Search
Close this search box.
Matardagbók og uppskriftir

Matardagbók og uppskriftir

lt;p>Þegar kemur að því að borða hollan og næringarríkan mat er enginn fullkominn. Auðvitað vilja allir gera sitt besta í að viðhalda heilbrigðum lífsstíl og þar með talið að borða holla og fjölbreytta fæðu en stundum dettur maður útaf sporinu og þá er mikilvægt að halda áfram og ná stjórninni aftur. Þegar ég finn fyrir ójafnvægi í mínu mataræði eins og t.d. þegar ég hef verið að borða á óreglulegum tímum eða ef ég borða mat sem að ég veit að fer ekki vel í mig hefur mér fundist gott að núllstilla mig. Það geri ég með því að skrá niður allt sem ég borða yfir daginn til að fá heildarmyndina á samsetningunni á þeim næringarefnum sem ég er að setja ofan í mig. Þannig kem ég jafnvægi á líkamann og líður margfalt betur. Stundum nota ég til þess app í símanum sem heitir My fitness pal en appið er bráðsniðugt og mjög einfalt í notkun. Þar skrái ég inn hvað ég borða yfir daginn og reyni að vera eins nákvæm og ég get. Mig langar að sýna ykkur hugmyndir að næringaríkum morgun- og hádegismat sem ég fékk mér um daginn og hvernig ég skráði það inn í My fitness pal.

Morgunmatur: 

Smoothie skál með heimalöguðu sykurlausu múslí

Smoothie skál:

 • ¼ bolli frosin bláber
 • ¼ bolli frosinn mangó
 • 2-3 frosin jarðaber
 • Hálfur banani, frosinn
 • 2-3 dropar English toffee stevia frá NOW
 • Kanill eftir smekk
 • 1 bolli möndlumjólk frá isola bio

Aðferð:

Öllum innihaldsefnum er blandað saman í blandara og hellt í skál. Persónulega finnst mér betra að hafa smoothie-inn í þykkari kantinum til þess að auðveldara sé að borða hann með skeið. Ofan á mína skál setti ég heimalagað sykurlaust múslí ásamt ferskum bláberjum og jarðaberjum.

Heimalagað sykurlaust múslí:

 • 3 bollar haframjöl
 • 1 bolli heslihnetur
 • 1 bolli möndlur
 • 1 bolli kókosmjöl
 • ½ bolli sólkjarnafræ
 • ¼ bolli kókosolía(fljótandi)
 • 1 bolli sykurlaust eplamauk
 • 1 tsk kanill
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli mórber
 • 1 bolli ristaðar kókosflögur

Aðferð:

Kókosolíu, eplamauki og vanilludropum er blandað saman í skál áður en þurrefnum er blandað saman við. Blöndunni er dreift á tvær ofnplötur og bakað á 180°í 30 mínútur. Hrærið í blöndunni á 10 mínúta fresti. Látið kólna og blandið mórberjum og kókosflögum saman við.

Hádegismatur: 

Sætkartöflu- og linsubaunasúpa borin fram með hveitikímsbrauði og tófúhræru

Sætkartöflu- og linsubaunasúpa (fyrir fjóra):

 • 1 ½ bolli saxaður laukur
 • 1 stór gulrót (gróflega söxuð)
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 tsk ferskur engifer
 • 2 tsk cumin(ekki kúmen)
 • 1 tsk kóríander 
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk paprika
 • 1 tsk kanill
 • 6 bollar grænmetissoð
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 stór sæt kartafla, afhýdd og skorin í meðalstóra teninga
 • 1 bolli brúnar eða grænar linusbaunir, skolaðar
 • Salt

Aðferð:

Steikið laukinn og gulrótina á meðalhita uppúr 3 msk af vatni í um 4 mínútur. Bætið þá við hvítlauk og engifer og steikið í 1 mínútu í viðbót. Kryddinu er þá bætt útí og blandað saman við grænmetið í um 1 mínútu áður en grænmetissoðinu, tómötum í dós, sætum kartöflum og linsubaunum er bætt útí. Saltið til eftir smekk. Leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá hitann og leyfið súpunni að malla á meðalhita í 25-30 mínútur. Maukið súpuna með töfrasprota eða hellið í blandara.

Hmag-hadegis

Tófuhræra:

 • Hálfur bolli nýrnabaunir(skolaðar og þerraðar)
 • 100gr Clearspring Tófú(mjúkt)
 • 1 meðalstór sveppur
 • ¼ paprika
 • ¼ rauðlaukur
 • 30 gr klettasalat
 • 1 tsk túrmerik
 • Salt og pipar

Aðferð:

Rauðlaukinn, paprikuna og sveppina steiki ég uppúr túrmerik, salti og pipar áður en nýrnabaununum og tófú-inu er bætt við. Hræruna steiki ég á pönnu í um 5 mínútur og bæti svo klettasalatinu við rétt í lokin, einfaldara verður það ekki.

Hveitikímsbrauð:

 • 5 bollar hveitikím frá Natu food
 • 3 tsk vínsteinslyftiduft
 • 2 tsk sjávarsalt
 • Hálfur bolli graskersfræ (himnesk hollusta)
 • Hálfur bolli sólblómafræ (himnesk hollusta)
 • Hálfur bolli sesamfræ (himnesk hollusta)
 • 3 tsk kúmen
 • 3 msk olía
 • 2 msk chia fræ (himnesk hollusta)
 • ¾ bolli vatn

Aðferð:

Leggið chia fræin í bleyti uppúr 6 msk af vatni í 20 mínútur. Þá er öllum hráefnunum blandað saman. Fletjið út á milli tveggja arka af bökunarpappír. Deigið á að vera sirka 1 cm á þykkt. Deigið er skorið í ferninga og inní ofn á 180° í 30 mínútur. Mér finnst best að smyrja á brauðið gott pestó eða hummus.

Ég mæli með að prófa ykkur áfram með appið en eins og áður sagði er það mjög einfalt í notkun og getur verið þægilegt til að hjálpa manni að áætla og skipuleggja skammtastærðir og næringargildi í mat. Uppskriftirnar hér að ofan eru mjög fljótlegar og góðar og því mæli ég með að prófa ef þið hafið tök á. Ef þið viljið spyrja mig að einhverju, hvort sem það tengist mataræði, uppskriftum eða einhverju allt öðru þætti mér vænt um að fá að heyra í ykkur en þið getið haft samband við mig í gegnum facebook , instagram eða sent mér póst á netfangið sigrunbirta5@gmail.com.

Í lok vikunnar ætla ég að skreppa til Kaupmannahafnar yfir helgi og njóta þess sem borgin hefur uppá að bjóða með foreldrum mínum. Ég er búin að punkta niður hjá mér nokkra veitingastaði sem mig langar að heimsækja en úrvalið af Vegan veitingastöðum já eða almennt hollum veitingastöðum í Köben er mjög gott. En fyrir utan að borða góðan mat ætlum við að ekki að plana mikið fyrirfram heldur frekar að leyfa hlutunum að ráðast og sjá hvert það leiðir okkur. Ég ætla að halda áfram að vera virk inná instagram síðunni minni og fyrir áhugasama er ykkur velkomið að fylgjast með mér og því sem ég er að gera í lífinu þar inná.

Þangað til næst, hafið það gott!

Sigrún Birta

NÝLEGT