Nesti í ferðalagið

Nesti í ferðalagið

nesti í ferðalagið

Sigrún Birta fer hér yfir nokkrar uppskriftir með okkur sem er tilvalið sem nesti í ferðalagið.

Í vikunni fór ég ásamt Önnu Möggu vinkonu minni í smá bíltúr út fyrir bæjarmörkin en við kíktum á fossinn Gljúfrabúa sem er í um það bil 15 mínútna akstursfjarlægð frá Hvolsvelli. Eftir að hafa spókað okkur um svæðið ásamt hinum túristunum kom það sér vel að hafa undirbúið gott nesti.

Rice paper rolls með hnetudressingu – tilvalið nesti í ferðalagið

Ég leitaði lengi eftir íslenska heitinu yfir þessar rúllur en fann ekkert. ‘’Rice paper rolls“ verður því að duga í þetta sinn en þær þekkjast líka undir nafninu ‘’summer rolls“. Þrátt fyrir dapurt veður hér á Íslandi í sumar þá finnst mér eitthvað svo sumarlegt og ferskt við þessar rúllur. Það getur verið örlítið snúið að rúlla þeim upp en eftir fyrstu tvær ætti það að vera leikur einn.

Bleytið rúllurnar í 10-20 sekúndur uppúr volgu vatni og leggið á bretti eða disk. Þerrið létt yfir rúllurnar með viskastykki og fyllið með öllu því sem hugurinn girnist. Mínar rúllur fyllti ég með agúrku, papriku, radísum, alpha alpha spírum og spínati. Þetta er því tilvalið nesti í ferðalagið.

Hnetudressing

2 msk hnetusmjör
2 msk tamari
2 tsk hoisin sósa
Safi úr hálfri límónu

Kínóasalat

1 bolli kínóa
1 bolli blandaðar baunir (edamame, nýrnabaunir & maís)
3 sveppir
5 kirsuberjatómatar
1 hvítlauksrif
½ tsk cumin
½ tsk paprikukrydd
½ tsk garam masala
Cayenne pipar af hnífsoddi
Salt & pipar

Aðferð:

Leggið 1 bolla af kínóa í pott og látið vatn fljóta yfir. Sjóðið í 10 mínútur með grænmetiskrafti og turmerik og látið standa í 30 mínútur. Steikið sveppi, tómata og hvítlauk saman og kryddið til. Því næst er baunum blandað saman við og steikt í 5 mínútur. Ofan á kínóasalatið skar ég niður avókadó og dreifði yfir salatið ásamt safa úr límónu.

Hindberja hrákaka

Botn

100 gr möndlur
100 gr heslihnetur
150 gr döðlur (lagðar í bleyti í 30 mínútur)
130 gr sveskjur
80 gr kókosmjöl
3 msk kakó
1/2 tsk salt

Aðferð:

Hráefninu er blandað saman í matvinnsluvél í dágóða stund eða þar til auðvelt er að þjappa deiginu niður í form. Gott er að klæða formið með bökunarpappír áður en deiginu er þjappað í. Geymið í frysti á meðan hindberjafylling er löguð.

Hindberjafylling – nesti í ferðalagið

400 gr kasjúhnetur (lagðar í bleyti í 2-3 klukkustundir)
4 bollar frosin hindber
2 tsk vanilludropar
Hálfur bolli döðlusýróp (eða önnur sæta)
110 gr kókosolía
Safi úr tveimur sítrónum
⅛ tsk sjávarsalt

Aðferð:

Þíðið 4 bolla af frosnum hindberjum. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið í matvinnsluvél ásamt vanilludropum, döðlusýrópi, kókosolíu, sítrónusafa og sjávarsalti. Blandið saman þar til fyllingin er orðin silkimjúk.

Einn bolli af kasjúhnetfyllingunni er svo tekinn frá og henni blandað saman við hindberin og blandan lögð til hliðar. Þá er kasjúhetufyllingunni sem ekki var búið að blanda við hindberin dreift yfir botninn og látið kólna inní frysti í 30 mínútur. Því næst er hindberjafyllingunni dreift yfir. Kakan geymist best inní frysti en ég mæli með að taka hana út 30 mínútum áður en hún er borin fram.

Góða helgi!

Fleiri uppskriftir á H Magasín:

Hér gefur að líta á nokkrar heilsusamlegar uppskriftir á H Magasín

Höfundur: Sigrún Birta

NÝLEGT