SAMANBURÐUR RÆNIR INNBÚI SÁLARINNAR

SAMANBURÐUR RÆNIR INNBÚI SÁLARINNAR

Höfundur: Ragga nagli

Theodór Roosevelt var ekki bara bangsaforsetinn. Hann sagði að samanburður er þjófur gleðinnar. Þú rænir þig gleðinni með að bera þig saman við aðra.

Við höfum nefnilega tilhneigingu til að bera okkur saman við þá sem eru mörgum klössum fyrir ofan okkur.

Súrdeigsbrauðið hjá mér er eins og tyggjóklessa miðað við Jóa Fel.
Armbeygjurnar mínar eru vandræðalegar miðað við Katrínu Tönju.
Eldhússkáparnir haugdrullugir miðað við Sólrúnu Diego.
Ekki jafn klár og Stjörnu-Sævar.
Hlaupin eru hjákátleg miðað við Arnar Péturs.

En við berum okkur líka saman við okkar nánustu og horfum einungis á það sem þau hafa en við ekki.

Vinkona sem klárar doktorsnám
Vinur að flytja í raðhús í úthverfi
Frændi að vinna í útlöndum.
Frænka að æfa fyrir hálfmaraþon.

„Og hér er ég í leiguíbúð í Kópavogi, bara með masterspróf og saug puttann í fósturstellingu eftir 10 kílómetra hlaup í gær.“

Þessi samanburður innrætir hjá okkur “ekki-nóguna” sem gargar allan daginn í hausnum fyrirvaralaust og ómeðvitað Við séum ekki nóg, gerum ekki nóg, eigum ekki nóg.
Stöðugt samviskubit yfir að æfa ekki sjö daga vikunnar og sleikja ekki salatblað í hverri máltíð.

Niðurrifsseggirnir vopnaðir sleggjum og sprengibúnaði tæta niður sjálfsmyndina. Sólin skín úti og fuglarnir syngja og trén blómstra.

En sólin skín skærar í Suður Afríku.
Fuglarnir syngja hærra á Madagaskar.
Trén eru í meiri skrúða á Sardiníu.

Þarna dregur ský fyrir sólina, blómin ekki augngotu virði og fuglasöngurinn aumingjalegt væl.

Jákvætt hugarfar er mælikvarði á hvernig við tökumst á við erfiðleika.

Það sem þú veitir athygli það vex.
Veitirðu athygli því sem þú gerir vel?
Eða veitirðu einungis athygli því sem þú gerir ekki nógu vel?

Samanburður rænir þig af því að horfa jákvæðum augum á tilveruna.
Samanburður rænir þig þakklæti fyrir það sem þú átt.
Samanburður rænir þig núvitund því þú ert alltaf í fortíð og framtíð að berja þig niður.
Þannig rænir samanburður þig líka tímanum þínum.
Þú hefur enga þolinmæði því allt á að gerast hratt og strax.
Raunhæfar væntingar fara út í hafsauga.
Hugarfarið verður neikvætt.
Ólga innra með þér.

Óraunhæfar væntingar til sjálfsins og ómannlegar kröfur fylgir ekkert nema neikvæð sjálfsmynd, depressíf lund og lágt sjálfstraust. Samanburður rænir þig af sjálfstrausti, raunhæfum væntingum, hindrar þig í að ná velgengni og þakklæti. Þannig getum við aldrei uppfyllt þrár eða langanir, því við erum stöðugt óhamingjusöm með eigið líf.

Við erum alveg nóg, gerum nóg, eigum nóg og lítum nógu vel út.

NÝLEGT