Höfundur: Coach Birgir
Það getur verið bæði gaman og gagnlegt að rýna í skýrslur frá WHO (Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni) varðandi heilsu, hreyfingu og næringu okkar mannfólksins. Þessar skýrslur innihalda yfirleitt bunka af fróðleik, staðreyndum og tölfræði sem byggir á rannsóknum um heilsu allsstaðar að úr heiminum. Ég hef svolítið verið að glugga í skýrslur frá WHO síðan 2018 varðandi andlega og líkamlega heilsu en í þeim kemur glögglega í ljós og stutt er með rannsóknum hvað reglubundin hreyfing hefur mikil og víðtæk áhrif á lífsgæði okkar – bæði mælt andlega og líkamlega.
Fyrir þá sem hafa áhuga á heilsu og hafa gaman að því að velta þessum hlutum fyrir sér í aðeins stærra samhengi, tók ég saman nokkrar af þeim staðreyndum sem vöktu hvað mestan áhuga hjá mér:
- Á heimsvísu hreyfir 1 af hverjum 4 fullorðnum (18-64 ára) sig of lítið eða undir viðmiðum. En viðmið WHO eru 150 mínútur á viku á meðal – háu álagi.
- Ónæg hreyfing er heinn helsti og mest leiðandi áhættuþáttur ótímabærrar öldrunar og andláta á heimsvísu.
- Reglubundin hreyfing og/eða æfingar lækka hættuna á hjartasjúkdómum um meira en 20%.
- Rannsóknir hafa gefið vísbendingu um allt að 30% minnkun á vitglöpum í tengslum við reglubundnar æfingar og hreyfingu.
- Það er ekki BMI sem gefur bestu vísbendinguna um dánartíðni fólks í yfirþyngd, heldur er það hversu reglubundið og/eða oft það hreyfir sig.
- Meira en 80% af börnum og ungu fólki á aldrinum 11-17 ára hreyfir sig minna en viðmið WHO gera ráð fyrir og auka þar með líkurnar á þunglyndi eða öðrum andlegum veikindum, langvarandi hreyfingarleysi og/eða ofþyngd.
- Um 40% af daglegri næringarinntöku barna og unglinga innihalda svokallaðar ”tómar kaloríur” en það eru kaloríur sem gefa orku en innihalda lítil sem engin næringarefni eins og vítamín og steinefni.
- Um helmingur ungbarna á aldrinum 6-23 mánaða fá ekki þann fjölda máltíða sem ráðlagt er fyrir þeirra aldur daglega. Þá eru 1 af hverjum 5 ungbörnum á sama aldri ekki að fá þá næringu sem þau þurfa úr matvælunum sem þau neyta.
- Um þriðjungur (30,3%) allra skólabarna á aldrinum 6-16 ára borða minna en einn ávöxt á dag. Á sama tíma drekka 43,7% þeirra a.m.k einn gosdrykk á dag.
- Þriðjungur af þjóðum heimsins verja minni en 1% af heildarfjármagni þeirra, eyrnamerktu heilsutengdri þjónustu í geðheilsutengda starfsemi á meðan annar þriðjungur heimsins eyrnamerkir geðheilsunni akkúrat 1% af sama fjármagni. Á sama tíma er staðreyndin sú að 1 af hverjum 4 veikist andlega einhvern tíma á lífsleiðinni.
Ég veit ekki með ykkur en þessar staðreyndir fengu mig til að hugsa og hugsa meira. Ótrúlega margt af þessu getum við sjálf haft bein áhrif á, bara með því að forgangsraða öðruvísi og setja örlítið meiri fókus og tíma í okkar eigin heilsu.
Litlir steinar koma af stað stórum skriðum og allar breytingar til batnaðar hafa áhrif. Því hvet ég þig, mig og okkur öll til þess að skoða nærumhverfi okkar betur og raunverulega velta því fyrir okkur hvaða matar, hreyfi- og heilsuvenjur tíðkast á okkar heimili?
Erum við öll að hreyfa okkur skv. þeim viðmiðum sem sett eru fyrir okkar aldurshóp?
Eru allir fjölskyldumeðlimir að borða nóg og fá nægju sína af næringu úr öllum helstu næringarhópunum á degi hverjum?
Hvaða fordæmi erum við fyrir börnin okkar – góð, eða gætum við mögulega bætt okkur þar?
Það á engin að eltast við fullkomnun, því sú formúla er einfaldlega ekki til. Munum bara að litlir steinar koma af stað stórum skriðum og því er farsælast að byrja á litlum en góðum breytingum og þegar einu markmiði er náð, færum við okkur rólega og yfirvegað yfir í það næsta.
Kærleikskveðja frá Köben
Coach Birgir