Search
Close this search box.
Sara Björk um landsliðið og Wolfsburg

Sara Björk um landsliðið og Wolfsburg

Hvar ert þú búsett núna?

Ég er nýflutt til Wolfsburg í Þýskalandi. Eftir að hafa spilað í Malmö í 5 ár ákvað ég að breyta til og skipta um umhverfi og deild. Það var kominn tími til að fara úr þægindarammanum og takast á við ný krefjandi verkefni.

Hvað er það sem drífur þig áfram í þínu sporti?

Mín helsta ástríða er fótbolti og ég hef alltaf sett fótboltann í fyrsta sæti. Gert allt til þess að verða betri og betri og komast lengra og lengra. Það sem drífur mig áfram á hverjum degi er ástríða og tilfinningin sem ég fæ þegar ég spila fótbolta. Sú tilfinning þegar maður er góður á æfingum, þegar maður á frábæran leik, þegar maður skorar mark, þegar maður vinnur leiki, þegar maður vinnur titla, þegar maður spilar á stórmóti með landsliðinu og þegar maður setur sér markmið og nær þeim. Allir þessir þættir og meira drífur mig áfram í því að verða ennþá betri og lætur mig aldrei stoppa eða verða sadda.

Hvernig hefur þér gengið úti?

Það hefur gengið vel hingað til, ég kom í sumar í undirbúningstímabil og síðan byrjaði deildin í september. Deildin er skemmtileg og krefjandi. Hún er frekar jöfn myndi ég segja, flest lið geta stolið stigi hvert frá öðru sem er jákvætt. Maður er alltaf að spila erfiða leiki með miklu tempói og á móti gæða leikmönnum.

Hvernig er samkeppnin?

Wolfsburg er stór klúbbur og með marga frábæra leikmenn en flest allar eru topp landsliðsleikmenn. Hópurinn er stór og það er gríðarlega mikil samkeppni, en það er ein ástæðan fyrir því að ég vildi skipta um deild og fara í meira og krefjandi umhverfi þar sem ég get haldið áfram að bæta mig og verða enn betri leikmaður. Æfingar og leikir eru krefjandi, þú færð mikið af gagnrýni og neikvæðar athugasemdir ef þú ert ekki að standa þig. Það er alltaf pressa á þér að spila vel í leikjunum og sérstaklega að vinna leikina þar sem Wolfsburg á að vera besti klúbburinn. En ég þrífst af öllu sem kallast keppni; vera best á æfingum, standa mig vel í leikjunum og sýna mig og sanna.

Ég er fyrst og fremst í keppni við sjálfa mig, við það að toppa mína frammistöðu á hverjum degi.

Samkeppni er mikilvæg og lætur mann vinna extra og meira en aðrir. Ég er alltaf í keppni hvort sem það er við samherjann minn, á æfingum eða mótherjann minn í leikjum og ég er fyrst og fremst í keppni við sjálfa mig, við það að toppa mína frammistöðu á hverjum degi. Það er ein ástæðan fyrir því hversu langt ég hef komist og hversu langt ég mun komast.

Að ná árangri, hvað þýðir það fyrir þér?

  • Fer allt eftir því hversu mikið þú ert tilbúin til að leggja á þig.
  • Að ná árangri fyrir mér er að setja fótboltann í fyrsta sæti. Vinna að öllum hliðum og gera allt í þínu valdi til þess að toppa sjálfa þig og vita að þú getur orðið betri og betri með hverjum degi.
  • Vita þína styrkleika og veikleika og vinna markvisst í þeim.
  • Æfa, æfa auka en rétt og passa upp á álag og hvíld.
  • Leggja þig alltaf 100% fram við allar æfingar sem þú gerir fyrir fótboltann, þótt það sé sendingaræfing eða lyftingaræfing, þá er markmiðið að reyna fá sem mest útur æfingunni svo þú verðir betri leikmaður.
  • Huga að hollum lífsstíl, réttri og góðri næringu fyrir þig sem leikmann.
  • Setja sér markmið og gera allt í þínu valdi til þess að ná þeim.
  • Sjálfstraust er gríðarlega mikilvægur hlekkur í að ná árangri.
  • Rétt og sterkt hugarfar getur komið manni langt.
  • Ég er 26 ára og á hverjum degi finnst mér ég geta unnið í einhverjum af þessum hliðum til þess að bæta mig sem leikmaður enn frekar. Aldrei vera of sáttur við sjálfan þig, ekki vera södd og alltaf vilja meira til þess að toppa árangurinn þinn.

Hvað ætli sé framundan hjá Söru?

Það sem er framundan er deildin sem er ennþá í gangi og deildin klárast í maí. Við erum síðan komnar í 8 liða úrslit í Meistaradeildinni sem spilast í mars og svo er EM í Hollandi í júlí. Næsta ár verður gríðarlega krefjandi en spennandi og skemmtilegt sem ég get hreinlega ekki beðið eftir.

Höfundur: Sara Björk Gunnarsdóttir

NÝLEGT