Þá er komið að næsta viðmælanda hjá okkur hér á H Magsín en það er hún Birgitta Líf, 27 ára Reykjavíkurmær með brennandi áhuga á æfingum og heilbrigðum lífsstíl. Í dag starfar hún sem markaðs- og samfélagsmiðlastjóri hjá World Class og Laugar Spa. Birgitta er sömuleiðis meistaranemi í alþjóðaviðskiptum en hún lauk á sínum tíma bakkalárgráðu í lögfræði. Þá hefur Birgitta sömuleiðis starfað sem flugfreyja hjá Icelandair.
En hvernig er týpískur dagur hjá Birgittu?
„Ég vakna flesta daga um hálf átta og fer í Laugar þar sem ég vinn á skrifstofunni. Vinnudagarnir og verkefnin eru fjölbreytt og enginn einn dagur eins. Ég æfi WorldFit í Kringlunni og fer það eftir verkefnum hvers dags hvort ég taki æfingu í hádeginu eða eftir vinnu, eða bæði. Það gefur mér svo ótrúlega mikið að fara á æfingar og hitta allt fólkið sem er í WorldFit þannig ég eyði oft miklum hluta af deginum inni í æfingasal – hvort sem það er actually að æfa eða bara hitta vinina. Eftir æfingu sæki ég mér oftast mat eða fer heim og elda, fer í góða sturtu og hef það síðan notalegt yfir Netflix um kvöldið en ég er yfirleitt sofnuð frekar snemma þegar ég er í þessari rútínu,“ segir Birgitta.
Eins og fyrr segir hefur Birgitta mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl en sjálf stundar hún heilsurækt af fullum krafti, borðar að mestu hollan og góðan mat og nýtur samverustunda með vinum og fjölskyldu sem að hennar mati er mikilvægt fyrir andlegu heilsuna. „Ég passa samt líka að leyfa mér, hvort sem það er að fara í ísbíltúr, fara út að borða eða bara fá mér nammipoka yfir sjónvarpinu. Að mínu mati spilar þetta allt saman og mér líður best þegar ég er í heilbrigðu jafnvægi,“ segir Birgitta.
Þegar kemur að æfingarútínunni þá er það eins og áður segir WorldFit í Svarta boxinu í World Class Kringlunni sem á allan hug Birgittu þessa dagana en hún segist dolfallin fyrir því æfingakerfi og samfélagi sem hefur myndast í kringum það og mætir þangað 5-6 í viku að meðaltali. Þar að auki tekur hún aðra hreyfingu inn í æfinga rútínuna sína; „Ég fer stundum aukalega í heita tíma í infrarauðu sölunum okkar í World Class en mér finnst það hjálpa til við að losa um spennu og þreytta vöðva, eða fer á hlaupabretti eða geri eitthvað allt annað heldur en WorldFit inn á milli. Æfingarnar mínar geta því verið allt frá 5-10 sinnum í viku en það fer allt eftir æfingaálagi, skipulagi og orku hverrar viku fyrir sig.“
Til þess að að hafa orku til þess að æfa svo oft telur Birgitta matarræðið spila lykilhlutverk:
„Já mataræði er grunnurinn að öllu. Ég finn mikinn mun bæði á orku, vöðvum, skapi og líðan í líkamanum eftir því hvernig ég borða. Ef ég er ekki að borða næga næringarríka og góða fæðu þá er ég þreyttari á æfingum, sef verr, orkuminni yfir daginn o.s.frv. á sama hátt og mér líður betur, vakna hressari og hef meiri orku og kraft bæði á æfingum og í daglegu amstri.


Mataræðið mitt er almennt hollt og gott og reyni ég að halda því fjölbreyttu og fá góða næringu sem nýtist mér yfir daginn. Ég er ekki að skrifa niður hvað ég borða eða fara eftir einhverju ákveðnu mataræði. Ég þekki sjálf á líkamann minn hvað lætur mér líða vel og hvað ekki. Ég reyni að borða vel, hafa góða orku fyrir æfingar, fá prótein eftir æfingar og mér finnst ég þá getað leyft mér að fá mér pizzu, ís eða eitthvað óhollt inn á milli þegar mig langar til þess. Mér hefur fundist millivegurinn og jafnvægið henta mér, þ.e. að banna mér ekkert enda er allt gott í hófi.“
Sem viðbót við gott og hollt matarræði tekur Birgitta svo hin ýmsu bætiefni eftir áherslum hverju sinni; „Ég finn mikinn mun á mér þegar ég er dugleg að taka vítamín og bætiefni enda getur það gert gæfumuninn þrátt fyrir að mataræði spili stóran part. Það er sérstaklega mikilvægt að mínu mati að huga vel að því að fá næg vítamín og auka „boost“ í skammdeginu enda fáum við lítið af því úr náttúrunni hér á Íslandi yfir myrkustu mánuðina. Ég hef notað bætiefnin frá NOW í fjölmörg ár og er dugleg að prófa mig áfram með þau og er ekki endilega að taka allt sem ég á alla daga heldur reyni ég að lesa líkamann og líðan og finna hvað hentar mér best hverju sinni. Ég fer síðan í blóðprufu á hverju ári til að fylgjast með stöðunni og þá kemur líka í ljós ef það er eitthvað sem þarf að auka á þeim tíma eða er jafnvel nóg af og þá gott að taka pásu.


Ég á allskyns vítamín og bætiefni frá NOW en það sem ég tek að jafnaði er EVE fjölvítamínið, D vítamín og odorless garlic. Þessa dagana hef ég fundið vel fyrir skammdeginu og er því að taka Rhodiola sem á að hjálpa við daglegt stress, eða jákvæðis vítamínið eins og ég kalla það. Svo hef ég verið að taka Charcoal töflur þar sem ég var að ferðast mikið og fannst ég þurfa smá „hreinsun“ en það hjálpar við að losa út eiturefni í líkamanum en ég nota það bara í nokkra daga í senn og geymi svo þangað til mér finnst ég þurfa aftur á því að halda. Áður en ég fór út var ég einmitt dugleg að taka inn Axtasanthin sem getur hjálpað til við að undirbúa húðina fyrir sólina og nýlega hef ég bætt Collagen töflum inn í rútínuna mína sem ég finn að hjálpar við að styrkja liðina sem geta verið undir miklu álagi á æfingum.“
Aðspurð hvort það séu einhverjar fyrirmyndir eða annað sem drífi Birgittu áfram í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur segist hún vera umkringd af fullt af flottum fyrirmyndum og reyni að tileinka sér almennt það besta í fari fólks sem veitir henni innblástur; „Mamma er samt án efa mín helsta fyrirmynd enda ein duglegasta kona sem ég þekki,“ segir Birgitta stolt af móður sinni. Að lokum hvetur hún fólk til þess að muna að allt sé gott í hófi: „Mér finnst þessi gullna regla eiga við svo margt sem við kemur bæði líkamlegri og andlegri heilsu, þ.e. að hafa gott jafnvægi á æfingum, hvíld, mataræði, skemmtun, svefni og svo mætti lengi telja.“
Við þökkum Birgittu Líf kærlega fyrir að deila þessu með okkur og óskum henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur á komandi misserum.