Rífðu í járnið til að verða fitubrennslu maskína

Rífðu í járnið til að verða fitubrennslu maskína

Margir rembast í fitutapi mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, eins og rjúpan á staurnum án þess að uppskera eins og til er sáð. En það getur verið vegna þess að fókusinn er á rangt æfingaform. Þeir keyra púlsinn upp í rjáfur hoppandi frá einni æfingu til annarrar til að svitna eins og grís á teini í veikri von um að skilja lýsið af líkamanum eftir í svitapolli.

Margir leggja hinsvegar minna púður í gamaldags járnhífingar því þær brenna ekki eins mörgum hitaeiningum og hopp og skopp. Skrokkurinn nýtir hitaeiningar úr matnum þínum í bensín til að hamast í sölum ræktar. Og það er vissulega rétt að þú brennir ekki eins mörgum hitaeiningum við að gera nokkur sett af bekkpressu, hnébeygjum og réttstöðu rétt á meðan þú ert að hamast. En munurinn er að eftir lyftingar er líkaminn á yfirsnúningi við að nýta hitaeiningar sem koma inn.

Vöðvar eru eins og Friðþjófur frændi í fermingarveislunni sem étur gestgjafana út á gaddinn með átta ferðum á veisluborðið. Vöðvar eru svo frekir á orku að þeir eru eins og kjarnorkuofn í einn til tvo sólarhringa eftir þunga lyftingaæfingu að nýta eld og brennistein í að verða sterkari og senda skilaboð til líkamans um að þurfa að byggja vöðva til að höndla hlassið á næstu æfingu.

Með því að rífa í járnið keyrirðu þannig grunnbrennsluna upp í hæstu hæðir sem þýðir að þú spænir upp líkamsfitu sem eldivið á meðan þeir sitja á bossanum yfir Netflix á kvöldin. Sérstaklega þegar klukkubúðir eru á hverju horni er mikilvægt að vera með hraða grunnbrennslu. Er ekki skemmtilegra að vera með átómatíska fitubrennslu í staðinn fyrir að þurfa að brenna fitunni handvirkt með endalausum froskahoppum?

Lyftingar viðhalda líka heilbrigðum hormónabúskap með að keyra upp testósterónið. Nýttu orkuna í að byggja upp og viðhalda vöðvamassa með 3-4 lyftingadögum í viku til að passa uppá að grunnbrennslan verði ekki miður sín.

Prófaðu að taka gott preworkout með Beta Alanine til að kreista út nokkrar auka endurtekningar.

Taktu síðan 1-2 þolæfingar á hárri ákefð á móti. Gætir jafnvel prófað rauðrófuduft fyrir þolæfingar til að auka þol og úthald.

Þarna ertu með skothelt plan fyrir áhrifaríkt fitutap. Hverjum finnst ekki gaman að rífa í járn og borða nóg og mikið? Það er mun skemmtilegra en að slefa eins og rolla á girðingastaur í horuðum snæðingum og þolæfingum marga daga í viku.

Styrktarþjálfun er leikbreytir
Styrktarþjálfun er lífsbjörg
Styrktarþjálfun er valdefling

NOW Preworkout og Beta Alanine fæst á www.hverslun.is
Afsláttarkóði: ragganagli20
#samstarf

NÝLEGT