Hvað eru kraftlyftingar? Kraftlyftingar eru íþrótt þar sem keppt er í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Tilgangurinn er að lyfta sem þyngst og ræður samanlagður þyngdarárangur keppnisröð keppenda.
Ragnheiður Sigurðardóttir (Ragga) skrifar:
Ég heiti Ragnheiður og er kraftlyftingakona. Fyrir fimm árum vissi ég ekki hvað kraftlyftingar voru. Ég var bara nýbyrjuð hjá einkaþjálfara til koma mér í form eftir barneign. Hann hvatti mig til að prófa að keppa í kraftlyftingum en fyrst fannst mér það fráleit hugmynd.
Ég ákvað að kýla á að prófa það einu sinni. Þessi fyrsta keppni kveikti áhuga minn og allt í einu var þetta bara ekki jafn asnalegt og mér hafði þótt tilhugsunin. Í dag er ég handhafi 13 Íslandsmeta, hef orðið Íslandsmeistari, bikarmeistari og Norðurlandameistari og keppt á HM og EM. Það er óhætt að segja að kraftlyftingapaddan hafi læst klóm sínum í mig. Kraftlyftingar hafa gefið mér ótal margt og mig langar að deila með ykkur sjö góðum ástæðum fyrir konur að lyfta lóðum.


1. Kraftlyftingar auka líkamlegan styrk
Kraftlyftingar styrkja mann og því sterkari sem maður verður því þyngri lóðum getur maður lyft. Vinnan sem maður leggur í æfingarnar skilar sér til baka – sem er lykilatriði. Það er mögnuð tilfinning að sjá langtíma lyftingamarkmið sín, sama hver þau eru, verða að veruleika. Að auki verður ekkert mál að vera með barn á öðrum arminum eða innkaupapoka, flytja húsgögn, opna harðlæstar krukkur eða stunda fjallgöngur. Það sem áður var erfitt verður ekkert mál því hnébeygja, bekkpressa og réttstöðulyfta styrkja allan líkamann og gera lífið auðveldara.
Þannig stuðla kraftlyftingar að auknum afköstum í vinnu, betra sambandi við vini og fjölskyldu og gera mann almennt betri í að kljást við hverja þraut.
2. Kraftlyftingar göfga andann
Kraftlyftingar næra andann. Þegar maður lyftir þungum lóðum þarf hámarkseinbeitingu og þá er einfaldlega ekki hægt að hugsa ekki um neitt annað á meðan. Þessi einbeiting veitir hugarró og stuðlar að núvitund. Engu skiptir hvaða vandamál fylgja þér á æfinguna, þau hverfa um leið og stöngin tekur völdin. Eftir æfingu er hugurinn endurnærður og tilbúinn að fást við þau verkefni sem bíða. Þannig stuðla kraftlyftingar að auknum afköstum í vinnu, betra sambandi við vini og fjölskyldu og gera mann almennt betri í að kljást við hverja þraut.
3. Kraftlyftingar hægja á öldrun
Kraftlyftingar vinna gegn vöðvarýrnun, bæta jafnvægi, auka samhæfingu og minnka hættu á beinþynningu og beinbrotum á efri árum. Til viðbótar skerpa kraftlyftingar hugann og auka sjálfstraustið. Með því að stunda kraftlyftingar aukum við líkur á að því að verða sjálfbjarga heldri borgarar. Þannig að þegar við verðum komin á gullárin og erum að reima á okkur dansskóna í brúðkaupi barnabarnanna, að klífa Esjuna, á golfvellinum, á JóaPé og Króla tónleikum eða á leið á vit ævintýranna, þá munum við líta til baka og gefa sjálfum okkur þéttingsfast (því við erum jú sterkar) klapp á bakið fyrir að hafa lyft öllum þessum lóðum til að geta notið efri áranna til fulls.
Þægindaramminn er þægilegur staður en ekkert vex eða þróast þar!
