Coach Birgir, eða Biggi eins og flestir kalla hann, er fæddur í ágúst árið 1977 og því nýorðin 43 ára. Hann er giftur Lindu Svanbergsdóttir og faðir fjögurra barna; Adams Elí, Berglindar Rósu, Kristófers Arnar og Lúkasar Mána. Biggi lýsir sjálfum sér sem miklum fjölskyldumanni og áhugsömum um allt sem við kemur hreyfingu. Hann brennur fyrir að hjálpa öðrum að ná fram sínum markmiðum hvort sem er í hreyfingu eða daglegu lífi.
Í dag búa þau hjónin í Kaupmannahöfn ásamt yngstu drengjunum og hafa gert s.l. 5 ár. Elstu börnin stunda svo bæði háskólanám á Íslandi og segist Biggi sakna þeirra mikið en áttar sig jafnframt á því að svona sé þetta víst þegar börnin fara að nálgast mann í aldri, eins og hann segir sjálfur frá skellihlæjandi.
En hvað er Biggi að gera í dag, hvað er heilsusamlegt líf fyrir honum og hverju vill hann koma áleiðis til fólks í heilsu hugleiðingum. Við skulum kynnast kauða nánar.
Við hvað starfar þú í dag?
Ég starfa í dag sem styrktar- og afreksþjálfari sem og almennur einkaþjálfari og tek þá fólk mikið í fjarþjálfun eða í þjálfum þar sem ég blanda saman klassískri einkaþjálfun og fjarþjálfun. Vinn með einstaklingum, afreksíþróttafólki, íþróttaliðum og í raun öllum þeim sem vilja ná árangri með réttri prógrammeringu, ráðgjöf o.s.frv. Rek ásamt konunni minni vefsíðuna www.coachbirgir.com þar sem við seljum öll okkar æfingaprógrömm og kynnum þær þjálfunarleiðir sem við bjóðum upp á, en þar eru að finna margar og ólíkar lausnir sem hafa verið að koma ótrúlega vel út og skilað okkar fólki miklum og góðum árangri.
Hver er þinn bakgrunnur í íþróttum?
Ég byrjaði mjög ungur að hafa áhuga á allri hreyfingu og sá áhugi er enn til staðar, ef eitthvað er þá eykst hann og dýpkar með hverju árinu sem líður. Ég byrjaði í þessum klassísku boltaíþróttum þ.e. handbolta, fótbolta og körfubolta en fór svo að færa mig meira í átt að líkamsræktinni. Fékk þar fljótt áhuga á tengingunni milli þess andlega og líkamlega, hvernig við ræktum andlegan styrk í gegnum hreyfingu og ávinningsins sem hlýst af því að taka þátt í hinum ýmsu líkamlegu áskorunum. Ég hef sjálfur lokið 7 maraþonum, yfir 20 hálf maraþonum, nokkrum ultrahlaupum, utanvega- og fjallahlaupum og þar með talið 100km hlaupi í Sahara án þess þó að teljast eitthvað sérstakur hlaupari. Ég hef hins vegar ótrúlega gaman að því að takast á við verkefni sem eru mér krefjandi og fá mig til að kljást við sjálfan mig á annan og dýpri hátt en við flest fáum tækifæri til að gera svona dag frá degi.


Þá hef ég staðið fyrir og tekið þátt í nokkrum góðgerðarviðburðum þar sem áhersla hefur verið á að fara út fyrir þægindamörkin bæði líkamlega og andlega og sýna þannig í verki að allt er okkur fært að takast á við með viljann að vopni og með aðstoð og samvinnu við gott teymi. Má þar t.d. nefna 400km hjól yfir hálendið þar sem við söfnuðum fyrir Blátt Áfram, 100km styrktarhlaup frá Hellu til Reykjavíkur, ÚT MEдA þar sem við hlupum 12 samtals hringinn í kringum landið í samstarfi við Geðhjálp og Rauða Krossinn og komum þannig skriði á það frábæra verkefni sem stækkar og eflist ár frá ári. Svona get ég haldið lengi áfram. Mér finnst fátt skemmtilegra en að ögra mér andlega og líkamlega og hver sá viðburður sem ég hef tekið þátt í hefur fært mér aukinn kraft og aukinn skilning á sjálfum mér sem persónu sem ég hef svo nýtt mér til eflingar í daglegu lífi. Ekki síst við störf mín sem þjálfari.
