Search
Close this search box.
Sjálfsást í september

Sjálfsást í september

Hæ rútína og hæ haust. Mikið er gaman að sjá ykkur aftur!

Persónulega er þetta uppáhalds árstíðin mín fyrir svo margar sakir; kertaljós og kósýheit, hægeldaðan heimilismat, litina í náttúrunni, skipulagið sem fylgir rútínunni og svo marg fleira.

Stundum skella skyldurnar þó heldur harkalega á enda byrjar einhvern veginn allt á sama tíma; klukkan byrjar að snúsa fyrir allar aldir, það þarf að skutla í skólann, umferðarteppan er mætt af fullum þunga og reynir á þolinmæðina, æfingar hefjast á ný og mulitask-ið og daglegu skyldurnar ná hámarki.

Undir venjulegum kringumstæðum reynist þessi innáskipting haustsins mörgum mjög krefjandi en ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að þessu sinni að ansi margir koma ekki endilega með fulla tanka af orku og gleði undan sumrinu eins og svo oft áður sökum skrítinna Covid tíma og því extra mikilvægt að hlúa vel að sér.

Ég mæli með því að taka hæg skref inn í það stress sem oft fylgir þessum fyrstu dögum og vikum haustsins, anda extra djúpt og víkja ekki frá sjálfsrækt og umhyggju til sjálfs síns. Með því að setja sjálfið í forgang og vera extra meðvitaður um líðan sína eru minni líkur á að við klessum á veggi hér og þar og njótum hvers dagsins vel og fallega.

Eins er mikilvægt að fara sér hægt í ætla að sigra heiminn, koma sér í form, breyta mataræðinu, mála heimilið og svona þetta helsta sem að kemur yfir mann á þessum tíma árs. Veljið okkur eitt verkefni í einu og gerum það vel og bætum svo við eftir orku, svigrúmi og löngun.

Munum sömuleiðis mikilvægi þess að miða okkur ekki við aðra og að þeir sem mannlegir eru, eru það ekki nema af því að þeir gera stundum alls konar mistök á leiðinni.

Ég ætla að dreifa smá self care fróðleik á instagram síðunni minni þennan september, sem ég ætla að kalla sjálfsást í september. Sjálfsást er ekki sjálfselska í merkingunni eigingirni. Heldur sjálfsrækt, til að hafa möguleika m.a. á að skína fyrir aðra og líða vel í og með sjálfum sér. Sjálfsást kemur í allskonar formi, smáu og stóru, en það skemmtilega er að þegar maður tileinkar sér nýja “litla” hluti verða oft risa stórar breytingar.

Verið velkomin með og fallegan september til ykkar allra.

https://www.instagram.com/kolbrunpalina/

Höfundur; Kolbrún Pálína Helgadóttir, markþjálfi og talskona muna.is

NÝLEGT