Search
Close this search box.
Njótum í núvitund og verum kaloríusnobbuð í desember

Njótum í núvitund og verum kaloríusnobbuð í desember

Höfundur: Ragga Nagli

Langar þig að borða þig yfir í Nirvana ástand af Sörum og Makkintossj þegar aðfangadagur loksins rennur í hlaðið.

Stúta hverri Sörunni á fætur annarri.

Súkkulaðibitakökur í bílförmum.

Makkintossjinu sturtað í smettið.

Þá skaltu halda sykurlausan desember. Viljastyrkurinn fínpússaður og sjálfsstjórnin fægð eins og silfurskeiðarnar með ártalinu. Víra saman kjálkana. Vík burt Satan… í kjólinn fyrir jólin og ekkert múður. Fram að jólum seturðu sætabrauðsdrengi og marengstoppa í grafhvelfingu sem sótsvartur almúginn á ekki aðgang að.

Hvað er óheilbrigt samband við mat?

Óheilbrigt samband við mat er að harðneita öllu sætmeti sem kemst í radíus við munnvikin af hræðslu við að missa tökin. Ein smákaka og ég enda lóðréttur ofan í kökustampinn og hver mylsna kláruð. Ég hef enga sjálfsstjórn.

Óheilbrigt samband við mat er að litla sjálfið stútfyllist af kvíða, samviskubiti og hræðslu innan um freistingarnar á aðventunni.

Óheilbrigt samband við mat er að klára konfektkassann um jólin svo hann verði ekki til staðar í janúar.

Janúar er ekki vídd þar sem allar syndir fara og deyja.

Janúar er ekki stjörnuþoka langt í burtu þar sem þú ert spriklandi ræktaður og borðar bara gúrku og baunir.

Ef þú flokkar sósað sveittmeti og sykrað gómsæti í eitthvað sem einungis er leyfilegt á ákveðnum tíma árs býrðu til skorthugsun.

Síðasta kvöldmáltíðarsyndrómið mætir í gljáfægðum Kádilják. “Þetta verður í síðasta skiptið sem ég borða þennan mat og þarf því að nýta tækifærið með að borða mikið“.

Ég ætla ekki að borða þennan mat aftur. Þegar þetta er hugarfarið geturðu bókað að þú munt ekki stöðva þig eftir aðeins einn mola. Þú stingur þér á bólakaf og sést bara í hælana á þér uppúr smákökudallinum.

Hvað er heilbrigt samband við mat?

Heilbrigt samband við mat er að fá sér nokkra konfektmola á aðventunni. Nokkra lakkrístoppa og súkkulaðibitakökur.

Heilbrigt samband við mat er að njóta lagkökunnar hennar ömmu skolað niður með heitu kakói. Það er líka heilbrigt samband við mat að segja „nei takk“ þegar mann langar ekki í. Það er mikilvægt að standa með sjálfum sér og sínum markmiðum.

Það er líka heilbrigt samband við mat að vera kaloríusnobbaður. Að handpikka bestu molana úr Makkintossj í stað þess að sætta sig við glerharða karamellumolann sem enginn vill. Að njóta síðan molans með núvitund og urlandi sáttur við ákvörðunina.

Skammtaðu þér fyrirfram hvað þú ætlar að borða mikið. Berðu molana fram í fallegri skál. Sestu niður í rólegheitum. Njóttu með núvitund. Haltu svo áfram með lífið.

Það er frelsi… í anda jólanna. Það er enginn jólaandi í sektarkennd og samviskubiti.

Mynd af Sörum er fyrir athygli og slefmyndun í munni

NÝLEGT