Ása er í sambúð með Antoni Sigurðssyni og saman eiga þau dæturnar Yrsu 4 ára og Grímu 2 ára. Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í Laugarneshverfinu í Reykjavík og er ekki að undra að eitt það besta sem Ása veit er að fá sér kaffi og þá sérstaklega á morgnana. Ása Ottesen markaðsstjóri Te & kaffi sat fyrir svörum hjá H Magasín og leyfir lesendum að skyggnast aðeins inn í líf sitt.
Hver er Ása Ottesen? 2 barna móðir sem býr í Laugarneshverfinu, 105 Reykjavík
Hvaða menntun ertu með og hvað starfar þú við í dag? Ég er með BA frá Félagsfræðideild Háskóla Íslands og ég starfa sem markaðsstjóri Te & Kaffi.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með fjölskyldunni? Mér finnst svo margt skemmtilegt að gera með fjölskyldunni en það sem stendur kannski upp úr eru sundferðir, utanlandsferðir og kósý kvöld þar sem við horfum á skemmtilega mynd saman.


Hreyfir þú þig reglulega? Ég er að reyna að koma mér aftur í gírinn eftir að hafa eignast tvö börn á tveim árum. Fer út að skokka þegar veðrið er gott en ég mætti alveg hreyfa mig meira.
Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér? Að reykja ekki, að drekka ekki, að hlúa á andlegri heilsu með því að stunda hugleiðslu eða jóga. Borða nammi og skyndibita í hófi (er að vinna í því, haha) og finna sér skemmtilega hreyfingu 2-4 sinnum í viku.
Stundar þú einhverskonar útivist? Ég elska að fara út í langa göngutúra og þá helst upp í Heiðmörk eða í Elliðárdalinn. Svo er alltaf gaman að fara upp Úlfarsfellið og Esjuna.
Uppáhalds matur og uppáhalds skyndibiti? Á mínu heimili er uppáhalds maturinn sunnudagssteikin, lambalæri með brúnni sósu og meðlæti a la amma Jóna. Uppáhalds skyndibiti er allt á Austurlandahraðlestinni, sérstaklega Chicken 65 með extra skammti af hvítlauks naanbrauði.
Ef þú ætlar virkilega að gera vel við sjálfa þig, hvað gerir þú? Þá þarf ég að redda pössun, komast út úr bænum og fá að sofa almennilega út. Við Anton kærasti minn höfum farið eina nótt á Hótel Rangá til dæmis og það var algjör draumur. Góður matur, heitur pottur og algjör slökun.


Hver eru þín helstu áhugamál? Markaðsmál, andleg málefni og góðir glæpaþættir, mæli með Outsider sem eru sýndir á Stöð 2.
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa? Stilli á góða slökunartónlist í Calm appinu og sofna út frá henni.
Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið í lífinu? Að hætta að drekka, það breytti lífinu mínu og heldur áfram að gefa, nú 7 árum síðar.
Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana? Mesta áskorunin er að eignast og ala upp dætur mínar. Þegar þær komu í heiminn þá breyttist ég mikið. Þær halda mér á tánum og ég þarf að passa upp á mig, bæði andlega og líkamanlega til þess að geta verið til staðar fyrir þær. Ég fór að lesa mér til um uppeldisstefnur og fylgi mjög mörgu í RIE, en sú stefna hefur hjálpað mér mikið að takast á við móðurhlutverkið af ró og skilning.
Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni? Hlátur, hugleiðsla, gönguferðir og sund þar sem ég fer í kalda potta og gufu.
Hvað er það besta sem þú veist? Vakna á morgnana og fá mér fyrsta kaffibollann.
Hver væri titill ævisögu þinnar? Fake it till you make it.
Te eða kaffi? Kaffi, kaffi og aftur kaffi.
Instagram eða Facebook? Instagram
Bók eða Podcast? Podcast
Vetur eða sumar? Sumar
Eitthvað að lokum? Keyrið varlega, spennið beltin og ekki vera í símanum við stýrið.
H Magasín þakkar Ásu kærlega fyrir þessu skemmtilegu svör.