RVKfit: SoulCycle

RVKfit: SoulCycle

SoulCycle er spinningstúdíó sem eru staðsett víðsvegar um Bandaríkin og Kanada. Hver spinningtími er 45 mínútur og er markmið SoulCylcle að auka bæði andlega og líkamlega vellíðan. Tímarnir eru þannig uppbyggðir að samhliða líkamlegri áreynslu kemur mikil andleg hvatning frá kennurunum, sem hafa allir gengið í gegnum víðamikla þjálfun. Þetta hjómar eins og algjör klisja en er í raun eitthvað mest hvetjandi líkamsræktarkerfi sem ég hef prófað. Í hvert sinn sem ég geng út úr tíma hugsa ég eitthvað jákvætt og hvetjandi um sjálfa mig. Það fer að sjálfsögðu eftir kennurum hvernig hver og einn tími er, en kennararnir eru mishvetjandi og hafa misjafnan tónlistarsmekk, eins og eðlilegt er. Á vefsíðu SoulCycle má lesa um hvern kennara og meðal annars hans tónlistarsmekk sem mér finnst frábært. Hér getið þið skoðað kennarana nánar. 

635921362837423737-2043380404_soulcycle-logo

Það sem einkennir hvað helst SoulCycle er ef til vill það að spinning salurinn er upplýstur með kertaljósum en ekki diskóljósum eins og við þekkjum eflaust hér á Íslandi. Þegar ég heyrði af kertaljósunum bjóst ég við að vera að fara í einhvern „slökunar“ spinningtíma en það er þvert á móti þannig. Tónlistin er afar fjörug svo það verður frekar hvetjandi stemning en róandi með kertunum. Tónlistin er yfirleitt sú vinsælasta hverju sinni i bland við gamla og góða smelli en auk þess er oft boðið upp á þematíma þar sem einn tónlistarmaður er tekinn fyrir. Ég hef til dæmis farið í bæði Taylor Swift og Beyonce tíma og það kom virkilega á óvart hversu gaman það var. Tímarnir í heild sinni eru miserfiðir eftir kennurum en í hverjum tíma er tekin ein lota þar sem unnið er með handlóð, sem brýtur upp tímann á skemmtilegan hátt.  

 

Ef þið eigið leið um Bandaríkin eða Kanada hvet ég ykkur til þess að prófa SoulCycle, þið verðið ekki svikin. Fyrsta tíma fylgja spinningskór en svo er alltaf hægt að leigja þá á mjög lítinn pening (3$). Fyrir ykkur sem hafið áhuga er hægt að lesa betur um SoulCycle hér. Þar má einnig finna verðskrá og staðsetningar á stúdíóunum, en þau eru staðsett í öllum helstu borgum Bandaríkjanna sem og Kanada. 

Góða skemmtun í SoulCycle!

 

 

Snapchat: RVKFIT 

Instagram: ingibjorgthelma 

Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit)

 

NÝLEGT