Hver er uppáhalds hreyfingin þín?
Mér finnst öll hreyfing frábær, elska hreinlega að hreyfa mig og er opinn fyrir að prófa allt á þeirri línu lífsins. Í dag stunda ég þó mest þessa almennu líkamsrækt þar sem ég lyfti, geri functional æfingar með eigin líkamsþyngd, ketilbjöllum, boltum, teygjum, TRX o.s.frv, auk þess að hlaupa, hjóla mikið og leika við þann yngsta utandyra. Að hafa tækifæri til að stunda útivist og hreyfing utandyra eru forréttindi og gæfi ég mikið fyrir að komast í góðar fjallgöngur, utavegahlaup og -hjólreiðar oftar, en því miður er minna af því hér í Danmörku en á Íslandi.
Hver er þín helsta sérhæfing í dag?
Síðustu árin hef ég sífellt meira verið að færa mig yfir í þjálfun á afreksfólki í íþróttum og þá sérstaklega afreksfólki í handbolta. Í dag er ég í samstarfi við umboðsskrifstofu hér í Danmörku, Best Way Management, sem er með nokkur hundruð handboltakonur og -menn á sínum snærum og hef ég tekið að mér talsvert af verkefnum í gegnum þá. Svo spyrst þetta út sem maður er að gera, handboltaheimurinn er á endanum lítill og ef þjálfunin skilar sér í aukinni getu og árangri, skapar það eftirspurn og fleiri skemmtileg verkefni.
Er einhvern tímann of seint að byrja að æfa?
Aldrei, rannsóknir sýna að við getum enn bætt á okkur vöðvamassa með góðri hreyfingu eftir 90 ára aldurinn svo ekki sé nú talað um andlegu áhrifin sem vara að eilífu. Þá er líka ótrúlegt hvað líkaminn okkar er fær í því að heila sig fljótt og þótt maður hafi lifað mjög óhollu líferni í tugi ára, getum við náð fram ótrúlegri innri og ytri heilun og bætingum á nokkrum mánuðum ef hollt og skynsamlegt mataræði fylgir lífstílsbreytingunni.
Hvað er heilsusamlegt líf fyrir þér?
Hreyfing sem vekur áhuga, hollt og gott mataræði án öfga, samvera með góðu fólki og reyna að hafa stress í lágmarki. Það er þetta gullna jafnvægi í öllum þáttum lífsins og leyfa sér bara stundum að anda djúpt inn og út, horfa í kringum sig og njóta líðandi stundar, sama hvar við erum og við hvaða aðstæður. Það er ekkert mál að keyra í gegnum allt sem við gerum hvort sem það er líkamsræktin, vinnan, einkalífið, vinirnir eða hvað annað á sjötta hundraðinu án þess að njóta einnar mínútu af því. Allt of oft er það vegna þess að við erum sífellt með hugann við framtíðina – hvað þarf að gera á eftir, á morgun, eftir viku eða á næsta ári. Á hvaða sviðum við verðum að bæta okkur og verða betri, mjórri, stærri, ríkari eða hvað það nú er. Njótum þess bara sem við erum að gera NÚNA og verum ánægð með okkur sjálf – það sem gerum og hver við erum.


Ef þú myndir ætla að ráðleggja fólki eitthvað eitt í átt að bættari lífsstíl, hvað væri það?
Finna gott jafnvægi milli þeirra þátta sem skipta okkur máli í lífinu. Fjölskylda, vinna, hreyfing, mataræði, samvera og aðrir þættir sem skipta hvern og einn máli. Forðumst öfgar og búum okkur til jafnvægi sem við treystum okkur til að halda lengur en einn mánuð. Þannig líður okkur best og færumst þannig frá því að vera alltaf að dæma okkur á neikvæðan máta yfir í það að vera þakklát fyrir að halda góðri og heilsusamlegri rútínu. Það mikilvægasta er að muna að heilsusamlegt líferni snýst ekki um að vera 100% í öllu eða engu. Það snýst um jafnvægi og þar er hin gullna 80/20 regla lykillinn að langtíma árangri. Það tel ég allavega.
Stundar þú einhverskonar útivist?
