Rannsókn leiðir í ljós mikilvægi reglulegrar hreyfingar eftir sextugt

Rannsókn leiðir í ljós mikilvægi reglulegrar hreyfingar eftir sextugt

Hreyfing er allra meina bót og það virðist svo sannarlega eiga við þegar kemur að hreyfingu hjá eldra fólki, samkvæmt nýrri rannsókn. Meira en milljón karla og kvenna yfir sextugt tóku þátt í rannsókninni sem leiddi í ljós að aukin hreyfing, jafnvel á efri árum, dragi úr líkum á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að til þess að draga úr téðum líkum þurftu þátttakendur að hreyfa sig sem jafngilti því að hlaupa í um klukkustund á viku.

Rannsóknin stóð yfir frá árunum 2009 – 2012, þ.e. á þeim tíma sem þátttakendur mættu í heilusfarsskoðun og svöruðu spurningum um hversu mikla hreyfingu þeir stunduðu í viku hverri og hvort einhverjar breytingar urðu á lífsmynstri þeirra á milli skoðana. Það sem vakti eina mestu athygli rannsakenda var að rúmlega 20% þeirra sem stunduðu ekki mikla hreyfingu við fyrstu skoðun höfðu aukið við hreyfingu í seinni skoðuninni og þessi sami hópur minnkaði þannig líkur sínar á að fá hjartasjúkdóm um 11%.

Hreyfing, hreyfingarleysi og hjartasjúkdómar

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að jafnvel þeir sem voru fatlaðir eða með langvarandi kvilla og fóru frá því að hreyfa sig ekkert í að hreyfa sig hóflega mikið yfir í að hreyfa sig mikið, a.m.k. þrisvar í viku, drógu verulega úr líkum á hjartasjúkdómum.

Niðurstöður rannsóknarinnar ríma vel við það sem áður hefur komið fram varðandi tengsl hreyfingarleysis og hjarta- og æðasjúkdóma. Á vef embætti landlæknis, í grein eftir Emil L. Sigurðsson, yfirlækni Heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi, segir meðal annars: „Hreyfingarleysi og gildi hreyfingar í forvörnum hafa verið rannsakað mikið að undanförnu. Þessar rannsóknir renna stoðum undir fyrri hugmyndir um það að hreyfingarleysi sé sjálfstæður áhættuþáttur hjarta og æðasjúkdóma. Með aukinni tækni og velmegun höfum við dregið úr hreyfingu almennt. Fólk notar bifreiðar til að komast leiðar sinnar, situr meira við tölvur og sjónvarp og hitaeininganotkun er því minni en áður. Þetta samfara breyttu mataræði hefur haft óhagstæð áhrif á áhættuþættina. Ekki er þörf fyrir alla að fara og æfa fyrir maraþonhlaup, heldur hafa rannsóknir sýnt að öll dagleg hreyfing skiptir máli. Því er mikilvægt fyrir alla að huga að því hvernig þeir geti aukið hreyfingu í daglegu lífi, s.s. með því að ganga eða hjóla til vinnu, nota ekki lyftur osfrv. Einnig er mikilvægt að temja sér reglubundna hreyfingu s.s. sund, göngur eða skokk a.m.k. 3-4 sinnum í viku 30 mínútur í senn.“

Önnur stór rannsókn frá árinu 2014 sýndi fram á að um 3,2 milljón dauðsföll á ári á heimsvísu má rekja til hreyfingarleysis.

Takmarkanir á rannsókninni

Samkvæmt rannsakendunum var umrædd rannsókn takmörkuð vegna tveggja þátta. Annars vegar voru breytingarnar á hreyfingu þátttakenda byggðar á spurningalista sem þátttakendur fylltu út sjálfir og hins vegar voru þátttakendur í eldri kantinum og allir úr sama þjóðfélagshópi (frá Kóreu). Þar af leiðandi þyrftu niðurstöður að vera staðfestar í fjölþjóðlegum hópi. 

Vöntun var á upplýsingum um annars konar hreyfingu, svo sem heimilisstörf og styrktaræfingar. Rannsakendur gátu ekki metið hvers vegna sumir þátttakendur breyttu hreyfivenjum sínum vegna þess að um athugunarrannsókn var að ræða (spurningalistar) en ekki inngripsrannsókn.

Niðurstöðurnar hafa þó talsverða þýðingu fyrir umheiminn. Á heimsvísu eru niðurstöðurnar mikilvægar fyrir heilsu almennings. Áætlað er að fjöldi fólks 60 ára og eldri í heiminum verði um 2 milljarðar árið 2050 sem er mikil aukning frá árinu 2015 þegar fjöldi fólks í heiminum 60 ára og eldri var um 900 milljónir. 

Hreyfing er lykillinn

Þó svo að þessi rannsókn hafi einungis náð til fólks 60 ára og eldri þá er nokkuð ljóst að hreyfing er gríðarlega mikilvægur þáttur þegar kemur að heilsu okkar. Hvort sem það er ganga, hlaup, hjólreiðar, sund eða líkamsrækt, þá er lykilatriðið það að koma hjartslættinum og lungunum í gang, veita vöðvunum viðnám og styrkja beinin. Ef þú ert hins vegar komin á efri árin og hefur stundað litla hreyfingu hingað til, getur verið gott að ráðfæra þig við sérfræðing sem getur sett saman æfingaplan sem sniðið er að þínum þörfum og þinni sögu. Mestu máli skiptir þó að byrja sem fyrst og þannig lágmarka líkur á sjúkdómum og meiðslum sem rekja má með beinum eða óbeinum hætti til hreyfingarleysis.

NÝLEGT