-
Hita upp fyrir æfingar
Upphitun er lykilatriði. Sama hversu æst við erum í að byrja strax á fullu þá verður líkaminn að fá nokkrar mínútur til þess að hitna. Með upphitun hitum við upp vöða og liðamót til þess að forðast meiðsli. Ráðlagt er að hita upp í 5-15 mínútur. Það þarf ekki alltaf að vera á hlaupabrettinu eða skíðatækinu en það er vel hægt að hita upp með léttum lóðum og líkamsþyngd.
-
Teygja á og rúlla eftir æfingar
Það er jafn mikilvægt að kæla okkur niður eftir æfingu eins og það er að hita upp. Það versta sem við gerum líkamanum okkar er að hætta strax á æfingunni þegar púlsinn er ennþá hátt uppi. Róum okkur niður, náum púlsinum niður og teygjum á. Teygjur eru mikilvægar til að forðast meiðsli. Teygjur auka liðleika og auka þannig árangur. Þá mæli ég sérstaklega með því að rúlla vöðvana með foamrúllu eftir æfingu en við náum að nudda vöðvana dýpra með rúllunni og bætum þannig endurheimt vöðvanna.
-
Drekka vatn á meðan æfingu stendur
Þegar við svitnum þá töpum við miklum vökva og næringarefnum úr líkamanum. Við þurfum að drekka vatn til þess að forðast vökvatap. Jafnvel þótt við drekkum pre-workout fyrir æfingar þá er mikilvægt að vökva líkamann jafn óðum á meðan við svitnum.
-
Fá sér næringu stuttu eftir æfingu
Sama hvernig æfingu þú tókst þá er alltaf mikilvægt að næra sig fljótlega eftir æfingu. Það að borða rétta fæðu eftir æfingu flýtir endurheimt vöðvanna, eykur vöxt vöðvanna og fyllir á orkubirgðir líkamans. Eftir æfingar er best að næra líkamann með blöndu af kolvetnum og próteini. Mælt er með því að borða innan við 30 mínútur eftir æfingu.
Snapchat: RVKFIT
Instagram: ingibjorgthelma
Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit)