Search
Close this search box.
Olíuhreinsun

Olíuhreinsun

Ég er sjálf með blandaða húð, sem þýðir bara það að hún getur ekki ákveðið hvort það séu bólur eða þurrkublettir, svo óáreitt eða þegar ég hef ekki nógu mikið fyrir henni þá sendir hún mér hvoru tveggja. Þegar ég hreinsa með olíu þá er eins og þurrkublettirnir safni rakanum en á sama tíma gera plús og plús mínus og olían núllar út þau svæði þar sem olíumyndun er fyrir.

Uppskriftin sem ég set með er ein af mínum uppáhalds og fastur liður í daglegri rútínu. Hún er einföld og geymist vel svo það er ekkert því til fyrirstöðu að blanda fyrir lengri tíma. Innihaldsefnin eru fá og bjóða upp á að hægt sé að breyta og bæta eftir hvað hentar þinni húð. Það má setja mismunandi olíur í blönduna en að þessu sinni nota ég Castor olíu og möndluolíu frá Now.

Möndluolían

Möndluolían er uppáhalds náttúrulega olían mín og ég nota hana í nær allt sem ég mixa. Hún er frábær alhliða olía og er heppileg fyrir allan aldur, allar húðgerðir og hana má nota hvar sem er á líkamann. Ein og sér gerir hún kraftaverk (að mínu mati) en hún er mild og smýgur vel inn í húðina. Þú getur borið hana á brennda húð til að græða, losna við bauga undir augum með því að bera hana á fyrir svefninn, nuddað með henni og þar sem hún er einstaklega létt fer hún ofan í svitaholur og nær óhreinindum og kemur þannig í veg fyrir fílapensla og aðra bólumyndun. Fyrir utan að næra og gefa góðan raka þá er það ástæðan fyrir því að ég vel hana í kvöldhreinsunina en hún nær öllum óhreinindum, sem setjast í svitaholurnar, burt.

Castor olían

Hitt innihaldsefnið er Castor olía sem hefur svipaða eiginleika en hún hreinsar, nærir og gefur raka. Auk þess vinnur hún vel á uppbyggingu húðar. Svo hún er svona eins og aldursmeðalið í þessari hreinsun. Hún eykur teygjanleikan í húðinni og vinnur gegn roða og misfellum. Einnig þykir hún hafa áhrif á slit og bruna en eitt það besta er að þegar maður ber hana á augnhár og augabrúnir eykur hún hárvöxt og þéttir hárin.

Castor olíuna þarf að blanda með annarri olíu nema hún sé þvegin strax af. Mér finnst frábært að nota Castor olíu á þurrkubletti á líkamanum þegar ég er í sturtu, þá nudda ég henni eins og sápu og þvæ hana strax af. Það myndast hitatilfinning og ég er handviss um að ég finn hvernig hún styrkir veika og viðkvæma húð.

Síðasta innihaldsefnið eru svo ilmkjarnaolíurnar, þar eru möguleikarnir endalausir en ég á nokkrar sem eru í sérstöku uppáhaldi. Meðal þeirra eru lavender og tea tree. Fyrir utan að lykta dásamlega hafa þær virkni sem hentar vel til að hreinsa húðina. Lavender róar og er sótthreinsandi og tea tree olían hefur líka sótthreinsandi eiginleika auk þess að vera þekktur bólubani. Þarna er þinn möguleiki til að finna þína innri seiðkonu eða karl og kíkja á mismunandi virkni ilmkjarnaolía og finna hvað hentar þinni húð best.

Innihald og aðferð

Finndu þér hentugt ílát, eitthvað sem hægt er að loka og er loftþétt. Hlutföllin fara eftir húðgerðinni en fyrir blandaða húð eins og mína þá nota ég um 40% Castor olíu, en fyrir þurrari húð væri 25-30% sennilega nóg. Á móti kemur þá 60% möndluolía. Þarna er auðvitað hægt að nota aðrar olíur, jafnvel góða ólívuolíu eða aðrar náttúrulegar olíur sem mega fara beint á húðina.

Ég set um það bil 30 dropa af ilmkjarnaolíu út í blönduna: 20 tea tree og 10 lavender en þarna stjórnar þú ferðinni.

Nuddaðu blöndunni vel inn í húðina á andlitinu með hringlaga hreyfingum. Settu svo þvottapoka undir heitt vatn og settu yfir andlitið. Þá myndast smá gufu effect sem opnar svitaholurnar og gerir olíunum auðveldara fyrir að vinna sína vinnu. Leyfðu þvottapokanum að vera á í nokkrar mínútur og notaðu hann svo til að fjarlæga aukaolíu.

Þetta er hreinsun sem tekur bara nokkrar mínútur og fyrir mitt leyti borgar það sig fyllilega að nota smástund fyrir svefninn til að dekra við sig.

Nuddolía með lavender

Húrra fyrir öllum þeim sem eiga nuddolíu heima hjá sér. Gefðu sjálfum þér smá nudd á mjóbakið og axlirnar eða fáðu einhvern annan til að nudda þig. Möndluolían hefur mjúkan og mildan hnetukeim sem flestum finnst bara afskaplega þægileg lykt, en lavender lyktar eins og allt sem er gott og fallegt. Lavender er uppáhaldslyktin mín, hvort sem um ræðir ferskt eða í formi ilmkjarnaolíu. Lavender hefur róandi áhrif, svo hún er fullkomin til að blanda í nuddolíu.

Slökun á slökun ofan.

Höfundur: Anna Sóley

NÝLEGT