Search
Close this search box.
Pör sem æfa saman – eru líklegri til að haldast saman!

Pör sem æfa saman – eru líklegri til að haldast saman!

Rannsóknir sýna fram á áhugaverðar niðurstöður um ávinnig  þess að æfa eða stunda heilsuræktina saman..

Á hverjum degi vítt og breitt um landið eru einstaklingar að æfa á líkamsræktarstöðvum eða ganga, hlaupa eða hjóla um götur, stíga eða fjöll. Staðreyndin er sú, að flest stundum við þessa heilsubót ein eða í æfingahóp án aðkomu maka okkar.

En kannski er komin tími til að að breyta þessu og stunda heilsuræktina allavega að hluta til með makanum. Rannsóknir benda nefnilega til þess að pör sem æfa saman séu ekki einungis hraustari bæði á líkama og sál heldur séu þau einnig hamingjusamari, ástfangnari og nánari maka sínum, bæði andlega og líkamlega. Ávinningurinn af því að æfa með makanum getur því verið gríðarlega mikill og bætt sambandið og samskipti ykkar til muna.

Rannsókn sem gerð var árið 2000 af þeim Aron, Norman, Aron og Heyman sýndi að eftir að pör höfðu sameiginlega stundað spennandi og skemmtilega hreyfingu eða líkamlega áskorun voru pörin ánægðari með samband sitt og upplifðu sig meira ástfangin af maka sínum. Þekkt er að hreyfing kemur af stað lífeðlisfræðilegri örvun, sem knýr og eykur rómantískt aðdráttarafl milli hjóna og/eða para. Endorfínin (hamingju hormónin) sem líkami okkar losar þegar við æfum og tökum vel á því hjálpa einnig við að auka kynhvötina og löngun okkar í kynlíf og/eða líkamlega nánd.

Þá er það líka þekkt hugtak í félagslegri sálfræði að nærvera annarra hefur bein áhrif á getu þína og ákefð við ástundun æfinga eða hverskyns hreyfingar. Að æfa með betri helmingnum fær okkur því til þess taka meira á því og leggja meira á okkur en við annars myndum gera. Að skora á makann eða setja á laggirnar keppni í hinu og þessu gerir æfingarnar líka extra skemmtilegar og kveikir ekki einungis eldmóð og neista meðan á æfingunni stendur, heldur líka heima fyrir.

Hér að neðan er frábær paraæfing sem við hjónin gerðum saman í ræktinni í morgun. Hún er framkvæmd þannig að þið byrjið á að velja hvort ykkar er félagi 1 og félagi 2. Þegar þið hafið ákveðið það, gerir félagi 1 æfingarnar sem eru settar niður fyrir hann hér að neðan, á meðan félagi 2 framkvæmir sínar æfingar. Hver æfing er síðan framkvæmd með skipulaginu „ÉG GERI – ÞÚ GERIR“, sem þýðir að þegar félagi 1 er t.d. búin með 10 endurtekningar af kassahoppum, þá hvílir hann á meðan félagi 2 gerir 10 endurtekningar af upphýfingum. Þá gerir félagi 1 aftur 10 endurtekningar af sinni æfingu og svo framvegis þar til báðir aðilar hafa klárað fullar endurtekningar af öllum 5 æfingunum í sínu setti með þessu fyrirkomulagi. Þetta reynum við að gera á sem stystum tíma og því mikilvægt að hvetja æfingafélagann vel í gegnum æfinguna.

Bæði áður og eftir að þið framkvæmið félaga-settin, hlaupið þið hvor um sig 500m.

Ef þið viljið lengri æfingu þegar þessu er lokið, getið þið skipt um sett og fylgt sama fyrirkomulagi eða gert eins og við gerðum og tekið 25 endurtekningar af settinu sem félagi ykkar framkvæmdi áðan og gert það á ykkar eigin hraða. Settin eru mjög sambærileg í tíma og erfiðleikastigi svo þið getið sett klukkuna aftur í gang og búið til skemmtilega keppni ykkar á milli, eða farið í gegnum æfingarnar án tímapressu eða keppni.

Eins ef þið viljið gera æfinguna léttari þá er um að gera að fækka endurtekningum úr 50 í 20-30.

Njótið vel og ég hlakka til að heyra hvernig gekk og hvað ykkur fannst! 🙂

COACH BIRGIR PARAÆFING:

Buy In: 500m hlaup (sem báðir aðilar hlaupa samtímis)

Sett – Félagi 1:

50 Kassahopp

50 Ketilbjöllusveiflur

50 Uppsetur – með skífu yfir höfuð

50 Réttstöðulyftur – með 2 ketilbjöllur

50 Burpees

Sett – Félagi 2:

50 Upphýfingar eða TRX Róður / Róður á stöng

50 Framstig með skífu yfir höfuð

50 Armbeygjur með losun handa (hand release)

50 Boltar í vegg (Wall Balls)

50 Kaloríur í róðravél

Buy Out: 500m hlaup (sem báðir aðilar hlaupa samtímis)

Endilega fylgið mér á Instagram https://www.instagram.com/coach_birgir/ það væri gaman ef þið mynduð tagga mig þar eða senda mér skilaboð og segja hvernig gekk!

Aðrar æfingar á H Magasín

Skoðaðu fleiri æfingar á H Magasín hér.

NÝLEGT