Höfundur: Ragga Nagli
Theodór Roosevelt var ekki bara bangsaforsetinn. Hann sagði að samanburður er þjófur gleðinnar.
Búdda sagði að samanburður er þjáning.
Samanburður er vanvirðing fyrir sjálfum þér því í staðinn fyrir að einblína á það sem við gerum vel þá er athygli okkar á öðrum. Þú rænir þig gleðinni með að bera þig saman við aðra.
En þú rænir þig líka gleðinni að bera þig saman við fyrrum útgáfu af sjálfum þér. Sérstaklega þegar kemur að líkamanum því hann breytist út af allskonar.
Breyttar heilsuvenjur.
Breytt heilsufar.
Breyttur hormónabúskapur.
Breytt tímatafla.
Aukinn aldur.
Þú hefur kannski minni tíma til að æfa en áður.
Estrógen og testósterón fer dvínandi með aldri.
Þú ert að jafna þig eftir veikindi.
Þú tókst pásu frá æfingum.
Þú hefur verið slakari í mataræðinu.
Þú gekkst með barn.
Þú ert þreyttari en áður.
Útlit, lögun og geta líkamans getur verið önnur í dag. Samanburður við gamla útgáfu skrokks vekur hjá okkur stöðugar tilfinningar um að vera ekki nóg, gera ekki nóg, eiga ekki nóg, er skaðlegt fyrir heilsuna.
Óraunhæfum væntingum til sjálfsins og ómannlegum kröfum fylgir ekkert nema neikvæð sjálfsmynd, lundin verður níðþung og sjálfstraustið fer niður í kjallara.
Óháð því hvort þú syrgir fyrrum útgáfu líkamans. Hann þarf samt ást og virðingu. Hann á samt skilið að þú heiðrir þörf hans til að hreyfa sig. Líkaminn á skilið úrvals næringu. Hann þarf góðan svefn. Hann er samt þinn helsti bandamaður.
Þú þarft ekki endilega að gera alltaf betur í dag en í gær. Miklu frekar, er ég að gera mitt besta í dag útfrá aðstæðum?
Ef svarið er já, þá er það alveg-nóg. Það sem þú veitir athygli það vex. Veittu athygli því sem þú gerir vel Þannig styrkirðu sjálfstraust og sjálfsmynd.

