Ragga Nagli og áhyggjur af því hvað öðrum finnst

Ragga Nagli og áhyggjur af því hvað öðrum finnst

Höfundur: Ragga Nagli

Síðasta sumar tók Naglinn upp á að sveifla golfkylfu í fyrsta skipti. Lítil í sér labbaði hikandi inn á golfvöllinn. Áhyggjur af því að gera sig að fífli. Allir að horfa á mig. Kvíði yfir að vera lengi að slá og valda pirringi samgolfara. Passa sig að vera ekki fyrir neinum. Vandræðaleg þegar kylfan sveif langt framhjá boltanum. Óþægilegt þegar höggið gerði ekkert annað en að rífa upp grasblett.

Pælingar um að vera ekki í réttu spjörunum.

Ekki með lingóið á hreinu.

Eldgamlan golfpoka keyptan notaðan af eldri borgara í úthverfi.

Enginn þokki í sveiflunni. Meira eins og verkamaður að munda kúbein á steinsteypu.

Engin þekking á hvernig allar þessar kylfur virka.

En áhyggjurnar reyndust óþarfar því enginn góndi. Enginn sendi hæðnisbréf í pósti. Enginn híaði. Enginn pískraði. Naglinn var ekki tjörguð og fiðruð á torgum. Allir voru hjálpsamir. Umhyggjusamir. Uppteknir af eigin sveiflu.

Byrjendur í ræktinni

Nú þegar ræktin hefur opnað aftur fyllast margir salir af nýgræðingum á sviði járnrífinga. Þá er gott að hafa í huga að við vorum öll byrjendur á einhverjum tímapunkti. Það var enginn með persónuleg met í bekkpressu á fyrsta degi. Það var enginn með tæknina geirneglda á viku tvö. Það var enginn með útpælt prógram og skothelt plan ofan í íþróttatösku sem síðast var notuð í menntaskóla.

Þegar nýgræðingar ráfa eins og ölvaðir unglingar á skólaballi milli tækja er auðvelt að flissa og glotta út í annað. Það er auðvelt að hlæja í hornum og pískra þegar þeir framkvæma óskiljanlegar hreyfingar. Þegar þeir taka tækið sem við ætluðum að nota er auðvelt að rúlla augum og hnussa í pirringi. Það er auðvelt að taka myndir og pósta á Insta og Fés af nýstárlegum tilburðum í tækjum. Það er auðvelt að upphefja þannig sjálfan sig á kostnað annarra.

Slíkt gerir ekki annað en að vekja upp vonleysi og hjálparleysi hjá grasrótinni. Og þeir hrökklast útaf þessum ógnvekjandi stað. Með árskortið óbrúkað í flúnkunýju töskunni það sem eftir lifir árs.

Þetta var kannski sautjánda tilraun þeirra til að koma rækt í rútínu.

Það tók þá kannski marga daga að telja í sig kjark að ganga inn um rennihurðina.

Hræðslan við að gera sig að fífli tók hugann í gíslingu.

Fyrir marga eru þessi fyrstu spor ansi þung. Gerum sporin þeirra á morgun léttari með samkennd og hjálparhönd. Bjóðum aðstoð. Brosum til þeirra. Hrósum og hvetjum. Því við byrjuðum öll einhvers staðar. Við vorum öll með kvíða, lítil í okkur og áhyggjufull.

Ræktin á að vera eins og Brimborg: öruggur staður til að vera á.

Hér má finna aðra skemmtilega pistla eftir Röggu

NÝLEGT