Search
Close this search box.
Mikilvægi félagslegra tengsla

Mikilvægi félagslegra tengsla

Höfundur: Sölvi Tryggvason

Eftir að hafa legið yfir heilsu og heilsutengdu efni undanfarinn áratug og haldið fyrirlestra fyrir meira en 10 þúsund manns síðan bókin mín kom út, hef ég lært ýmislegt og er enn alltaf að læra. Mig langar að tala um eitt mikilvægasta atriðið í heilsu sem oft gleymist. Félagsleg tengsl.

Þegar sérfræðingar tala um mikilvægustu atriðin í heilsu eru flestir sammála um að þar séu svefn, næring og hreyfing efst á blaði. Ég er í grunninn sammála því, en fullyrði að minnst tvö atriði í viðbót eigi heima á þeim lista. Ég ætla að fjalla betur um það fimmta næst, en langar núna að skrifa nokkur orð um það fjórða. Félagsleg tengsl, sem eru án nokkurs vafa eitt mikilvægasta atriðið þegar kemur að heilsu. Niðurstöður margra viðamikilla rannsókna benda til þess að félagsleg tengsl séu einn stærsti áhrifaþátturinn í öllum þáttum heilsu. Allt frá sterkara ónæmiskerfi og betra verkjaþoli yfir í minni líkur á kvíða og geðsjúkdómum virðast allt vera atriði sem hafa sterk tengsl við gæði félagslegra tengsla.

Ég er einn af þeim sem er svo lánsamur að hafa frábært félagsnet í mínu lífi. Ég á yndislega fjölskyldu og ótrúlegan fjölda frábærra vina, sem eru alltaf til staðar, hvenær sem er. Á erfiðustu tímabilunum í mínu lífi voru það tengsl við gott fólk og félagsskapur sem komu mér yfir erfiðasta hjallann. En jafnvel þeir sem eru svo lánsamir að hafa margt gott fólk í kringum sig geta auðveldlega fallið í þann pytt að einangra sig ef eitthvað bjátar á. Fyrir marga er það eðlilegasta viðbragðið og ég þekki það vel af eigin raun. Að vera ekki að angra annað fólk og draga úr tengslum einmitt þegar maður þarf mest á þeim að halda. 

Rannsóknir hafa sýnt fram á að fjórði hver Bandaríkjamaður finnst hann engan eiga að til að deila með sínum mikilvægustu málum. Ekki er ólíklegt að staðan sé svipuðum í öðrum nútímavæddum vestrænum ríkjum. Það segir sig sjálft að það er ömurlegt að vera í þeirri stöðu. Jafn frábært og nauðsynlegt og það getur verið að kunna að vera einn með sjálfum sér, hefur einangrun slæm áhrif á flest okkar. Við höfum öll gott af því að vera ein og kynnast sjálfum okkur, en ef einveran verður of mikil breytist hún oft í einhvers konar einangrun, sem er slæmt.  

Margt virðist benda til að einhleypt fólk í vestrænum samfélögum hafi orðið  andfélagslegra en áður eftir að samfélagsmiðlar komu til sögunnar. Barnlaust einhleypt fólk þarf sérstaklega að vera á varðbergi gagnvart þessu og passa upp á að félagsleg tengsl séu í lagi. En jafnvel fólk sem á fjölskyldu og er innan um aðra allan daginn getur verið í vandræðum ef það hleypir öðrum ekki að sér. Það er auðveldlega hægt að vera einmana innan um annað fólk ef manni finnst maður ekki geta rætt hugsanir sínar og tilfinningar. Í raun getur einmanaleiki af þeim toga verið mun verri en þegar maður er í raun og veru aleinn.

Höfundur: Sölvi Tryggvason

Ég á enn eftir að hitta vin eða fjölskyldumeðlim sem tekur mér illa þegar ég segi í einlægni frá því að eitthvað bjáti á hjá mér. Fólk sem er manni kært vill vera til staðar fyrir mann. Það er því algjör þvæla að loka sig af með kvilla sína. Fyrir þá sem eru að glíma við kvíða, depurð eða félagsfælni er þessi þáttur sérstaklega mikilvægur. Ef staðan er slæm getur vel verið að maður þurfi að pína sig til að hitta fólk fyrst um sinn, en smám saman verður það auðveldara og ánægjulegra. Og jafnvel þó að fólk sé ekki í neinum beinum vandræðum getur verið gott að æfa sig í því að sækja enn meira í samskipti. Að hringja í vini eða droppa við í kaffi er margfalt meira gefandi en að eiga nær eingöngu samskipti í gegnum samfélagsmiðla. Í nútímanum þar sem allir eru meira og minna alltaf að flýta sér, án þess að vita nákvæmlega af hverju, gerist það mjög oft að sambönd við vini, fjölskyldumeðlimi og kunningja mæta algjörum afgangi.

Fólki finnst mjög eðlilegt að gera æfinga- eða hreyfingaáætlun, eða næringar-áætlun og plan um að bæta svefn. En fæstir gera sér nokkurn tíma sambærilegt plan í að bæta félagsleg tengsl. Ég skora á alla að prófa að gera lista yfir fólk í lífi manns (vini, fjölskyldumeðlimi, vinnufélaga eða annað) sem manni finnst frábært að eiga samskipti við og umgangast, en maður gerir það of sjaldan. Að sama skapi lista upp aðstæður þar sem maður hlær mikið og getur verið maður sjálfur, en lætur jafnvel líða langan langan tíma án þess að fara í þessar aðstæður. Að því loknu tekur maður svo einfaldlega ákvörðun um að auka samskipti við þetta fólk eða setja sig oftar í þessar aðstæður og framkvæmir það svo. Ekki bara til að gera lífið skemmtilegra, heldur beinlínis til að bæta heilsuna!

Þeir sem hafa áhuga á að sjá meira af því sem ég er að bralla geta fundið mig á Facebook og Instagram:

https://www.facebook.com/solvitryggva

https://www.instagram.com/solvitrygg/

NÝLEGT