Innkaupalistinn
Endist lengi:
- Tröllahafrar (lífrænir frá Himneskri hollustu)
- Chia fræ og mulin hörfræ
- Kanill
- Allskonar krydd, t.d. garam masala, hvítlaukskrydd, cumin og kóríander.
- Hnetusmjör (gróft frá Monki og Himneskri hollustu)
- Feta ostur
- Allskonar baunir í dós: Kjúklinga-, svartar-, pinto- og nýrnabaunir
- Kókosmjólk í dós (til að gera sósu með hnetusteik/buffi/pasta eða til að nota í thai rétti)
- Frosnar edamame baunir (fæst í frystinum í Krónunni)
- Frosin ber + frosið spínat og/eða grænkál til að eiga í smoothie
- Möndlumjólk (nota sykurlausa frá IsolaBio, í bláu fernunum)
- Kínóa / hrísgrjón / sætar kartöflur
Endist skemur:
- Bananar og epli
- Ferskt grænmeti: Spínat, tómatar, paprika, sveppir, brokkolí, laukur, hvítlaukur
- Avocado
- Hummus
- Lime (til að kreista út á edamame t.d. eða til að búa til mexíkanska baunarétti og guacamole)
- Ferskar kryddjurtir (kaupi þær samt frekar ef ég er með ákveðin rétt sem ég ætla að nota þær í)
„Allt sem er til“ rétturinn
Á virkum dögum fæ ég hádegismat og millimál í vinnunni þannig það sem ég þarf að útbúa sjálf er morgunmatur og kvöldmatur. Ég æfi nánast alltaf seinnipartinn og þá er gott að geta eldað sér eitthvað fljótlegt og hollt eftir langan dag. Ég er líka mikið hrifin af því að nýta vel allt sem er til heima.
Ég gríp oft í ,,allt sem er til“ réttinn en hann er einhvern veginn svona: baunir og/eða grænmetisbuff, allskonar grænmeti og krydd, hummus og annað hvort sætar kartöflur, grjón eða kínóa.
Matseðillinn minn á fullkomnum degi / What I eat in a day
1. Morgunrútína + morgunmatur: Magagerlar + grænn próteinsmoothie. Ef ég myndi vilja fá mér eitthvað annað en smoothie myndi ég gera mér hafragraut sem væri einhvernveginn svona:
- Tröllahafrar eldaðir í potti með chia-fræjum, mulnum hörfræjum og kanil.
- Toppað t.d. með ferskum berjum og kanil eða hnetusmjöri, kanil og hamp fræjum + sykurlaus möndlumjólk frá Isola Bio (bláa).
2. Millimál kl. 10/11: Ávöxtur, t.d. epli, pera eða hálfur banani. Ef ég borða morgunmatinn seint sleppi ég millimálinu svo ég sé að fá sirka 2 tíma í “hvíld“ á milli máltíða.
3. Hádegismatur kl. 12/13: Risa salat með fullt af fersku grænmeti, avocado, baunum, sætkartöflumús, fræjum, ólífum og stundum feta osti. Ég er svo lánsöm að hafa risa salatbar í vinnunni en ef ég hefði ekki aðgang að slíku færi ég líklegast á Krúsku, Gló eða Serrano í hádeginu ef ég væri ekki með nesti.
4. Millimál kl. 3/4 fyrir æfingu: Epli eða pera með hnetusmjöri ef ég er ekki það svöng en banani með hnetusmjöri ef ég er frekar svöng.
5. 20-30 mínútum eftir æfingu: Plöntuprótein frá NOW blandað út í vatn til að flýta fyrir endurheimt og gefa mér tíma til að útbúa kvöldmat (með öðrum orðum: til að fyrirbyggja slæmt hangry ástand).
6. Kvöldmatur kl. 7/8: Einhver einfaldur, fljótlegur og bragðgóður grænmetisréttur með einhverri týpu af baunum og hummus. Við setjum líka oft lax inn í ofn og höfum salat með, hrísgrjón og kóríandersósu (avocado, ferskur kóríander, lime, salt og pipar, möndlumjólk og/eða vatn til að þynna).
7. Kvöldsnarl: Reyni oftast að sleppa því, sem er auðveldast ef ég hef borðað reglulega yfir daginn og vel af kvöldmat. Það tekst ágætlega hjá mér á virkum dögum og mér finnst oft duga að opna mér dós af Kristal með lime bragði, bara til að fá mér eitthvað.