Nokkrar góðar ástæður til að borða vínber

Nokkrar góðar ástæður til að borða vínber

Mannkynið hefur ræktað vínber allt frá því 6500 f.Kr. Í goðsögnum margra ólíkra menningarheima táknar þessi litli ávöxtur frjósemi og gnægð. Ekki nóg með hvað hann er dýrðlegur í útliti – og aðal innihaldsefnið í hinu dásamlega víni – býður hann upp á fjöldann allan af heilsufarslegum ávinningum. Hér eru sjö slíkir – ásamt einföldum leiðum til að bæta þessum gómsæta ávexti inn í þínar daglegu máltíðir og millimál.

Vínber eru hlaðin næringarefnum

Einn bolli af vínberjum veitir þér um fjórðung af ráðlögðum dagskammti af C-vítamíni, um 20% af K-vítamíni og a.m.k. 10% af kopar. Auk þess styðja þau við ónæmiskerfið, líkaminn nýtir C-vítamín í að gera við DNA og framleiða bæði kollagen og serótónín (það síðarnefnda eflir geð og svefn).

C-vítamín hjálpar einnig til við upptöku á járni úr plöntufæði, hærra magn C-vítamíns í blóðinu hefur jákvæð áhrif á fitubrennslu, bæði á meðan á æfingu stendur og þess utan. K-vítamín er nauðsynlegt fyrir beinmyndun, skortur á K-vítamíni getur aukið hættuna á beinbroti.

Kopar hefur áhrif á orku ásamt því að mynda kollagen og rauð blóðkorn. Vínber veita einnig minni skammta af lykil næringarefnum á borð við B-vítamín, kalíum og mangan.

Vínber styrkja ónæmiskerfið

Ásamt því að innihalda áðurnefnd C- og A-vítamín, sem eru bæði lífsnauðsynleg fyrir ónæmiskerfið, styrkja vínber ónæmiskerfið á náttúrulegan hátt með sínum örverueyðandi eiginleikum. Einn bolli af vínberjum veitir einnig um 70ml af vatni sem er mikilvægt fyrir líkamann, blóðrásina og meltinguna.

Vínber innihalda andoxunarefni gegn öldrun

Vínber innihalda þónokkuð mörg mismunandi andoxunarefni, þar á meðal nokkur sem draga úr bólgum og ýta undir eðlilegt blóðflæði. Andoxunarefnin í vínberjum hafa einnig verið tengd við betri heilastarfsemi (t.d. betra minni), vinna gegn öldrun og stuðla að langlífi. Sýnt hefur verið fram á að efnið kversetín (e. quercetin) sem finnst í rauðum og svörtum vínberjum ver gegn taugahrörnunarsjúkdómum eins og Alzheimers. Kversetín hefur einnig verið tengt við „apoptosis“, ferli sem líkaminn notar til að eyða frumum sem eru orðnar gamlar eða hættar að starfa eðlilega.

Vínber gætu bætt nætursvefninn

Vínber innihalda melatónín sem getur bæði lengt og bætt gæði nætursvefnsins. Þetta er lykilatriði þar sem svefnleysi hefur áhrif á svo gríðarlega marga. En svefnleysi hefur í för með sér ýmsa kvilla, eins og þunglyndi, sýkursýki 2, hjartasjúkdóma og offitu. 

Vínber hafa góð áhrif á hjartað

Vínber hafa ýmis góð áhrif á hjartað. Þau geta minnkað líkur á æðakölkun, dregið úr háum blóðþrýstingi, bætt blóðrásina, minnkað líkur á blóðstorknun og degið úr bólgum. Rannsóknir sýna að vínber geta einnig hjálpað til við að lækka kólesteról.

Vínber viðhalda heilbrigðri sjón

Vínber innihalda efnin lútín og seaxantín sem verja sjónhimnuna og augnlinsuna. Sýnt hefur verið fram á að þau auka sjónsviðið, minnka óþægindi við glampa í augum og draga úr tímanum sem það tekur augað að jafna sig af of skærum ljósum. Einnig geta þessi tvö efni dregið úr líkum á að fá ský á augað. 

Vínber hafa góð áhrif á meltinguna

Vínber innihalda ekki mjög mikið af trefjum, einungis 1-2 grömm í einum bolla. Þrátt fyrir það ýta trefjarnar og vökvinn í vínberjum undir eðlilegar þarmahreyfingar og efnið pólýfenól í vínberjum hjálpar til við að breyta þarmaflórunni til hins betra.

Leiðir til að bæta vínberjum í matinn

Vínber eru frábær sem millimál eða eftirréttur en einnig er hægt að bæta þeim við hina ýmsu rétti. Sneidd og sett út á hafragraut eða kalda grauta, salöt, elduð eða kæld. Búðu til dásamlegt salsa eða chutney úr vínberjum. 

Hægt er að elda vínber, baka þau í ofni ein og sér eða með grænmeti eins og rósakáli, spergilkáli eða sætum kartöflum. Svo má líka nota vínber í eftirrétti, eins og vínberjapæ eða tertu eða einfaldlega dýfa þeim í brætt dökkt súkkulaði. 

NÝLEGT