Ég elska alla útivist. Við búum í Danmörku svo það er ekki mikið um samskonar útivist eins og við þekkjum frá Íslandi þ.e. yfir og niður fjöll, fell, jökla o.s.frv. En hér hjólum við allra okkar ferða og tökum oft skemmtilega hjólatúra á strendur, í garða eða skóga sem líka hefur sinn yndislega sjarma. Bara það að vera utandyra við hverskyns hreyfingu er ómetanlegt og nærir mann ótrúlega mikið, bæði á líkama og sál.


Varstu sjálfur mikið í íþróttum sem barn?
Já alveg frá unga aldri – prófaði flestar boltaíþróttir og byrjaði svo í líkamsræktinni 13 ára gamall, þá sem undirbúningstímabil fyrir fótbolta og handbolta. Þaðan varð ekki aftur snúið og þar er ég enn.
Hvar sérðu sjálfan þig eftir 5 ár?
Kominn enn lengra í minni þjálfun, þau verkefni sem ég hef verið í undanfarið hafa gefið mér gríðarlega mikið og vona ég að það muni áfram koma upp skemmtileg og krefjandi verkefni sem halda mér við efnið. Mögulega verð ég komin að hjá einhverju félags- eða landsliði en mér finnst fátt skemmtilegra en að hafa bein áhrif á andlegan og líkamlegan styrk minna iðkenda/viðskiptavina og sjá þau blómstra í þeim íþróttagreinum sem þau stunda eða lífinu í heild sinni.
Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerir þú þá? Góð æfing í byrjun dags og henni svo fylgt eftir með góðum brunch og góðum kaffibolla með mínu fólki er eitthvað sem erfitt er að toppa.
Hvað myndir þú ráðleggja fólki sem er að taka sín fyrstu skref í líkamsrækt?
Það eru nokkur atriði. Fyrst ber að nefna að finna sér hreyfingu sem vekur áhuga og ef stefnan er sett á líkamsræktarsalinn þá að finna sér þjálfara/einstakling sem maður ber traust til og fær viðkomandi til að taka fyrstu skrefin með sér. Það skiptir öllu máli að byrja á réttu álagi, ætla sér ekki um of. Ef við byrjum of geyst þá líður ekki langur timi þar til líkaminn segir stopp bæði andlega og líkamlega því hann er einfaldlega ekki að nærast rétt á þeim hraða og miklu breytingum sem við hendum inn alltof geyst. Ef við hins vegar gefum okkur tíma í verkið og byrjum á réttum tempói og á æfingum sem henta okkar líkama og getu, þá líður ekki langur timi þar til líkaminn kallar á aukna hreyfingu og meira álag.. og þá er ekki aftur snúið, sem er dásamlegt.


Hreyfing er okkar allra besta náttúrumeðal og getur gert kraftaverk fyrir andlega og líkamlega vellíðan. Ég hvet líka alla til þess að æfa fjölbreytt og festast ekki alltaf í sömu rútínunni. Því meiri fjölbreytileiki – því meira líkamlegt og andlegt áreiti og áskoranir fáum við. Þannig verður líka alhliða árangur meiri. Sem dæmi gætum við farið í ræktina eða gert styrktaræfingar heima 2-3 sinnum í viku og svo synt, labbað, skokkað eða hjólað 1-2 sinnum samhliða. Þá erum við komin með frábæra blöndu af alhliða hreyfingu. Munum líka að hreyfing er lífsstíll – frábær lífsstÍll en ekki skyndilausn.
Förum líka meðalveginn í mataræðinu og leyfum okkur að njóta lífsins. Áttum okkur á því að það er eðlilegt að taka þátt í jólum, páskum, afmælum og öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða og 80/20 reglan er besta viðmiðið.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir?
Æfa, ferðast með minni heittelskuðu og eiga gæðastundir með börnunum mínum, fjölskyldu og góðum vinum. Góður matur er líka eitthvað sem ég erfitt með að standast.
Hvernig heldur þú huganum í lagi, þ.e. hvernig hugar þú að andlegu heilsunni?
