Konur sem eru komnar yfir fertugt fara oft á tíðum að finna fyrir ýmsum einkennum breytingaskeiðsins en þau eiga það til að detta inn og út eins og þingmaður á kosninganóttu.
Hitakóf eins og þú sért að sippa í sánu. Heilaþoka eins og þú sért alltaf peruölvuð. Þráðurinn svo stuttur að þú hvæsir eins og tígrisdýr við einföldustu athugasemdir. En samt stutt í tárin. Líkaminn breytist í útliti og getu. Meiri fitusöfnun, minna af vöðvum og erfiðara að halda skrokknum í formi. Haugur af líffræðilegum og lífeðlislegum, sálrænum breytingum eiga sér stað í skrokknum sem munu hafa áhrif á líf þitt það sem eftir er. Takk fyrir tíkall. En ef þú tileinkar þér nokkra lífsstílsþætti geturðu spornað við að þessar lífeðlislegu breytingar hafi eins mikil áhrif og gert þær bærilegri.
-Rífa í járnið. Estrógen lekur smám saman úr skrokknum eftir fertugt. En estrógen er anabólískt hormón (vöðvabyggjandi). Þegar við rífum í járnið á sokkabandsárunum fyrir tíðahvörf hjálpar mikið magn estrógens að byggja og viðhalda vöðvum á grindinni. Lyftingar stuðla að meiri fitubrennslu, hærri grunnbrennslu, sterkari beinum og betri blóðsykri.
-Prótín í hverri máltíð. Fyrir viðgerð á vöðvum, viðhald á vöðvamassa, meiri seddutilfinningu yfir daginn. Konur þurfa meira af amínósýrum því þær nýta meira af þeim á æfingu en karlarnir.
-Sofa í 7-9 tíma. Rannsóknir sýna að 67% kvenna segjast berjast við svefntruflanir. Þegar breytingaskeiðið mætir á svæðið uppúr fertugu fer svefninn oft enn lengra ofan í tojlettið. Hitaköst eins og Nixon í viðtali eftir Watergate trufla svefninn. Tileinkaðu þér góða rútínu fyrir svefn, dimmt og ískalt svefnherbergi, magnesíum til að slaka á vöðvum og stuðla að dýpri svefni.
-Daglegar göngur. Á breytingaskeiðinu eykst oft streitan í skrokknum, og lífið mergsýgur þig af tíma, athygli og orku. Göngutúrar eru þinn staður = þín stund. Með gott hlaðvarp í eyrunum og trampa úti í náttúrunni er besta núvitund sem finnst.
-HIIT/PLYO/Sprettir. Konur missa sprengikraft hraðar með aldri en karlar, því við höfum lægra hlutfall af hvítu vöðvaþráðunum sem eru fyrir kraft og styrk. Þess vegna getur verið gott að skrúfa upp í ákefðinni í þolæfingum og hoppa og hamast í styttri tíma.
-Sinna áhugamálum á hverjum degi. Nærðu sköpunargáfuna til að losa út vellíðunarhormónin serótónin og dópamín. Þá þarftu ekki að leita í óhjálpleg bjargráð til að fá þau áhrif.
-Svolgra ískaldan kirsuberjasafa fyrir svefninn. Kirsuberjasafi er stútfullur af melatónín sem er svefnhormónið. Ef þú drekkur hann Síberíukaldan, þá kælir hann skrokkinn niður fyrir svefninn.
Prufa sig áfram með bætiefni eins og Rhodiola, magnesíum, kreatín, D-vítamín. Jafnvel Omega-3 .
Ef þú upplifir fyrirtíðaspennu (PMS) getur hjálpað að taka 250mg magnesíum og 1g af Omega-3 og 45 mg af zink 7 dögum fyrir blæðingar.
Rhodiola er af fjölskyldu adaptógena sem eru plöntur sem auka mótstöðu okkar gegn streitu. Með því að taka Rhodiola þá byggist upp þetta mótstöðuafl eftir nokkra daga, og gerir okkur sterkari gegn kortisóli. Rhodiola hefur líka jákvæð áhrif á vellíðunarhormónin serótónín og dópamín.
Höfundur: Ragga Nagli.
Naglinn mælir með Rhodiola, magnesíum frá NOW Foods Iceland
ragnhildur thordar 🇮🇸 (@ragganagli) • Instagram photos and videos