Search
Close this search box.
Ragga nagli fer yfir fösturnar

Ragga nagli fer yfir fösturnar

Sextán átta. Fimm/tveir. Sautján sjö. Fimmtán níu.
Þriggja daga vatnsfasta.
Vika á horriminni.

Nú eru föstur vinsælli en sódastrímtæki í eyðimörkinni.

Mataræði er ekki eins og regnsláin sem þú kaupir í neyðarástandi á bensínstöðinni í Vestmannaeyjum þar sem ein stærð hentar öllum.

Flestir eru vanir að borða yfir sextán tíma tímabil á dag og sofa í átta tíma. Ef við snúum því á haus og höfum bara átta tíma glugga til að úða í snúðinn þá er ansi erfitt að borða yfir sig. Föstur geta því slæsað kaloríur því Það detta yfirleitt út ein til tvær máltíðir yfir daginn.

Hitaeiningaþurrð heitir það á vísindamáli og í því ástandi tálgast smjör af skottinu. Fyrir marga er auðveldara að borða 2-3 stórar máltíðir en margar agnarsmáar sem varla losa út seddumerki.

Þú ert smá saddur en samt hálfsvangur allan daginn sem veldur oft frústrasjón í sálinni. Föstur mega þó ekki snúast upp í sveltikúr. Það eru til heilbrigðar föstur og óheilbrigðar föstur.

Það sem gerist eftir föstu skiptir líka máli. Rétt eins og vöðvar stækka og styrkjast í hvíld, er snæðingstíminn eftir föstu mikilvægur. Eftir 16, 18 eða 24 tíma föstu geturðu ekki verið með reyrða sultaról inn að beini og tutlað eins og horaður spörfugl í snæðinginn. Sorglega fáar hitaeiningar fara ekki vel saman með föstu og hefur áhrif á hormónabúskap, streitukerfið og skjaldkirtilinn.

Margir sem hafa dansað við matarplön og megrunarkúra og dúndrað í grímuna litlum máltíðum margsinnis yfir daginn eru komnir úr tengslum við svengd og seddu því þeir hafa fylgt klukkunni í snæðingum en ekki hungri.

Föstur eru góð leið til að átta sig á hvað er líkamleg svengd og hvað er bara hugurinn að kvabba í leiðindum. Til þess að læra að borða eftir eðlishvöt og njóta í núvitund þurfum við að þekkja hvernig hungur kemur fram í skrokknum.

Föstur eru líka frábær leið til að átta sig á hvaða kveikjur í umhverfinu knýja okkur til að borða af öðrum ástæðum en hungri. Föstur eiga hinsvegar ekki að verða refsivöndur eftir ofát helgarinnar.

Það býr til óheilbrigt samband við mat og föstur geta aukið á svarthvítar hugsanir um reglur í kringum máltíðir og ákveðin matvæli. Saklaust daður við að hafa tóman maga getur skyndilega breyst í sveltikúr áður en þú færð rönd við reist.

Hungurtilfinning getur orðið að normi og átröskun lúrir handan við hornið. Byrjaðu frekar á að leita þér faglegrar aðstoðar og koma góðri næringu upp í rútínu.

Heilbrigðar föstur eru frábært verkfæri fyrir betri heilsu, gefa meltingakerfinu frí og aftengjast mat. Hvort sem það er í 10, 12, 14 eða 16 tíma. Óheilbrigðar föstur eru að sama skapi öflugt verkfæri fyrir átröskun og sjálfshatur.

Því margir telja að hið nýja trend sem er að tröllríða öllu á instagramminu sé sveipað dulúð og muni opna hlið Sesams fyrir horuðum rassi og eilífri æsku.

Áður en þú hoppar hins vegar með bundið fyrir augun í föstur er nauðsynlegt að vopna sig með þekkingu og fara í djúpa sjálfskoðun og draga út naflakuskið.

NÝLEGT