Search
Close this search box.
RVKfit: Hveitilausar pizzur

RVKfit: Hveitilausar pizzur

Hér að neðan eru uppskriftir af tveimur mismunandi gerðum af hveitilausum pizzum. Spínatpizzan er í algjöru uppáhaldi hjá mér þessa dagana en kínóa pizzan er ekki síðri. Best þykir mér að mauka tómata sjálf og gera þannig mína eigin pizzasósu.

Spínatpizza

2 lúkur spínat
1 egg
100 g ostur
Hvítlauksduft

Spínat, egg og ostur sett í matvinnsluvél og hrært þar til verður að mauki. Blandið hvítlauksduft við blönduna (mega vera krydd að eigin vali) og hrærið í nokkrar sekúndur.

Blöndunni dreift með skeið eða sleikju í hringlaga pizzabotn á bökunarpappír (einnig hægt að nota hringlaga kökuform). Bakist í um það bil 10 mínútur við 180°en þá er botninn tekinn út og honum snúið á hina hliðina. Bakið aftur í 5-7 mínútur. Botninn er fremur svampkenndur og eðlilegt er að kantarnir brúnist örlítið. Næst  er botninn tekinn út og pizzasósan ásamt áleggi að eigin vali sett á. Bakið að lokum í 7-10 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað og brúnast örlítið.

Kínóapizza

3/4 bolli kínóa látið liggja í bleyti í 8 klst.
1/4 bolli vatn
1/2 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk hvítlauksduft
1 msk extra jómfrúar ólífuolía frá Himneskri Hollustu

Settu kínóað í skál og fylltu upp með vatni  svo vatnið sé ca 2,5 cm hærra en kínóað. Láttu liggja í bleyti í um það bil 8 klst. Sniðugt að gera þetta kvöldið áður eða jafnvel um morguninn.

8 tímum síðar: Kveiktu á ofninum og stilltu hann á 200°sigtaðu vatnið frá kínóanu , skolaðu kínóað og sigtaðu aftur. Sigtað kínóað sett í blandara með 1/4 bolla vatni, saltinu, lyftiduftinu og hvítlauksduftinu ásamt 1 tsk af ólífuolíu. Blandað vel saman þar til blandan er kremkennd.
Blöndunni dreift í hringlaga pizzabotn á bökunarpappír (einnig hægt að nota hringlaga kökuform). Bakist í 15 mínútur en þá er botninn tekinn út og honum snúið á hina hliðina. Bakið aftur í 10-15 mínútur. Því næst  er botninn tekinn út og sett á sósu og álegg að eigin vali. Bakið að lokum í 10-15 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað og brúnast örlítið.

Snapchat:

RVKFIT

Instagram:

ingibjorgthelma

Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit)

NÝLEGT