Mikilvægi öndunar

Mikilvægi öndunar

Höfundur: Sölvi Tryggvason

Næring, hreyfing og svefn. Flestir eru sammála um að þetta séu mikilvægustu atriðin í heilsu. Ég er sammála því, en vil bæta minnst tveimur atriðum á þennan lista sem ég tel algjörlega jafnmikilvæg. Ég skrifaði í síðasta pistli um annað þeirra. Félagsleg tengsl. Nú ætla ég að skrifa stuttan pistil um hitt atriðið. Öndun eða andardrátt.

Réttur andardráttur lagar allt

Við getum lifað án matar svo vikum skiptir og án vatns í nokkra daga, en jafnvel fyrir al-öflugustu sérfræðinga er varla hægt að vera án andardráttar nema í mesta lagi í nokkrar mínútur. Engu að síður er yfirleitt lögð mun meiri áhersla á aðra þætti þegar kemur að heilsu. Þessu þarf að breyta. Ávinningurinn af því að bæta öndun yfir daginn er gríðarlegur og getur haft áhrif á ótrúlega margt. Ávinningurinn af betri öndun getur meðal annars verið eftirfarandi:

  • Betri svefn.
  • Minni streita og meiri ró yfir daginn.
  • Lægri hvíldarpúls.
  • Lægri blóðþrýstingur og betra blóðflæði almennt.
  • Sterkara ónæmiskerfi.
  • Bætt melting.
  • Lægra sýrustig í líkamanum.
  • Bætt heilastarfsemi og einbeiting.
  • Minni einkenni allra tegunda kvíða, fælni og þunglyndis.
  • Með því að bæta öndun aukast líkur á að maður borði hægar og betur, sem á endanum skilar sér oft í þyngdartapi.

Nokkur atriði sem benda til þess að þú andir ekki rétt yfir daginn og gætir bætt heilsu þína og lífsgæði með því að vinna með öndun eru til að mynda:

  • Ef þú andar reglulega í gegnum munn yfir daginn án þess að líkaminn sé undir álagi.
  • Ef andað er í gegnum munn á meðan sofið er. Ef þú vaknar oft með þurran munn er það til marks um að hafa andað í gegnum munninn yfir nóttina.
  • Ef það er meiri hreyfing á brjóstkassanum en maganum þegar þú andar eðlilega yfir daginn.
  • Ef þú hefur tilhneigingu til að andvarpa oft, er það sterkt merki um að öndunin sé ekki nógu góð. Það er eðlilegt að andvarpa við og við, en ef það gerist ítrekað yfir daginn er það eins konar ákall líkamans á dýpri öndun.
  • Hrotur eða kæfisvefn.
  • Ef þú heyrir í eigin andardrætti á meðan þú ert í hvíld.
  • Ef þú þjáist af reglulegum stíflum í nefi, vandamálum í öndunarfærum, eða svima, er líklegt að andardrátturinn sé ekki í lagi yfir daginn.

Besta leiðin til að byrja að laga andardráttinn er í fyrsta lagi að að taka eftir honum. Það eitt og sér að gefa andardrættinum reglulega gaum eykur strax líkur á að maður byrji að anda betur ofan í maga.

Flestir komast að því þegar þeir fara að huga að andardrætti og öndun að þeir anda frekar hratt og grunnt og öndunin er ofarlega í líkamanum. Munurinn á því að anda með þeim hætti og að anda djúpt og vel ofan í þindina getur hreinlega skilið á milli góðrar og slæmrar heilsu. Meðalmaðurinn andar oftar en 20 þúsund sinnum á dag og það hvernig við gerum það skiptir gríðarlega miklu máli! Almennt gerum við okkur enga grein fyrir því hve mikil áhrif öndun hefur á allt okkar líf. 

Fyrsta atriði þegar kemur að réttri öndun er einfaldlega að andardrátturinn komi frá þindinni og neðan úr maga, en ekki brjóstkassanum, eins og mjög algengt er orðið. Að sama skapi er reglulegur andardráttur í gegnum munn við venjuleg dagleg störf merki um að það þurfi að laga eitthvað. Öndun í gegnum munninn er nýlegt fyrirbæri í mannkynssögunni. Í gegnum árþúsundin hefur mannskepnan alltaf andað í gegnum nefið. Því meira sem maður andar í gegnum nef, því betra. Bæði tekur munnurinn inn meira af bakteríum og eins verður öndun óeðlilegri í gegnum munn. Mikil öndun í gegnum munn ýtir einnig undir stíflur í nefi.

Fyrir fólk sem hreyfir sig reglulega er gott að hafa í huga að reyna að anda sem mest í gegnum nef við æfingar, nema áreynslan sé orðin verulega mikil. Næg og góð upphitun eykur til muna líkurnar á að maður andi rétt á æfingum og þá þreytist maður síður og endurheimt eftir æfingar verður fljótari og betri.

Í grunninn eru þumalputtareglurnar tvær. Ef við erum ekki í líkamlegum átökum eigum við að anda í gegnum nef og við eigum að anda djúpt.

Í nútímasamfélögum eru flestir að anda allt of oft í gegnum munn yfir daginn og andardrátturinn er grynnri en hann ætti að vera. Í raun er stór hluti fólks í dálitlu of-öndunarástandi meira og minna allan liðlangan daginn, án þess að vita af því. Það ástand býr til alls kyns vandamál og getur verið einn stærsti orsakavaldur ýmissa lífsstílssjúkdóma og leiðindaeinkenna. Þeir sem eru verst staddir þegar kemur að öndun eru hreinlega í oföndun meira og minna allan daginn alla daga. Í því ástandi er „flótta- og árasarviðbragð“ líkamans nánast í stanslausri yfirvinnu, sem getur verið grunnur að kvíða, þunglyndi og streitu, sem lítil sem engin bót verður á þó að maður gangi til sálfræðinga, geðlækna eða vinni vitsmunalega úr áföllum og hugrænum kvillum. Líkaminn er hreinlega í stanslausu áfallaástandi. Það eru bein áhrif á milli öndunar og taugakerfisins og þar með öndunar og hugsunar.

Góðu tíðindin eru þau að nær allt sem er gott fyrir heilsu er til þess fallið að bæta öndun til lengri tíma. Eftirfarandi atriði eru öll til þess fallin að dýpka og bæta öndun til lengri tíma

  • Regluleg stutt núvitundarhugleiðsla
  • Einfaldar öndunaræfingar
  • Regluleg taktviss hreyfing
  • Nægur svefn og hvíld
  • Holl næring sem er ekki bólgumyndandi
  • Góð félagsleg tengsl

Fyrir þá sem hafa áhuga á að vita meira um öndun er heill kafli um allt sem snýr að öndun í bókinni minni: ,,Á Eigin Skinni”. Eins mæli ég sterklega með bókinni: ,,Oxygen Advantage” eftir Patrick McKeown, sem er nánst eins og bíblía um allt sem snýr að öndun.

Þeir sem hafa áhuga á að sjá meira af því sem ég er að bralla geta fundið mig á Facebook og instagram:

https://www.facebook.com/solvitryggva

https://www.instagram.com/solvitrygg/

NÝLEGT