Hver er Sólveig Kolbrún?
Sólveig Kolbrún er bjartsýn, forvitin, skapandi, orkumikil og opin manneskja. Þriggja barna móðir, eiginkona, dóttir, systir, vinkona og markaðströll sem drekkur mikið kaffi.
Segðu okkur aðeins frá hvað því hvað þú gerir?
Ég starfa sem markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda. Alveg frá stofnun Ljóssins hefur verið unnið vel að því að miðla upplýsingum til þeirra sem sækja þjónustu til okkar og annara hagsmunaaðila en nú þegar Ljósið er að vaxa þá er þörf á að nálgst markaðs- og kynningarmál með markvissari hætti. Starfið er mjög fjölbreytt og felur í sér hugmyndavinnu, hönnun, skrif, ljósmyndun og hvað eina sem þarf til þess að miðla upplýsingum til ólíkra aðila. Að auki skelli ég vefstjórahattinum líka á mig þegar það þarf að finna lausnir eða leysa krísur á vefnum, geng með fólki um húsið og segi sögu starfsins ef svo ber undir, undirbý viðburði með samstarfsfólki mínu og margt fleira.


Fyrir hverja er starfsemi Ljóssins?
Endurhæfing Ljóssins er fyrir alla 16 ára og greinst hafa með krabbamein og að auki veitum við fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf. Endurhæfingin í Ljósinu byggir á því að mæta fólki á þeim stað sem það er félagslega, líkamlega og andlega þegar það greinist. Úr verður 360° sýn á einstaklinginn sem leyfir sérfræðingunum sérsníða endurhæfingar áætlun. Hjá okkur starfar fjölbreyttur hópur fagaðila; iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, sálfræðiráðgjafi og annað sérhæft starfsfólk en Í hverjum mánuði nýta sér yfir 450 manns á mánuði þjónustu Ljóssins.
Jafnvel þó svo að við leitum út fyrir landsteinanna er erfitt að finna viðlíka þjónustu. Það er einmitt ástæða þess að ég réði mig til starfa í Ljósinu eftir að ég hafði snúið aftur til vinnu á minni fyrri vinnustað eftir veikindaleyfi: Mér fannst skipta máli að þjóðin öll vissi af þessari mögnuðu starfssemi og ef ég gæti nýtt mína þekkingu til þess þá væri ég sátt.
Hvernig getur fólk lagt sitt af mörkum til að styðja við starfsemi Ljóssins?
Þeir sem vilja styðja starfið geta gert slíkt með því að gerast mánaðarlegir Ljósavinir en nú í aðdraganda jólanna gefum við fólki tækifæri á að gefa ástvinum sínum styrk í starf Ljóssins. Já og svo erum við með smá vörusölu á vefnum okkar og í móttöku Ljóssins.


Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?
Ein af mínum stærstu áskorunum var þegar ég sjálf greindist með brjóstakrabbamein og þurfti að horfast í augu við það að lífið getur breyst á örskotsstundu og ég væri ekki þar undanskilin.
Ég veit ekki hvort ég geti sagt að ég hafi yfirstigið þessa áskorun. Ferlið er mun lengra en ég gerði mér nokkurn tíma grein fyrir; lyfjagjöf og aðgerðir á Landspítala fjarlægðu meinið, endurhæfingin í Ljósinu tryggði að ég sneri til baka í eins góðu líkamlegu, andlegu og félagslegu formi og mögulegt var, og andhormónameðferð næstu árin minnkar líkur á endurupptöku. Þannig ferlið er í raun enn í gangi. En það má segja að forgangsraða sjálfri mér inn í líf mitt sé leiðin mín. Búa til tíma til að hreyfa mig, sofa betur, næra mig og gera það sem skiptir mig máli samhliða því að mynda jákvæð tengsl við fólkið mitt. Að vera ekki allt fyrir alla allstaðar og læra að setja mörk. Þetta er mikil áskorun fyrir karakter eins og mig og ég held að þetta sé eitthvað sem ég þurfi að alltaf að vera að minna mig sjálfa á.


Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með fjölskyldunni?
Mér finnst skemmtilegast að fara í ferðalög með fjölskyldunni minni. Við höfum alltaf verið dugleg að leggja land undir fót og það er einhver slaki sem færist yfir alla þegar við skiljum hversdaginn eftir og höldum út í óvissuna. Já og að fara í sund er eitthvað sem við njótum mjög saman.
Hreyfir þú þig reglulega?
Ég hef alltaf hreyft mig reglulega en eftir að ég sótti endurhæfingu í Ljósinu og lærði hversu miklu máli líkamsrækt skiptir samhliða krabbameinsmeðferðum þá er ég enn einbeittari á að forgangsraða hreyfingu í líf mitt. Auk hóptíma í Ljósinu byrjaði ég að sækja námskeið í Hreyfingu og komst að því að ég get vaknað eldsnemma á morgunanna ef hvatinn er réttur! Og svo geng ég með hundinn á hverjum degi.


Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?
Að mínu mati snýst heilsusamlegt líf um jafnvægi. Borða næringarríkan mat, hreyfa sig reglulega, sofa nóg og gefa sálinni tíma til að róa sig. Jafnvel eftir allt mitt ferli þá er áskorun að halda jafnvæginu en ég reyni að gera það með því til dæmis að skrá mig á námskeið í hreyfingu, slökkva á öllum notifications í símanum, vera ekki með vinnupóstinn í símanum, láta símann fara að sofa á kvöldin. Eins og þú sérð þá er tæknin smá vandamál hjá mér?
Stundar þú einhverskonar útivist?
Ekki næga. En þegar henni er fundið pláss þá hefur hún verið snóbretti á veturna og fjallgöngur og veiði á sumrin. Í sumar prufaði ég í fyrsta skipti að suppa (SUP – Stand up paddle) og ég held að það gæti mögulega orðið eitthvað sem ég geri oftar.
Uppáhalds matur og uppáhalds skyndibiti?
Ég er alltaf mjög hrifin af því að borða tapas rétti og ef ég ætlaði að grípa mér skyndibita þá myndirðu líklegast finna mig í röðinni á Mandi. Þegar ég er heima um miðjan dag þá er það súrdeigsbrauð frá Passion bakaríi í Álfheimum, möndlumauk og banani!
Ef þú ætlar virkilega að gera vel við sjálfa þig, hvað gerir þú?
Þá fer ég í ferðalag, kaupi mér gott súkkulaði eða skelli mér í gufu og heitapottinn í Hreyfingu.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Ljósmyndun hefur alltaf verið mikið áhugamál hjá mér en þegar ég byrjaði að stunda endurhæfinguna í Ljósinu komst ég að því að mér finnst mjög gaman að mála. Hluti af endurhæfingunni er að halda manni virkum og er því boðið upp á allskyns námskeið eins og myndlist, leirlist og fluguhnýtingar. Ég held að við mannskepnan séum gerð til þess að vinna eitthvað í höndunum og það skorti mjög í líf fólks í dag. Það verður eitthvað flæði eða núvitund þegar maður finnur sig í handverki. Hjá mér var það myndlistin.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
Ég er alltaf að reyna að „besta“ kvöldrútínuna. Lesa bók. Taka smá hugleiðslu. Finna eitthvað þrennt sem ég er þakklát fyrir eftir daginn. Oft tekst mér að halda þessu gangandi í einhvern tíma en svo læðist þvottahrúgan eða Netflix að manni og þá er það síðasta sem maður gerir bara að bursta tennur, taka lyfin sín, segja góða nótt við eiginmanninn.


Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?
Mér finnst grunnurinn að góðri heilsu hugans liggja í næringunni og svefninum ásamt því að gefa mér tíma í líta inn á við og smá flokka í skúffurnar í huganum. Svo hlusta ég líka á hlaðvörp um hamingju, hugann og heilsuna. Það gefur mér innblástur í að huga betur að kollinum.
Hver væri titill ævisögu þinnar?
Sólarmegin
Eitthvað að lokum?
„Það gerist ekkert næst. Þetta er það.“