Search
Close this search box.
Petit Knitting: Fallegar prjónauppskriftir

Petit Knitting: Fallegar prjónauppskriftir

Þú stofnaðir nýlega netverslunina Petit Knitting, hvernig verslun er um að ræða?

Við hönnum og seljum prjónauppskriftir eftir mig sjálfa. Uppskriftirnar eru, eins og er, fyrir börn á aldrinum 0 – 5 ára en framtíðarmarkmiðið er að hanna stærri stærðir og jafnvel á fullorðna líka. Draumurinn er að selja líka prjónatengdar gæðavörur eins og prjóna, prjónamerki, nálar, heklunálar og þess háttar. Við leggjum mikla áherslu á gæði í hönnun okkar og viljum hafa góðar og vandaðar vörur til sölu í netversluninni. 

Ég sé um hönnun, uppskriftir og þýðingar á þeim ásamt því að halda úti Instagram síðu. Grétar sér um allt hitt. Hann sér um öll tæknimál, yfirlestur, fjármál, samskipti við viðskiptavini, samskipti við mögulega birgja og samstarfsaðila. Saman sjáum við svo um auglýsingar og tengslamyndun, bæði hér á Íslandi og úti í hinum stóra heimi.

17619749_10158586030320245_371730670_n

17618912_10158586030200245_1443936544_n

Gerir þú prjónauppskriftirnar sjálf?

Já ég hanna allar uppskriftirnar sjálf, tek myndirnar sjálf og sé um uppstillingu og litaval á þeim flíkum sem ég prjóna.

Hvaðan sækir þú innblástur?

Ég sæki innblástur frá Norðurlöndunum og þá sérstaklega frá Noregi og Danmörku. Þeir eru komnir mjög langt í prjónahönnun fyrir ung börn og nota fallega liti, flott snið og skemmtileg mynstur. Ari, yngra barnið mitt, er í raun minn helsti innblástur. Ég prjóna allt á hann, bæði það sem hann þarf og það sem mig langar til að prjóna.

17619533_10158586025925245_1669492839_n

Hefur þú verið að prjóna lengi?

Ég byrjaði fyrst að fá áhuga á prjónaskap þegar ég var 13 ára gömul og prjónaði mína fyrstu húfu þá. Mamma prjónaði mjög mikið og seldi bæði vörur og uppskriftir eftir sjálfa sig og var mjög framarlega í þessum efnum á sínum tíma. Svo ég hef ekki langt að sækja. Ég hef mikla þörf fyrir að skapa og Grétar sagði við mig á tímabili þegar ég vildi alltaf vera að breyta heimilinu „ástin mín, þú þarft að fá þessa sköpunarútrás annars staðar“. 

Ég fæ mikla útrás fyrir sköpun með því að prjóna og hanna og vill helst bara prjóna hverja flík einu sinni. Ég er með höfuðið fullt af hugmyndum og er yfirleitt með nokkrar flíkur á prjónunum og enn fleiri í kollinum. Ég prjónaði mikið á Sögu, eldra barnið mitt, þegar hún var yngri eða þangað til hún tók upp á því að vilja ekki vera í prjónaflíkum því henni klæjaði svo undan þeim. Þá fór ég að prjóna á aðra í staðinn. Þegar ég varð svo ófrísk af Ara þá fór ég á fullt. Ég reyndi að fara eftir uppskriftum en áður en ég vissi af var ég búin að breyta þeim.

Nöfnin sem þú notar á flíkurnar, er einhver ástæða fyrir valinu?

Ég vil nota nöfn sem tengjast okkur. Ég hef verið að nota seinni nöfn góðra vinkvenna og svo nota ég nöfnin á börnunum mínum og öðrum fjölskyldumeðlimum. Þannig verða uppskriftirnar enn persónulegri og skemmtilegri.

17577924_10158586030325245_1499906967_n

17690901_10158586030255245_199512259_n

Hvar er hægt að fá frekari upplýsingar og skoða hvað er í boði?

Við erum með netverslun en þar eru allar þær uppskriftir sem eru til sölu. Við erum nýtt nafn í hönnunarheiminum og stefnum á að koma með nýjar uppskriftir mjög reglulega. Einnig erum við meðFacebook síðu en þar setjum við daglega inn myndir, linka og upplýsingar um vörur, hönnun og það sem er í vinnslu. Síðan erum við með Instagram síðu en þar gefst okkur gott tækifæri til að tengjast fólki víðsvegar um heiminn og kynna þannig okkar hönnun út um allt.

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

Þær hafa verið vonum framar! Við fengum 1000 like á Facebook síðuna okkar á 10 dögum, fullt af fyrirspurnum, pöntunum, kaupum á uppskriftum og mjög jákvæð viðbrögð við þeim í okkar garð. Það er líka gaman að segja frá því að Sandnes garn, leiðandi garnframleiðandi á Norðurlöndunum, leist það vel á það sem við erum að gera að þeir ætla að styrkja okkur svo við getum haldið áfram að hanna nýjar vörur. 

17671240_10158586031880245_64301482_n

Höfundur: Sjöfn Kristjánsdóttir / H Talari

 

NÝLEGT