Möndlumjólk

Möndlumjólk

Til þess að búa til heimalagaða möndlumjólk þarftu góðan blandara og spírupoka (e. nut milk bag). Ostaklútur, viskustykki eða þétt sigti dugar líka en persónulega finnst mér spírupokinn virka best. 

Innihald:

 

  • 2 dl af möndlum frá Himneskri Hollustu (ca. 150 gr.)
  • 8 dl af hreinu vatni
  • Sæta að eigin vali, ég notaði vanillu stevíu frá Good Good Brand, um það bil 3-6 dropa.

 

Undirbúningur: 
Fyrst skal leggja möndlurnar í bleyti í a.m.k. 8 klst en þó ekki lengur en 48 klst. Ef möndlurnar eru lagðar í bleyti í meira en 12 klst mæli ég með að skipta um vatn reglulega. Það auðveldar blöndun þegar við bleytum möndlurnar en það virkir líka ensímin í möndlunum sjálfum sem gerir möndlumjólkina næringarríkari. Því lengur sem möndlurnar liggja í bleyti því „rjómalagaðri“ verður möndlumjólkin. 

Aðferð:
Þegar búið er að leggja möndlurnar í bleyti skal hella vatninu frá og skola möndlurnar vel undir köldu vatni. Mér þykir best að hella þeim beint í sigti og skola þær þannig. Það er mikilvægt að hella vatninu sem möndlurnar voru bleyttar í, beint í vaskinn en það á alls ekki að nota það vatn í mjólkina.

Næst skal setja möndlurnar í blandarann ásamt hreinu vatni og sætu að eigin vali. Hægt er að nota döðlur, hunang, hlynsíróp, kanil eða stevíu sem sætu.

Blandaðu vel þar til möndlurnar eru leystar upp. Ég blandaði sjálf í 2-3 mínútur. Leggðu spírupokann (eða viskustykkið/ostaklútinn) yfir stóra skál og helltu mjólkinni í gegn. Kreistu svo pokann vel en það er mikill vökvi í hratinu sem að verður eftir. 

Hratið geymist í nokkra daga inn í kæli en svo er líka hægt að frysta það og nota það seinna. Hægt er að nota hratið í bakstur, búa til möndlumjöl úr því eða setja það út í smoothie. Hægt er að finna alls kyns not fyrir hratið á netinu en það kallast „almond pulp“ á ensku.

Síðasta skrefið er að setja möndlumjólkina í flösku eða krukku. Sjálf geymi ég mjólkina í glerflöskum sem að ég keypti í Hagkaup Smáralind. Sostrene Grene og IKEA eru líka með skemmtilegt úrval af glerkrukkum og flöskum.

Möndlumjólkin geymist í 2-4 daga inn í ísskáp og hún á það til að „setjast“ en það er mjög eðlileg. Hristið mjólkina vel fyrir notkun.

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram eða bætt mér við á Snapchat en ég er undir nafninu astaeats

Þangað til næst, verið heil og sæl!

 

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu og Good Good Brand

 

Höfundur: Asta Eats

s

 

NÝLEGT