Höfundur: Coach Birgir
Vöðvaþol er afar mikilvægt fyrir okkur öll hvort sem er í íþróttum eða lífinu í heild sinni og segir til um hversu fær við erum í að endurtaka ákveðnar hreyfingar ítrekað aftur og aftur í ákveðin tíma án þess að þreytast eða þarfnast reglulegrar hvíldar. Þegar við sem dæmi aðstoðum vini eða fjölskyldumeðlimi við að flytja þá keyrum við á vöðvaþolinu þegar við lyftum og berum kassa frá einum stað til annars og endurtökum svo sömu hreyfingarnar aftur og aftur þar til yfir lýkur. Félagarnir sem fljúga áfram með kassana og geta endalaust haldið áfram eru þeir með besta vöðvaþolið á meðan þeir sem sækjast frekar í ölið og pizzusneiðina með reglulegu millibili er mögulega þeir sem hefðu þörf á að skerpa á vöðvaþolinu.
Þegar kemur að æfingum og íþróttum þá vinnum við með vöðvaþolið þegar við gerum 30 armbeygjur í röð án hvíldar eða þegar við gerum eins margar endurtekningar af hnébeygjum og við getum á 60 sekúndum.
Stöðumatið sem útskýrt er hér að neðan er afar einfalt í útfærslu en veitir góða innsýn í hversu vöðvaþolið okkar er gott ásamt því hversu hröð endurheimt okkar er. Stöðumatið samanstendur af 13 æfingum sem allar eru gerðar í eina mínútu með það að markmiði að framkvæma eins margar endurtekningar af hverri og einni æfingu og við mögulega getum.
Hvernig teljum við stigin
Í kjölfar hverrar æfingamínútu fáum við svo eina mínútu í hvíld áður en við reynum okkur við næstu æfingu. Markmið stöðumatsins er að ná eins mörgum endurtekningum og við mögulega getum í öllum æfingunum. Þegar við höfum skrifað niður endurtekningafjöldann úr öllum 13 æfingunum þá leggjum við tölurnar saman og fáum út samtölu sem jafnframt er niðurstaða stöðumatsins.
Töluna úr 200m sprettinum fáum við þannig að við notum 60 sekúndur sem grunntölu og drögum svo hlaupatímann okkar frá þeirri tölu. Ef við sem dæmi hlaupum sprettinn á 36 sekúndum, þá er niðurstaðan okkur úr þeirri æfingu 60 – 36 = 24
Hæstu niðurstöður sem við höfum séð úr stöðumatinum eru rétt undir 600 stigum en flestir hafa náð á bilinu 380-500 stigum sem gefur til kynna gott og mjög gott vöðvaþol.
Allt yfir 500 stig er frábært, 450+ er mjög gott, 400+ er gott og 350 er í meðallagi gott. Niðurstaða undir 300 gefur hins vegar mögulega til kynna að huga mætti betur að vöðvaþolinu með aukinni áherslu á æfingar sem styðja við uppbyggingu þess.
Stöðumatið: Munum að taka hverja æfingu í mínútu og svo mínútu í hvíld eftir hverja æfingu
Æfing 1: KB sveiflur
Æfing 2: Down Ups
Æfing 3: TRX Róður
Æfing 4: Uppsetur/Sit Ups
Æfing 5: 20m Hliðarsprettir
Æfing 6: Axlapressur (Push Press)
Æfing 7: Framstigsskref
Æfing 8: Russian Twists
Æfing 9: Floorpress
Æfing 10: Donkey Jumps
Æfing 11: Armbeygjur
Æfing 12: Hnébeygjuhopp
Æfing 13: 200m Sprettur
Samtals tekur stöðumatið aðeins 26 mínútur og því engin afsökun til fyrir því að prófa það ekki!
Gangi ykkur vel og góða skemmtun!