í garð. Hvaða einföldu hluti getur þú framkvæmt í hverri viku jafnvel á hverjum degi sem koma þér nær þínum markmiðum og komið þér af stað á ferðalagið þitt.

Veldu eins marga hluti hér að neðan og þú treystir þér til og bættu sömuleiðis við því sem heillar þig að gera.

Hugmyndir að hlutum sem þú getur framkvæmt daglega

 • Fara í daglega göngutúra
 • Borða meira grænmeti og ávexti
 • Drekka 2 lítra að vatni
 • Taka vítamín
 • Fara klukkutíma fyrr að sofa alla virka daga 
 • Borða meira prótein en þú er vön/vanur
 • Elda heima í stað þess að kaupa þér tilbúinn mat

Hugmyndir af áskorunum sem þú getur sett þér fram að sumri

 • Sleppa sælgæti í 4 vikur
 • Fara 3 í viku í ræktina 
 • Fara í fjallgöngu eða langa göngutúra hverja helgi fram að sumri
 • Skrá þig í hlaup eða göngu í sumar
 • Kæling, prufa að fara í kaldakarið eða í kalda sturtur
 • Prufa eða lesa þér til um nýja hluti sem þig hefur dreymt um að prufa
 • Hugleiðsa, það er ótrúlegt hvað hugleiðsla getur haft góð áhrif og veitt mikla hugarró
 • Gerðu eitthvað sem þér fannst geggjað sem krakki
 • Taktu viku þar sem þú notar notar ekki síma eða tölvu klukkutíma fyrir svefn. 

Þetta eru aðeins hugmyndir sem þú getur stutt þig við. Ef þú lest yfir þessi atriði þá er ég nokkuð viss um að þú treystir þér í flest af þessu ef ekki allt. Með því að velja þér nokkur atriði og framkvæma er ferðalagið byrjað!!!

Góða ferð!
Ingi Torfi

NÝLEGT