Sem þýðir að við borðum oft þegar við erum ekki svöng og oft borðum við ekki þegar við erum svöng af því það er ekki tími samkvæmt hinu gullna plani.
Bara slafra fitu, rjómi og smjör er í lagi… nei
Að vera sagt hvenær þú „átt að borða” hunsar þín eigin hungurmerki.
Svengd fylgir ekki klukku.
Hvað má borða?
Listinn yfir ‘HVAÐ’ má borða kemst fyrir aftan á frímerki.
Og það sem meira er að hvað “má” og hvað “má ekki” fer eftir tískubylgjum á hverjum áratug.
Fer eftir hvaða prógram er móðins þann mánuðinn.
Kolvetnin hafa fengið slæma útreið undanfarið.
Bara slafra fitu, rjómi og smjör er í lagi… nei annars bara borða góða fitu. Óverdósað á avókadó.
Ekki borða banana. Ekki kartöflur. Ekkert korn.
Borða eins og Neanderthalsmaður. Eða samkvæmt ímynduðu matarplani frá hellisbúa fyrir þúsundum ára.
Þegar þú borðar það sem “má ekki” ertu að svindla. Þú ert óþekkur. Þú skammast þín.
Þegar okkur er sagt HVAÐ við megum borða og enn fremur hvað við megum ekki borða býr það til svart-hvítan hugsunarhátt og þráhyggjuhugsanir gagnvart því sem er bannað, og á endanum springurðu á limminu og tætir upp snakkpokann eins og vannærð dúfa á brauðhleif á Ingólfstorgi.
Þegar þú borðar það sem “má ekki” ertu að svindla. Þú ert óþekkur. Þú skammast þín.
Það gerist í húmi nætur. Einn inni í eldhúsi. Í felum fyrir krökkunum.
Niðurtætandi hugsanir fara á Formúluhraða um hausinn.
“Æi er hvort sem er búin að eyðileggja daginn… get alveg eins bara klárað pokann”.
Með sammara, sektarkennd og móral á eftir.
Hversu mikið megum við borða?
„Hversu mikið“ þú átt að borða fer eftir grömmum, útreikningum, vigt, punktum og skammtastærð.
Ekki eftir seddumerkjum líkamans.
Útreikningarnir verða svo flóknir að þú getur klofið atóm áður en þú veist hversu stór slumma má fara upp í túlann.
Þú hunsar skilaboðin frá maganum sem segja: “Hey gaur, þetta var ekki alveg nóg. Ég er ennþá vanræktur hérna niðri.”
Hvers vegna borðum við?
En matarplön og megrunarkúrar taka aldrei á því HVERS VEGNA þú vilt borða.
Því það er lykillinn sem ræður því hvað rennur ofan í kokið.
Ef þú ert að næra þig eftir góða æfingu ertu líklegri að velja fæðu sem styður við gildi þín og markmið.
Þá ertu í stuði til að snuddast og dúllast við eldavélina.
Kjúlli og salat takk fyrir.
Þegar þú ert pirraður, stressaður, kvíðinn eða einmana ertu ekki að fara að henda 150 grömmum af laxi á grillið og brokkolí í pott.
Ó nei Hósei… þá teygirðu þig í Dórítósið og Hómblestið.
Tætir upp Kjörísboxið. Löðrar súkkulaðisírópi yfir.
Komdu með allt þetta sem „MÁ EKKI„.
Grjótpirraður eftir erfiðan vinnudag.
Að verðlauna þig fyrir að koma krökkunum í bælið.
Einmana yfir Netflix.
„Fokk itt… ég á þetta skilið“
Kúrar gefa þér engin verkfæri til að tækla hugsanir og hegðun þegar þú tekur óhjálplegar ákvarðanir.
Kúrar hjálpa þér ekki til að skilja hvers vegna þetta mynstur hefur þróast.
Kúrar hjálpa þér ekki að búa til ný og æskilegri mynstur í hugsun og hegðun.
Þar kemur núvitund inn sem öflugt en einfalt vopn í að öðlast meðvitund um hvers vegna við tökum ákvarðanirnar.
Þegar þú kemst í tengsl við líkamann og ferð að treysta á sjálfan þig í ferlinu þarftu ekki matarlöggu til að skipa þér fyrir HVAÐ, HVENÆR og HVERSU MIKIÐ.
Þegar þú nærir þig með meðvitund og tilgangi að geturðu búið til æskilegri og hjálplegri mynstur sem styðja við gildi þín og markmið.
Þú hættir að borða þegar þú ert passlega saddur.
Þú borðar þegar þú ert svangur.
Þú borðar það sem þú vilt með fjölbreytni, hófsemi og jafnvægi að leiðarljósi.
Því þú ferð að næra þig til að hugsa sem best um sjálfan þig
Þú verður sjálfur bílstjórinn í heilsurútunni þinni.
Eins og Bjössi á mjólkurbílnum með aðra hönd á stýri.
Það er lykillinn að langtímaárangri.
Lærðu meira um að öðlast heilbrigt samband við mat á heimasíðu Röggu Nagla.
Höfundur: Ragga Nagli