Ertu manneskjugeðjari?
Fólksþóknari
Náunganærari
JÁ-ari
Nágranni þinn biður þig að passa hundinn sinn yfir helgi
Já auðvitað segirðu á hátíðninni
Yfir helgina mígur hann útum allt. Vaknar kl. fimm á morgnana til að fara út að labba
Af hverju var hann að biðja mig um þetta?
Hann er núna á Tene að sóla sig meðan ég er úti í slyddu klukkan fimm að morgni að bíða eftir að hundur kúki bakvið brunahana.
Innra með þér er gremja, pirringur, frústrasjón og reiði.
Óheiðarlegt JÁ er alltaf NEI við sjálfan þig. Nei við tíma fyrir sjálfsrækt. Nei við tíma með fjölskyldunni. Nei við svefni. Nei við hvíld. Nei við afslöppun. Nei við sjálfsvirðingu.
Þess vegna getur óheiðarlegt JÁ skapað neikvæðar tilfinningar í garð þess sem spurði.
Og við sem sögðum JÁ til að þóknast og geðjast. Til að valda ekki vonbrigðum. Til að öllum líki vel við okkur. Til að vera ekki leiðinleg. Til að vera góð og stillt og prúð og sýna náungakærleik í verki.
En í staðinn byrja neikvæðar tilfinningar að spretta eins og njóli á fjósvegg.
Að vera people pleaser eða manneskjugeðjari á sér rætur í lágu sjálfsmati, lágri sjálfsvirðingu, hræðslu við höfnun og þörf fyrir hrós, samþykki og viðurkenningu frá náunganum.
Í mörgum tilfellum er þetta lærð meðvirkni úr æsku.
Við tökum ábyrgð á tilfinningum annarra.
Við þykjumst vera sammála öllum í kringum okkur.
Við erum sífellt að afsaka okkur.
Við forðumst ágreining eins og hnerrandi mann í strætó.
Við fáum rassakláða ef einhver er fúll út í okkur.
Gekk ekki vel með hundinn?
JÚ alveg glimrandi….. segjum við á innsoginu… á háa C-inu.
Ef þú bara vissir hversu mikið ógeðslegt vesen þetta var!!! Hugsum við hins vegar.
Frábært…. þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur í næstu utanlandsferð…. segir nágranninn.
Og spírallinn endurtekur sig.
Með því að segja óheiðarlegt JÁ sendum skilaboð til sjálfsins um að okkar þarfir, langanir og þrár eru ekki eins mikilvægar og tilfinningar annarra.
Leiðir til að komast útúr manneskjuþóknun.
Byrjaðu að segja nei í ómerkilegum aðstæðum. Stattu með sjálfum þér þegar einhver fer framfyrir þig í röð í bakarí. Láttu vita í sjoppunni þegar þú fékkst vitlaust gefið til baka.
Færðu þig síðan yfir í innra lag af lauknum af fólkinu í kringum þig.
Láttu vinnufélagann vita að þér líki ekki þegar hann segi niðrandi brandara um blökkufólk.
Biddu nágrannann um að hætta að bora í vegginn eftir klukkan níu á kvöldin.
Þá hefurðu byggt upp sjálfstraust einn Legókubb í einu og ert þá jafnvel klár í að tækla erfiðasta fólkið í þínum innsta hring.
Segðu manninum þínum að þú kynnir að meta meiri ástúð frá honum.
Segðu foreldrum þínum að ef þig vanti uppeldisráð varðandi börnin þín þá munirðu í framtíðinni biðja um það.
Áttaðu þig á hvaðan þessi pervertíska þörf fyrir þóknun og geðjun kemur?
Er það úr æsku? Til að fá samþykki mömmu og pabba.
Fékk ég samþykki, viðurkenningu og hrós sem barn fyrir að hjálpa til?
Foreldrageðjarar verða fullorðinsgeðjarar.
Þú berð ekki ábyrgð á tilfinningum annarra.
Þú getur ekki stjórnað áliti annarra á þér með að vera jámanneskja
Áttaðu þig á muninum á hvenær þú vilt í alvörunni gera eitthvað fyrir einhvern af einskærri góðmennsku og hvenær þú ert að þóknast og geðjast til að stýra áliti hans á þér.
Tileinkaðu þér möntruna…. ef það er ekki „JAHÁ…. sjúklega til í það“ þá er það „NEI, ég get það því miður ekki.
Engar afskanir. Engar málalengingar. Engar útskýringar.
Hreinræktað og hreinskilið NEI.