4. Kraftlyftingar kasta þér út úr þægindarammanum og aga sjálfið
Kraftlyftingar ýta mér sífellt út fyrir þægindarammann og ýta mörkunum lengra og lengra. Að lyfta þyngd sem maður hefur ekki lyft áður getur verið mjög ógnvekjandi. Til þess að tækla það, þá þarf maður að byrja á að ná fullkomri stjórn á huganum, vera ákveðinn og berja í sig fulla trú um að þetta gangi! Oftast tekst lyftan og sigurinn er alltaf sætur.
En stundum eru bara ,,mánudagar”! Ég hef átt slæma daga og ekki lyft þeim þyngdum sem áttu að vera kökusneið en það hefur aldrei hvarflað að mér að gefast upp. Ósigur eykur hungrið og þegar sigurinn (hver sem hann er) næst þá verður hann mun sætari fyrir vikið. Járnið lýgur aldrei. Þægindaramminn er þægilegur staður en ekkert vex eða þróast þar!


Margir halda að kraftlyftingar séu bara fyrir beljaka og geri konur karlmannlegar. Það er gömul kjaftasaga.
5. Kraftlyftingar koma þér í geggjað form
Þegar ég var að byrja í kraftlyftingum var ég sífellt að heyra að ég þyrfti að passa mig að verða ekki of mössuð. Margir halda að kraftlyftingar séu bara fyrir beljaka og geri konur karlmannlegar. Það er gömul kjaftasaga. Fólk þarf alls ekki að vera stórt og mikið til að vera sterkt. Hins vegar geta kraftlyftingar breytt útliti iðkenda þar sem þeir auka vöðvamassa, grennast og komast í betra form. Konur eru nú að uppgötva hversu frábær íþrótt kraftlyftingar eru til að koma sér í gott form. Flestar bestu kraftlyftingakonur í heiminum eru nettar og í mjög góðu formi. Konur eiga raunar erfitt með að byggja upp mikinn vöðvamassa (nema þær misnoti stera).
Ég hafði smá áhyggjur af því að verða eða vera of mössuð þegar ég var tiltölulega nýbyrjuð, sem mér finnst fyndið að hugsa um í dag því þá var ég 5 kílóum léttari en ég er í dag og alls ekki með mikinn vöðvamassa. Nú þegar ég búin að lyfta í fimm ár og í besta formi lífs míns, heyri ég oft “Þú lítur ekki út fyrir að vera í kraftlyftingum”. Í kraftlyftingum fer fram mjög mikil brennsla og hún heldur áfram mörgum klukkutímum eftir að æfingu er lokið.
6. Kraftlyftingar stuðla að betri svefni
Ég er ein af þeim sem hefur átt erfitt með að sofa, alveg frá því að ég man fyrst eftir mér. Eftir að ég fór að lyfta þá fór ég að sofa miklu betur! Bæði næ ég að sofna fyrr og ég næ lengri svefnlotum.
7. Skemmtilegur félagsskapur
Ég hef kynnst ótrúlega skemmtilegu, kraftmiklu, gefandi og hvetjandi fólki í gegnum sportið. Ég hef eignast mjög góða vini og ekki skemmir fyrir að margir fjölskyldumeðlimir og vinir mínir lyfta. Maður verður partur af samfélagi sem samanstendur af frábæru fólki sem deilir áhugamáli og nennir að tala um stálið og það sem því tengist út í eitt. Þetta hljómar furðulega en það er með ólíkindum hversu skemmtilegt er ræða kraftlyftingar.
Kraftlyftingar eru íþrótt sem þú getur stundað alls staðar. Þú þarft bara tvennt: Góðan þjálfara og aðgang að lóðum. Ef þú ánetjast stálinu þá getur þú huggað þig við það að það er hægt að lyfta lóðum þangað til maður deyr. Fólk keppir í kraftlyftingum fram eftir öllum aldri. Ég hef séð með eigin augum fólk yfir nírætt að keppa á kraftlyftingamótum!
Gleymdu því kraftlyftinga-stereótýpunum, spenntu á þig kraftlyftingabeltið, rífðu í járnið og njóttu!
Höfundur: Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir
Íþróttafélag: Kraflyftingafélag Reykjavíkur
Instagram: raggita