Til þess að komast inn í þessa kúrsa þurfti maður að sækja um með viku fyrirvara og síðan var dregið út hverjir komast inn af handahófi. Að kúrsinum loknum fengu nemendur að kaupa skó frá nýju línunni að eigin vali. Hér er hægt að sjá alla skónna.
Virgil Abloh er hönnuður, DJ, “creative director”, leikstjóri og margt fleira. Erfitt er að telja upp öll hans afrek en þau helstu eru að hann hefur verið hægri hönd Kanye West í mörg ár og séð um hönnun á flestum plötuumslögum hans. Einnig var hann á bakvið fatamerkin Been Trill, Pyrex, og nú Off White.
Ég sótti um flest alla kúrsanna og var svo heppinn að komast akkúrat í kúrsinn sem mig langaði mest í, “Music Curation”. Samkvæmt einhverjum gaurum sem voru með mér í kúrsinum sóttu víst 200.000 manns um að fá pláss.
Hér að neðan fer ég létt yfir atburðarrás dagsins ásamt umfjöllunarefni fyrirlestrarins.
Ég mætti klukkan 2:45 og beið í biðröð fyrir utan NikeLab í um það bil 15 mínútur og fékk þar passa fyrir kúrsinn. Þá var mér sagt að koma aftur klukkan 3:30 þar sem rúta myndi sækja mig og fara með mig á staðsetningu fyrirlestursins. Ég labbaði yfir á næsta kaffihús, fékk mér tvöfaldan espresso og tók því rólega í 40 mínútur. Síðan rölti ég aftur fyrir utan búðina og beið í biðröð eftir rútunni með samnemendum mínum. Lamaður af kvíða og koffín ofskammti labbaði ég inn í smárútu með 15 ókunnugum manneskjum. Enginn vissi hvert við vorum að fara, sem var líklega gert til þess að forðast óboðna gesti. Eftir 20 mínútna ferð í smárútunni fórum við út, inn í byggingu og upp 10 hæðir í lyftu. Síðan löbbuðum við inn í mjög hlýlegt fundarherbergi með 5-6 snyrtilegum sófum þar sem snyrtilegum pennaveskjum og glósubókum hafði verið komið fyrir í sætunum. Þegar við gengum inn í fallega fundarherbergið stóð góðmennið Virgil Abloh þar, tók í hendina á öllum og bauð góðan daginn. Þegar menn höfðu fundið sér sitt sæti og komið sér fyrir var okkur boðið að kíkja aðeins út á svalir í ferskt loft og vatnssopa. Þar spjölluðu Virgil og félagar við almúgann og allir í góðum gír. Einnig er verðugt að nefna að tískufrömuðurnir Luka Sabbat og Ian Connor voru þarna úti á svölum, reykjandi sígarettur og spjallandi við liðið.
Fyrirlesturinn byrjaði á því að bresku DJarnir Benji B og Gilles Peterson töluðu um uppruna danstónlistar í Bretlandi ásamt því að ræða gamlar bransasögur ofl. Þegar þeir höfðu spjallað í smá tíma dró Gilles Peterson upp fyrsta demo-ið sem Amy Winehouse tók upp áður en hún samdi við plötufyrirtæki, á vínylplötu (ekki fáanlegt neinsstaðar á internetinu samkvæmt honum) og spilaði það í rosalegum græjum. Þegar lagið kláraðist, stóð Virgil upp, klappaði með mikilli innlifun og kom og fékk sér sæti á sviðinu.
Nokkrum mínútum seinna bauð Virgil Peter Saville, einum frægasta grafíska hönnuði Bretlands upp á svið. Þeir fjórmenningarnir ræddu um allt milli himins og jarðar og tóku við spurningum frá salnum. Dæmi um spurningar voru; „Hvaða samstarf hjá hvaða tónlistarmönnum, dauðum eða lifandi, myndirðu vilja sjá?“ „Hver er áhrifamesti tónlistarmaður nútímans?“ (Virgil svaraði Lil Uzi Vert) „Hver er rútína ykkar áður en þið byrjið að DJa?“ (Flestir sögðust taka skot af tequila eða rommi) „Hvernig ákveðið þið hvort þið spilið crowd pleasera eða lög sem þið viljið virkilega heyra?“ og „Hvað heldur ykkur gangandi í bransanum sem þið ákváðuð að vinna í?“
Eftir fyrirlesturinn fengum við passa til þess að fara aftur í NikeLab búðina og leyfi til þess að kaupa eitt skópar frá nýju Off White línunni. Því miður voru AJ1 skórnir búnir og Presto-arnir ekki til í minni stærð. Þar af leiðandi staðgreiddi ég þriðja nettasta parið, Vapormax skónna.
Þegar ég horfi til baka á fyrirlesturinn og alla umgjörðina í kringum hann, hversu fullkomlega þetta var framkvæmt, hvað Virgil var góður á því og hvað ég lærði mikið, þá er þetta eitt það allra skemmtilegasta og nettasta dót sem ég hef einhverntímann tekið þátt í.
Ég vil hrósa Virgil Abloh sérstaklega fyrir þennan viðburð þar sem ég labbaði inn með nánast engar væntingar en kom út fullur af innblæstri og jákvæðri orku.