Search
Close this search box.
Muna uppskrift: Heit epli í kókos og hafrahjúp

Muna uppskrift: Heit epli í kókos og hafrahjúp

Höfundur; María Gomez, matarbloggari

Ég elska allt sem er sætt með höfrum, hafrakex, hafraklatta, hafragraut með kanilsykri og ég gæti lengið talið áfram. Hér er á ferðinni dásamlegheit af heitum eplum umlukin kókos og hafrahjúp, mætti kannski líka alveg kalla þetta eplaböku. Málið er samt að þetta er meira eins og kexmylsna sem umlykur heit eplin frekar en bökudeig, heitt með ís er þetta fullkomið.

Hér ráðið þið alveg hvernig lit af eplum þið notið, ég notaði samt gul epli með möttu hýði en mér finnst þau langbest, rauð ganga vel líka. Þetta er ekki þesslags baka sem þið skerið í sneiðar, hún er meira eins og heitur brauðréttur sem maður skefur upp á diskinn með skeið og allt er frekar messý. Ég elska þannig gúmmelaði.

Ekki skemmir fyrir að þessi eplaréttur er í hollari kantinum en í hann notaði ég lífræn ræktuð hráefni frá MUNA sem áður var og hét Himnesk Hollusta. Þar sem þetta er afar einfalt að útbúa er ekkert mál að skella í eitt svona fat rétt fyrir góða kvöldmáltíð sem dæmi og hafa í ofninum meðan borðað er.

Og hafa svo beint á eftir kvöldmatnum í eftirrétt. Bara tillaga en auðvitað má hafa þetta bara með kaffinu og þegar gesti ber að garði.

HRÁEFNI

 • 200 gr fínmalað spelt frá MUNA
 • 50 gr möndlur frá MUNA
 • 50 gr grófar hafraflögur frá MUNA
 • 200 gr lyktar og bragðlaus kókósolía frá MUNA
 • 150 gr hrásykur frá MUNA
 • 50 gr kókósmjöl frá MUNA
 • 1-2 stór gul epli með mattri húð eða rauð
 • 1/2 tsk fínt borðsalt
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk sítrónusafi (má sleppa)
 • 1 tsk kanill (má sleppa)
 • 5 tsk hrásykur frá MUNA til að dreyfa yfir eplin og ofan á

AÐFERÐ

 1. Byrjið á að mala möndlur og haframjöl létt saman í blandara (ekki of mikið samt)
 2. Setjið í hrærivélarskál með hrærara á, ekki nota þeytaran né hnoðaran
 3. Setjið næst spelt út í ásamt sykri, salti og kókós og hrærið saman með skeið
 4. Setjið svo olíuna ásamt vanilludropum út í (ath olían á að vera við stofuhita, ekki bræða)
 5. Setjið í hrærivélina og hrærið þar til allt er vel blandað saman og orðið eins og deigkúla
 6. Takið nú helmingin af deiginu og þjappið vel ofan í eldfast mót
 7. Skrælið eplin og skerið í þunnar sneiðar og raðið ofan á deigið í eldfasta mótinu
 8. Hellið næst sítrónusafanum yfir eplin og stráið 3 tsk af hrásykri yfir og kanil
 9. Takið svo hinn helmingin af deiginu og setjið á milli tveggja arka af bökunarpappír
 10. Fletjið það út með kökukefli og takið efri pappírinn af og hvolfið svo deiginu yfir eplin með neðri pappanum fastan á
 11. Fjarlægið pappírinn varlega af en þið gætið þurft að skafa ögn með hníf til að ná alveg af
 12. Stráið svo 2 tsk af hrásykri yfir allt og bakið í ofni á 180 °C blæstri í 40-50 mínútur
 13. Látið standa eins og í 10-15 mínútur áður en þið berið fram en gott er að hafa vanilluís með eða þeyttan rjóma

Fleiri girnilegar uppskriftir og annan fróðleik má finna á heimasíðu Muna

NÝLEGT