Search
Close this search box.
Ragga Nagli: Koffín… Karbamíð eða kaffibaun?

Ragga Nagli: Koffín… Karbamíð eða kaffibaun?

Hvað fer í gegnum hugann þegar þú heyrir orðið koffín?

Poki af appelsínugulum Bragakaffi.

Afi í stofunni með molakaffi og neftóbak.

Risastór snobbaður teikavei Starbökks bolli í útlöndum.

En koffín er ekki bara í kaffi.

Te. Súkkulaði. Kakó. Kaffi. Orkudrykkir innihalda líka koffín

90% fullorðinna í heiminum nota koffín í einhverri mynd.

Við notum koffín á ýmsa vegu.

Hvort sem það er til að koma starfseminni af stað á klósettinu á morgnana.

Eða fíra upp í maskínunni fyrir átökin í ræktinni.

Dressað upp í möndlumjólk og á hipsteravæddum kaffihúsum

Slafra hnetufyllt súkkulaði yfir nýjasta Game of Thrones

Víraðir unglingar í Kringlunni með orkudrykk í hönd.

Því koffín er örvandi efni sem hefur áhrif á líkamann í gegnum miðtaugakerfið. Æðar víkka út, hjartsláttur örari og blóð spýtist til allra líffæra. Öndun verður hraðari, meltingin fer í roknastuð og þvagmyndun eykst.

Rannsóknir sýna að 150 mg af koffíni bætir úthald, seinkar þreytueinkennum og þannig aukið frammistöðu á æfingum. Koffín hefur að auki áhrif á ATP kerfið sem er sú orkueining sem líkaminn framleiðir í þjálfun.

En til að rugla okkur aðeins í skallanum þá er allt koffín ekki skapað eins.

Náttúrulegt koffín eða gervikoffín?

Náttúrulegt koffín kemur úr plönturíkinu eins og telaufum, guaranakjörnum og auðvitað kaffibaunum.

Síðan er það kemískt gervikoffín framleitt í fabrikku. Fyrirtækið Monsanto þróaði gervikoffín eftir seinni heimsstyrjöldina úr efninu karbamíð og getur innihaldið hörð kemísk efni eins og carbondioxide og ethyl ester.

Hvernig vitum við hvort ropvatnið innihaldi náttúrulegt eða fabrikkað koffín?

Náttúrulegt koffín er vanalega listað úr uppruna þess í innihaldslýsingu vörunnar sem við ætlum að dúndra í ginið.

Framandi orð eins og gingko, kólahneta, yerba mate, ginseng og guarana koma þar oft fyrir, sem og gamlir kunningjar eins og grænt og svart te og grænar kaffibaunir.

Ef þar stendur aðeins ‘koffín’ geturðu verið nokkuð viss um að um gervistöff sé að ræða.

Náttúrulegt koffín er hinsvegar minnihlutahópur eins og rauðhærðir og örvhentir, því það finnst í aðeins 60 plöntum, á meðan þúsundir orkudrykkja og öðrum vörum eru stútfull af gervikoffíni.

Gervikoffín frásogast hraðar í gegnum meltingarveginn en náttúrulegt koffín og fer því eins og eldur í sinu um æðarnar sem gírar orkuna lengst upp í rjáfur á núlleinni. 
En Adam er sannarlega ekki lengi urlandi ferskur í paradís því túrinn keyrist á formúluhraða aftur niður. “Krassbúmmbang” með tilheyrandi gjaldþroti og bugun í orku.

Náttúrulegt koffín hinsvegar trítlar jafnt og þétt inní blóðráð eins og taktfastur hermaður á leið í bardaga, og þú upplifir stöðuga aukningu á orku sem síðan krúsar aftur niður eins og afi gamli niður Kambana í gamla daga. Engin rússíbanareið frá ýlfrandi partýstuði og hrapa svo niður í svarthol örmögnunar.

Náttúrulegt koffín hefur að auki andoxunaráhrif því þú færð allan regnbogann úr plöntunni sjálfri og vítamínin úr plöntunum sjálfum hjálpa við að koma jafnvægi á viðbrögð líkamans við koffíninu og hindra svefnleysi, hjartsláttatruflanir, kvíða og ógleði sem eru algengar aukaverkanir af gervikoffíni.

Meira að segja bleksvört iðnaðaruppáhelling og rótsterkt svart te veita jafnari orku en kemísku blöndurnar í áldósunum og kóladrykkirnir í plastikkinu sem fá margra fermetra hillupláss í súpermörkuðum.

Til þess að vera viss um að þinn orkudrykkur innihaldi náttúrulegt koffín en ekki gervikoffín er ráðlegt að skrumskæla innihaldslistann og leita eftir guarana, ginseng, grænu tei og þá veistu að þú sért að setja gæðakoffín í musterið þitt en ekki að kyngja karbamíði.

NÝLEGT