Ég gef mér 10 mínútur á hverjum degi í það sem ég kalla andlega íhugun – þakka fyrir daginn og vel þar 5-10 atriði sem ég er þakklátastur fyrir þann daginn – íhuga það sem betur mátti fara – fer yfir það sem mig langar til að ná fram með deginum í dag, eða á morgun og til framtíðar. Það að þakka fyrir eitthvað á hverjum degi fær okkur til að sjá að hver dagur hefur alltaf eitthvað gott fram að færa sama hversu erfiður hann annars er. Því í erfiðustu aðstæðunum liggur oftast stærsti lærdómurinn og persónulegu sigrarnir. Við þurfum bara að vera opin og móttækileg fyrir því.
Hver er ein mesta áskorun sem þú hefur tekist á við og hvernig tókst þér að yfirstíga hana?


Ég sem einstaklingur og við sem fjölskylda höfum fengið margar og ólíkar áskoranir í lífinu, þar sem sumar hafa verið gríðarlega krefjandi, vægast sagt. En að flytja hingað út með fjölskylduna fyrir 5 árum síðan og hefja með öllu „nýtt“ líf hefur verið afar krefjandi verkefni en á sama tíma ótrúlega gefandi . Hefur það styrkt bæði mig sem einstakling og okkur sem fjölskyldu á sama tíma. Ég og við öll, höfum lært að ekkert er sterkara en við sem eining og fjölskylda. Við getum stólað á hvort annað í daglegu lífi og treyst hvort öðru fyrir framtíðinni, sama hvaða áskoranir, möguleika eða annað tilfallandi lífið kemur til með að færa okkur.
Hver væri titill ævisögu þinnar?
Hahaha, ætli það væri ekki bara Inniskórinn – þannig er að allan minn þjálfaraferil hef ég þjálfað á inniskóm og sýnt ótrúlegustu æfingar á þessum snilldar skóbúnaði með misjöfnum árangri. Þannig fékk ég viðurnefnið Inniskórinn sem lifir enn sterkt hjá mörgum þeirra sem ég hef þjálfað í gegnum tíðina. J
Kaffi eða te? Kaffi
Uppáhalds drykkur? Vatn…já og kaffi
Instagram eða Facebook? Instagram
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa á kvöldin?
Þakka fyrir daginn sem er að líða og gef til kynna að ég sé tilbúinn í nýjan og viðburðaríkann dag. Svo kveiki ég á hljóðbók eða hlaðvarpi og steinsofna 2 mín seinna. Svo ekki spyrja mig hvort hin eða þessi bók sé góð, ha ha ha!
Eitthvað að lokum?
Já það er gaman að minnast á það að við vorum að endurbæta vefinn okkar coachbirgir.com þar sem við bjóðum upp á alhliða æfingaprógröm fyrir íþróttfólk og alla þá sem hafa áhuga á að brjóta upp æfingarútínuna hvort sem er með tilbúnum eða sérsniðnum prógrömmum. Hingað til höfum við nánast eingöngu verið að sinna þjálfun íþróttafólks en vegna mikillar eftirspurnar ætlum við nú að bæta almennum líkamsræktarprógrömmum inn líka.
Þá erum við ýmist að selja tilbúin 4. vikna æfingaprógrömm, sérsniðin æfingaprógrömm og svo fjarþjálfun þar samskipti fara fram í gegnum Messenger og ég útbý æfingar og stýri álaginu algjörlega með þér frá degi til dags. Þetta hentar til dæmis gríðarlega vel þeim sem eru að stefna á eitthvern tiltekinn íþróttaviðburð eða eru með langtíma markmið í huga. Þá getur það skipt sköpum hvað árangur varðar að vera með þjálfara sér við hlið sem útbýr aðlagað æfingaprógram sem er stöðugt uppbyggjandi á réttan máta og hvetur þig áfram þegar „skíta“ dagarnir detta inn. Það gera þeir einfaldlega alltaf, spurningin er bara hversu lengi þeir loða við.
Hvet ég alla þá sem hafa áhuga á að brjóta upp æfingarútínuna sína eða þurfa á aðstoð styrktar- og afreksþjálfara að halda að kíkja á síðuna okkar www.coachbirgir.com eða hafa samband við mig í gegnum tölvupóst: coachbirgir@coachbirgir.com
Þá langar okkur að bjóða lesendum H Magasín upp á 20% afslátt á síðunni okkar með kóðanum H20
Við hlökkum til að aðstoða þig við að ná þínum árangri.